Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 17:27:24 (4060)

1996-03-19 17:27:24# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[17:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni fyrir málefnalega ræðu. Það stendur ekki til að keyra þetta frv. í gegnum þingið án breytinga. Þvert á móti hefur því verið lýst yfir að aðstandendur frv. eru tilbúnir til að breyta því.

Í öðru lagi vil ég að komi fram vegna ummæla ræðumanns að ég tel að ég hafi gert mér far um það í mínu starfi að sýna fram á hvað vel hefur verið gert í ríkisrekstrinum. Ég vísa því á bug að ég hafi talað um ríkisstarfsmenn með lítilsvirðingu. Og ég vil endurtaka það enn einu sinni að það er rangt að það hafi ekki verið efnt til samstarfs um þetta mál. Það sem gerðist var að þegar frumvