Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:48:56 (4059)

1996-03-19 16:48:56# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:48]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða afar stórt mál sem ekki verður skoðað öðruvísi en að líta yfir önnur mál sem því tengjast en það er lífeyrisfrv. sem hæstv. fjmrh. hefur dregið til hliðar eða stungið niður í skúffu að sinni þó ég eigi ekki von á að það verði lengi. Það hefur verið boðað frv. um sáttastörf í vinnudeilum og jafnframt er verið að vinna í heilbrrn. frv. til laga um fæðingarorlof sem tengist þessum málum sem hér eru til umræðu. Öll þessi mál verður að skoða í samhengi þegar við erum að reyna að átta okkur á því hvað hér er á ferð. En í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að hæstv. fjmrh. er afar spenntur fyrir því sem ég kalla Nýja-Sjálands hagfræðina. Hann ætlaði sér að skella inn og koma í gegn með hraði miklum breytingum á þeirri löggjöf sem hér gildir um vinnumarkaðinn og opinbera starfsmenn en hann hefur fengið mjög hörð viðbrögð þó við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá það enn hvað úr verður.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar bauð hæstv. fjmrh. til sín fyrrverandi fjármálaráðherra Nýja-Sjálands til þess að af henni mætti læra hvernig ætti að ná tökum á vinnumarkaðnum í þeim nýsköpunaranda sem hann þykist hér vera að færa fram. Vissulega skal ég viðurkenna að það eru ýmsar góðar hugmyndir í því sem rætt hefur verið, m.a. á stórum ráðstefnum opinberra starfsmanna og forstöðumanna fyrirtækja en það eru líka miklar brotalamir á þessum hugmyndum.

Þessi fyrrverandi ráðherra á Nýja-Sjálandi, Ruth Richardson, ráðlagði stjórnvöldum einmitt að hefja leiftursókn og að koma frumvörpum í gegn þannig að ekki væri tími til viðbragða. Það var haft eftir henni í viðtölum sem við hana voru höfð að málamiðlanir væru ekki það sem stefna bæri að. Það væri lítið á þeim að græða. Menn yrðu að skilgreina sína stefnu og koma henni í gegn með hraði. En það er líka sérkennilegt að hæstv. fjmrh. vill bara læra sumt af þessum fyrrverandi fjármálaráðherra Nýja-Sjálands. Hún lagði mikla áherslu á það í sínu máli að stóru samflotin og heildarkjarasamningar héldu samfélaginu í gíslingu eins og hún orðaði það með því að láta einn samning gilda meira og minna fyrir alla eins og eftir henni var haft í Morgunblaðinu. Sú spurning vaknar hjá mér hvar heildarstefnan sé hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., eða hafa þeir ekki borið saman bækur sínar? Að því leyti get ég tekið undir hugmyndir Ruth Richardson um að þessi stóru samflot þar sem verið er að knýja stéttarfélög öll í sama farveg, bjóða ekki upp á þann sveigjanleika sem nútímavinnumarkaður krefst og tekur ekki tillit til mismunandi þarfa og menntunar og framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði og eru á engan hátt í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á vinnumarkaði enda er að því mér skilst verið að hverfa frá þessu alls staðar í Evrópu. Það er alls staðar verið að hverfa frá þessum stóru samflotum en þá á að fara að lögfesta þau á Íslandi. Reyndar hefur það verið í samræmi við stefnu VSÍ og ASÍ og vissulega verður ekki annað viðurkennt en að samráðið bar ákveðinn árangur. En þegar jafnvægi er komið á efnahagslífið er auðvitað ekki hægt að una við slíka sviptingu á samningsfrelsi. Því hljótum við að skoða það mál vandlega þegar það kemur. Ég er fyrir fram mjög andvíg slíkri leið sem verið er að leggja til í frv. til laga um sáttastörf í vinnudeilum. Ég get sagt það hér enn einu sinni að ég skil ekki þá hugsun að menn leggi áherslu á frjálsa samkeppni á öllum sviðum og geri allt til að innleiða hana en þegar kemur að launaþættinum þá á allt að vera niðurneglt og fryst. Þá er frelsið ekki til staðar. Þetta snýr ekki síst að þeim stéttum sem hafa haft lægst launin og þar eru auðvitað kvennastéttirnar mjög áberandi, ekki síst í opinberri þjónustu. Ef menn negla niður slíkt samningsfrelsi þá þýðir það auðvitað um leið að það er ekki hægt að stokka upp launakerfið. Það er ekki hægt að gera launakerfið réttlátt. Ég ætla að koma betur að því hér á eftir.

Hér er sem sagt með annarri hendinni verið að grípa einhverjar hugmyndir sem hæstv. fjmrh. eru þóknanlegar en það er greinilegt að það er ekki allt sem á upp á pallborðið. Ég held að hann ætti líka að skoða ýmsa aðra reynslu frá Nýja-Sjálandi því það er ekki allt vont sem þar hefur gerst þó það hafi reyndar haft mjög miklar félagslegar afleiðingar hvernig þar voru keyrðar í gegn breytingar á vinnumarkaði og breytingar á hinu félagslega kerfi. Þetta mál sem við erum hér að ræða snýr ekki aðeins að þeim sem nú eru ríkisstarfsmenn heldur ekki síður að þeim sem eiga eftir að verða ríkisstarfsmenn. Þó að hæstv. fjmrh. haldi því fram að hér sé ekki verið að skerða samningsbundinn kjör og jafnvel samningsbundin réttindi sem ég tel reyndar að sé alls ekki rétt hjá honum því hér er verið að breyta réttindum, þá snýr þetta ekki síður að því hvernig kjörin og réttindin verða hjá ríkisstarfsmönnum framtíðarinnar. Hvernig verða réttindi og skyldur þeirra sem eiga eftir að ráða sig í framtíðinni hjá ríkinu? Ef ríkið á að vera samkeppnishæft um fólk á vinnumarkaði þá vakna þær spurningar að ef réttindum og skyldum verður breytt eins og hér er verið að boða, hvar er þá sú mikla samkeppnisstaða? Hvar stendur ríkið þá? Því getur enginn neitað að áratugum saman hefur verið vísað til þessara réttinda ríkisstarfsmanna þegar samið hefur verið um kaup og kjör og laununum hefur verið haldið niðri með þeim rökum að ríkisstarfsmenn hafi meiri réttindi en starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Það hafa verið rökin. Þess vegna er ekki um annað að ræða en annaðhvort að semja við ríkisstarfsmenn um réttindi og skyldur ellegar að semja um það að launin hækki sem nemur þeim réttindum sem hér á að afnema. Það er aðeins um þetta tvennt að ræða.

Ég legg mikla áherslu á það að um launakjör ríkisins og um starfsemi ríkisins, hvort sem við erum að tala um skólakerfið, menntakerfið, eða heilbrigðiskerfið, þarf að ríkja ákveðin sátt. Það þarf að vera sátt í málefnum sem snerta nánast hvert einasta mannsbarn í landinu. Skólakerfið kemur við nánast hvert einasta heimili í landinu. Nánast allir þurfa fyrr eða síðar að leita til heilbrigðisþjónustunnar. Það sama gildir um aðrar ríkisstofnanir. Ég get ekki annað en lýst furðu minni á því hvernig hæstv. fjmrh. talar um ríkiskerfið. Það hefði mátt ráða það af máli hans hér áðan að það væri nú nánast allt á fallanda fæti hjá ríkinu. Það væri þvílík ógnarþörf á umbótum í átt til einhvers sem hann telur vera skylt gæðastjórnun. En ég fæ ekki séð að þær hugmyndir sem hér er verið að boða séu í samræmi við það sem ég veit um gæðastjórnun. Þá vitna ég þar fyrst og fremst til reynslu frá Bandaríkjunum.

En ég spyr hæstv. fjmrh.: Er hann þeirrar skoðunar að þjónusta ríkisins sé meingölluð? Ég veit ekki betur en að starfsmenn skóla og heilbrigðisstofnana og jafnvel ráðuneytanna, t.d. fjmrn. --- ég hef töluverða reynslu af því hér sem þingmaður að vinna með fulltrúum ráðuneytanna --- ég fæ ekki betur séð en að þar séu allir að vinna sitt verk með sóma. Við getum tekið nánast hvaða ríkisstofnun sem er. Ég nefni t.d. Hafrannsóknastofnun eða Orkustofnun. Er eitthvað mikið að í þessum stofnunum? Mér finnst að hæstv. fjmrh. geti ekki leyft sér að tala svona. En það breytir ekki því að menn eiga alltaf að vera að þróa starfið, bæta og breyta. Mér finnast það vera trúarbrögð sem menn skella hér alltaf fram að einkafyrirtæki séu alltaf og alls staðar betur rekin en ríkisfyrirtæki. Þetta er bara ekki rétt. Við höfum dæmi um margar ríkisstofnanir þó við göngum kannski ekki svo langt að rifja upp reksturinn á Hagstofunni sem var frægur á sínum tíma vegna hins gífurlega sparnaðar og hagræðis sem þar var ríkjandi. Hver pappírssnepill var nýttur sem hægt var að nýta þar. (Gripið fram í: Báðum megin.) Ég fullyrði að ríkisstarfsmenn yfir höfuð séu að vinna sitt verk vel þó auðvitað kunni að vera þar undantekningar á. Þannig að ég krefst þess af hæstv. fjmrh. að hann tali af virðingu um stofnanir ríkisins enda á hann að vera yfirmaður margra þeirra. Og við sem hér erum á hinu háa Alþingi höfum það starf að hafa eftirlit með öllu þessu kerfi. En eins og ég segi þarf auðvitað margt að bæta og breyta.

[17:00]

Þá kem ég að þeim þætti sem mér finnst í rauninni skipta mestu máli í þessu öllu saman því ég vil taka það fram að það er ýmislegt í þessu frv. sem ég tel að horfi til bóta þó að hér sé líka grundvallaratriði sem ég get ekki samþykkt. En það sem skiptir svo miklu máli í þessu öllu saman eru vinnubrögð. Það er það hvernig menn nálgast málin og hvernig menn ætla að ná árangri. Ég skil ekki þennan hugsunarhátt sem hefur svo lengi verið ríkjandi í Stjórnarráðinu og er ekki bara hjá þessari ríkisstjórn heldur þeirri síðustu líka og ríkisstjórninni þar áður þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh., að samskiptum við ríkisstarfsmenn sé best stjórnað þannig að þar sé alltaf allt í háa lofti. Ef það eru ekki verkföll og vinnudeilur eru það lög á ríkisstarfsmenn. Við erum búin að horfa upp á það á undanförnum árum að mikil óánægja hefur ríkt meðal ríkisstarfsmanna með launakjör og hver hópurinn á fætur öðrum hefur gripið til verkfallsvopnsins með afar alvarlegum afleiðingum fyrir þá sem það hefur bitnað á og fyrir þá sem hafa staðið í þeim verkföllum. Við hljótum að spyrja okkur, hæstv. fjmrh., einmitt þegar við fjöllum um frv. af þessu tagi hvernig þessi samskipti eru. Hvernig er hægt að bæta samskipti ríkisins og opinberra starfsmanna? Það er ekki hægt með því að gera einhliða árás á réttindi á skyldur, á verkfallsréttinn og á það hvernig samningum skuli háttað í framtíðinni. En það frv. er reyndar ekki komið fram á hinu háa Alþingi. Þessi samskipti sem eiga sér langa sögu eru verulegt áhyggjuefni og ef eitthvað hefur haft áhrif á starfsmenn ríkisins og vinnuumhverfi þeirra, vinnuanda, vinnusiðferði eru það þessar stöðugu einhliða árásir ríkisvaldsins og það hvernig hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur látið samninga og vinnudeilur fara í hinn versta hnút. Þetta þekki ég sjálf af eigin reynslu frá þeim kennaradeilum sem voru háðar á þeim tíma þegar ég var ríkisstarfsmaður og ég tel að hafi skaðað skólakerfið til langframa. Ég get líka nefnt að þau átök og niðurskurður og erfiðleikar sem heilbrigðiskerfið hefur glímt við á undanförnum árum hefur haft verulega áhrif á vinnuandann innan þeirra stofnana. Enda var þar vaðið fram án samráðs, án samvinnu og án þess að kynna málin fyrir fólki. En það, hæstv. fjmrh., er einmitt það sem samkvæmt skilningi mínum felst í hugtakinu gæðastjórnun, það er einmitt það að stjórna vel, að skapa góðan vinnuanda, að hafa samráð við fólk, að dreifa valdinu, að gefa fólki tækifæri á að hafa áhrif. Þarna hefur stjórnunarstíll kvenna haft veruleg áhrif samkvæmt því sem ég hef lesið frá Bandaríkjunum þar sem er einmitt talað um það sem sérstakt fyrirbæri sem menn hafa mjög mikið verið að horfa til þar sem aðallega er reynt að beita samráði og því að fólki líði vel á vinnustaðnum, að vinnustaðurinn sé í góðu umhverfi og að fólki finnist að það skipti einhverju máli það sem það er að gera. En hvernig menn ganga hér fram kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra.

Ég ætla að víkja að einstökum efnisatriðum þessa frv. Ég vil sérstaklega beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvað felst í því sem kemur fram í frv. í 12. gr. og í athugasemd við 12. gr. varðandi fæðingarorlofið. Hvað þýðir þetta sem hér er verið að boða? Um þann hóp, sem er ekki skilgreindur sem embættismenn segir í athugasemdum með 12. gr., með leyfi forseta:

,,Fyrir þá starfsmenn, sem nú falla undir lög nr. 38/1954 og ekki eru skilgreindir sem embættismenn samkvæmt þessu frumvarpi, myndi þetta þýða að um réttindi þeirra færi með sama hætti og annarra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að þeim væri tryggður lágmarksréttur til greiðslna í veikindaforföllum, en um frekari rétt yrði viðkomandi stéttarfélag að semja. Hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi þá færi það eftir 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993.``

Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta ekki að stór hópur ríkisstarfsmanna sem hefur hingað til notið fæðingarorlofs í samræmi við það sem gilt hefur um opinbera starfsmenn á að fara inn í tryggingakerfið? Mér finnst þetta vera stórmál ef ég hef skilið þetta rétt.

Ég ætla aðeins að færa mig framar í frv. og ég vil ekki láta hjá líða að nefna það sem hér kemur fram í 2. gr. þar sem sagt er: ,,Lög þessi taka ekki til forseta Íslands, ráðherra eða alþingismanna.`` Samkvæmt skilningi mínum á þrískiptingu ríkisvaldsins eiga ákvæði sem snerta alþingismenn og ráðherra ekki heima í lögum af þessu tagi. Alþingismenn eru ekki opinberir starfsmenn í skilningi laga. Um þá gilda sérstök lög. Ég set spurningarmerki við að framkvæmdarvaldið sé með þessum hætti að skipta sér af Alþingi og alþingismönnum. En þegar efh.- og viðskn. fékk kynningu á þessu frv. kom það fram að þetta væri einfaldlega gert til þess að gera það skýrara til hverra þessi lög næðu en mér finnst það vera spurning hvort það eigi yfir höfuð að nefna þarna þá sem eru samkvæmt skilgreiningi laga ekki opinberir starfsmenn.

Ég vil fagna því að á nokkrum stöðum í frv. er minnst á jafnan rétt kvenna og karla og það veitir ekki af að minna þá sem fara með stöðuráðningar á að þeim ber að gæta þess að konur og karlar hafi jafnan rétt til opinberra starfa og jafnframt að konur og karlar hafi sama rétt til annarra kjara sem boðið er upp á en þar er mjög mikill misbrestur á.

Varðandi 7. gr. spyr ég eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hverju það sæti að ekki eigi að auglýsa öll störf hjá ríkinu. Ég gæti skilið að menn gerðu kannski undanþágu varðandi sumarafleysingar eða eitthvað slíkt en mér finnst það vera grundvallarregla að það eigi að auglýsa öll opinber störf þannig að allir hafi tækifæri til að sækja um þau. Í 7. gr. segir: ,,Forstöðumanni stofnunar er heimilt að setja sérreglur um það hvernig auglýsa skuli störf hjá stofnuninni enda sé það gert opinberlega og reglurnar hljóti staðfestingu fjármálaráðherra.`` Samkvæmt þessu geta verið mjög mismunandi reglur milli stofnana en mér finnst einfaldast og skilvirkast að sú regla gildi að allar stöður séu auglýstar.

Í 2. mgr. 8. gr. segir: ,,Hver sá, er starf veitir, getur sett starfsmanni erindisbréf.`` Ég velti því fyrir mér hvort það eigi ekki að vera rétt og skylt að allir fái erindisbréf. Eða a.m.k. í öllum þeim störfum þar sem fólk ber ákveðna ábyrgð. Auðvitað bera allir ábyrgð en það er oft einfaldara og skýrara að fólk hafi erindisbréf og viti nákvæmlega í hverju starf þess er fólgið.

Þá kem ég að því ákvæði 9. gr. sem hefur allnokkuð verið rætt hér sem snertir það að forstöðumenn stofnana geti ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum sem ákvörðuð eru eða samið er um. Jafnframt segir: ,,Ráðherrar geta enn fremur ákveðið að greiða forstöðumönnum einstakra stofnana, sem undir þá heyra, laun fyrir árangur í starfi til viðbótar þeim launum sem ákvörðuð eru skv. 1. mgr.`` Í rauninni lít ég þannig á að hér sé verið að lögfesta það sem hefur verið viðtekið. Svo mikið er víst að eins og launakerfi ríkisins er núna þá er það algjörlega óviðunandi, allar þær undirborðsgreiðslur og greiðslur fyrir óunna yfirvinnu og sporslur af ýmsu tagi sem menn fá m.a. til þess að ríkið sé samkeppnishæft við almennan vinnumarkað og geti ráðið til sín sérhæft starfsfólk. Fyrst og fremst á launakerfið að vera sýnilegt og ákveðnar reglur að gilda þar. Ég vil ekki taka afstöðu gegn þessu ákvæði hér. Það getur oft verið réttlætanlegt að ákveðinn hvati sé til staðar. Þetta er víða við lýði, t.d. í háskólum í Kanada og víðar, það er það dæmi sem ég man eftir. Menn verða að skoða mjög rækilega hvaða afleiðingar það hefur að hafa slíkt kerfi sem er einhvers konar hvati innan stofnunar. Það getur líka haft mjög neikvæð áhrif, ekki síst þegar tekinn er upp alls konar feluleikur í kringum það.

Ég var búin að nefna 12. gr. sérstaklega og þá vil ég líka nefna annað ákvæði sem ég tel vera mjög jákvætt og það er að binda það í lög að starfsmenn eigi rétt á sveigjanlegum vinnutíma. Það er mjög jákvætt ákvæði og löngu tímabært að taka upp. Ég minni á að þingkonur Kvennalistans hafa árum saman flutt tillögur um að sveigjanlegum vinnutíma yrði komið á, ekki síst hjá ríkinu. Ég tel að þetta sé mjög til bóta og muni koma m.a. foreldrum smábarna til góða.

Þá kem ég að skyldum ríkisstarfsmanna. Þar vil ég vekja athygli á því hvort ekki ætti að taka fyrir kynferðislega áreitni í kaflanum um skyldur ríkisstarfsmanna, þ.e. að það sé vikið að því hvernig hægt sé að taka á slíkum málum ef upp koma. Við kvennalistakonur höfum verið að velta því fyrir okkur hvar í lögum slík ákvæði ættu heima og einn sá lagabálkur sem hefur verið nefndur í því sambandi eru lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þau lög ná til allra ríkisstarfsmanna, jafnt svokallaðra embættismanna sem annarra. Hér er akkúrat tækifæri til að koma inn slíkri lagagrein.

[17:15]

Ég get ekki annað en minnst á 16. gr. þar sem vikið er að því að starfsmenn skuli koma stundvíslega til starfa hvort heldur er að morgni eða eftir hlé. Þetta er óbreytt frá gildandi lögum. Það væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. fjmrh. hyggst fylgja þessu eftir eða hvort úrbætur eru fyrirhugaðar hvað varðar þetta atriði. Mín reynsla er að það er oft afar erfitt að ná í sérstaklega forstöðumenn stofnana eftir hlé. Það veitti ekki af að taka þar á.

Í 22. gr. kemur skilgreining á því hverjir eru embættismenn. Þar eru tíundaðir starfsmenn Alþingis og stofnana þess. Ég vek aftur athygli á því sem ég nefndi áðan að það er spurning hvort --- reyndar teljast starfsmenn Alþingis líklega ríkisstarfsmenn í skilningi laganna. En ég vildi nú gjarnan skoða það nánar. Síðan kemur þetta mjög svo alvarlega atriði sem er dæmi um einhliða árásir hæstv. fjmrh. og manna hans og felast hér í 7. lið 22. gr., þar sem ákveðnir hópar sem nú hafa verkfalls- og samningsrétt eru sviptir þeim rétti. Þeir eru skilgreindir sem embættismenn og samkvæmt því sem verið er að leggja til í þessu frv., hafa þeir ekki verkfalls- og samningsrétt. Þetta er hlutur sem þarf að semja um. Ég minnist þess að þáverandi hæstv. fjmrh., Albert Guðmundsson, spurði hvar í veröldinni það tíðkaðist að lögreglan færi í mótmælagöngur eins og gerðist hér fyrir allnokkrum árum. En við vitum líka að lögreglumenn hafa verið afar óhressir með sín kjör. Ég veit ekki hvað um þá verður ef þeir eiga að fara hér undir kjaranefnd væntanlega. Það er mál sem þarf að taka á sérstaklega og semja við þá hópa um. Það er augljóst mál.

Hæstv. forseti. Hér eru ýmis önnur atriði sem vert er að vekja athygli á. Ég ætla að taka eitt atriði í viðbót sem mér finnst skipta mjög miklu máli. Það er 33. gr. þessa frv. þar sem reyndar er verið að fjalla um embættismenn og ég hygg að sú regla gildi um alla starfsmenn ríkisins. En það er þessi spurning hvort ríkið eigi að halda svo fast í það að fólk hætti störfum 70 ára gamalt. Þá er ég ekki að vísa til þess að fólk eigi að fá að vera lengur við störf heldur fyrst og fremst það hvort ekki er nauðsynlegt og öllum til bóta að tíminn geti verið sveigjanlegur og sveigjanlegri en hér er boðið upp á. Hér er nefnt í framhaldinu að sé maður 65 ára þegar hann er skipaður tímabundið þá á að miða það við að hann hætti þegar hann nær 70 ára aldri. Hér er viðmiðunin sú að embættismenn skuli hætta við 70 ára aldur. Ég held að ég fari rétt með það. Ég man ekki til þess að þetta sé nefnt áður þar sem verið er að fjalla um starfsmenn ríkisins almennt, heldur er það almenn stefna ríkisins að menn hætti sjötugir. Ég get nefnt sem dæmi kennarastéttina og ýmsa þá sem vinna í heilbrigðisþjónustunni og víðar þar sem fólk er undir miklu álagi að það getur verið mjög rík ástæða til þess að fólk eigi þess kost að hætta fyrr. Þessar reglur gilda reyndar um einstaka stéttir eins og flugumferðarstjóra og eflaust fleiri. Ég held ég muni rétt að lögreglumenn hafi getað hætt fyrr, en hér finnst mér vera um mjög stórt atriði að ræða og spurning hvort það sé rétt af ríkisvaldinu að miða svona fast við þennan ákveðna aldur.

Ég vil þá aðeins víkja að því atriði hvernig verið er að færa valdið til stjórnenda stofnana. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að yfirmenn stofnana eru nánast eftirlitslausir nema hvað þeir heyra undir ákveðinn ráðherra. Mér finnst sú stefna sem skín út úr þessu frv. alls ekki í samræmi við þær hugmyndir sem nú eru efst á baugi um góða stjórnunarhætti og það sem kallað er gæðastjórnun. Þetta er mjög ólýðræðislegt eins og það birtist í frv. Það hefur þegar komið fram að þetta veldur óánægju meðal ríkisstarfsmanna. Ég held að við ættum að skoða þetta atriði mjög alvarlega. Hér er um nokkra breytingu að ræða og mér finnst hæstv. fjmrh. þurfa að skýra það betur fyrir okkur hvað liggur þarna að baki, eða hver réttur starfsmanna er. Við hér á Íslandi höfum ekki leitt í lög þær tilskipanir Evrópusambandsins sem snúa að rétti starfsfólks þegar uppsagnir eiga sér stað, en innan Evrópusambandsins eru miklu strangari reglur um að ekki sé hægt að segja fólki upp störfum án skýringar og að fólk hafi rétt, það geti fengið að vita ástæður og varið sig. Hér er reyndar gert ráð fyrir því í frv. að fólki sé veitt áminning en það er þó ekki alltaf skylt að veita áminningu. Ég er ekki að gera því skóna að menn fari að grípa til þess að segja fólki upp í stórum stíl en þarna á réttur starfsfólks að vera ríkur. Fólk á að njóta starfsöryggis og það eiga að vera gildar ástæður fyrir því að fólki sé sagt upp. Það er þessi valdahugsun og yfirstjórn sem gengur í gegnum frv. sem er ákaflega ógeðfelld.

Hæstv. forseti. Það væri hægt að nefna margt fleira í sambandi við þetta frv. En það sem skiptir mestu máli er, eins og ég nefndi áðan, að það þarf að þróa og bæta ríkisreksturinn. Auðvitað eigum við að stefna að því að fara eins vel með skattfé borgaranna og hugsanlegt er. Við eigum að skilgreina í hvaða rekstri ríkið á að vera, hverju það á að sinna og um það þarf að ríkja sátt. En fyrst og fremst þurfa menn að vinna með þeim hætti að vera ekki sífellt að setja samfélagið á annan endann með vinnubrögðum af því tagi sem ríkisstjórnin hefur iðkað. Þar kom greinilega í ljós að annaðhvort voru menn með hrein og klár bolabrögð eða þá að vinstri höndin vissi ekki hvað sú hægri gerði þegar menn voru annars vegar að semja frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda og með hinni hendinni að útbúa þetta frv. sem felur í sér miklar breytingar. Þetta varð til að hleypa mjög illu blóði í undirbúning flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna vegna þess að öllum hlaut að vera ljóst að þær breytingar sem yrðu gerðar á kjörum, réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna, jafnvel þótt við tökum bara þá sem verða nýráðnir, hlytu að hafa áhrif á sveitarfélögin. Þótt hæstv. menntmrh. hafi talið sig vera fyrst og fremst að flytja núgildandi ástand frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna hlýtur maður að skilja að væntanlegir starfsmenn sveitarfélaganna skyldu bregðast hart við. Auðvitað sáu þeir fram á að þessi réttindi yrðu skert þar líka. Það ríkir töluvert samræmi milli ríkis og sveitarfélaga þótt reyndar sé þar um ýmis konar mismunandi réttindi að að ræða.

Hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til þess í hv. efh.- og viðskn. að fara rækilega í gegnum þetta mál. Eins og ég hef nefnt, er ýmislegt jákvætt í þessu frv. en hér er líka um grundvallaratriði að ræða sem snerta samskipti ríkisins og starfsmanna þess á vinnumarkaðnum. Það er ljóst að ef meiri hlutinn á hinu háa Alþingi ætlar að keyra þetta frv. í gegn án breytinga, mun það kosta átök á vinnumarkaði. Ég held að óhætt sé að fullyrða það, ef marka má viðbrögð opinberra starfsmanna. Hér skiptir máli að vera réttlátur, virða réttindi og skyldur þeirra sem vinna hjá ríkinu og koma hér á eðlilegu samráði. Að sjálfsögðu á að hætta við þær breytingar sem boðaðar hafa verið á fæðingarorlofsmálum og lífeyrismálum eins og þau standa. Ég get tekið undir með hæstv. fjmrh. að það þarf að fara mjög rækilega í gegnum þau mál og ná þar samkomulagi. Síðast en ekki síst verður að hverfa frá þeim áformum að ætla að steypa allan vinnumarkaðinn hér í þetta endemis samráð sem gerir ekkert annað en að viðhalda óréttlátu launakerfi.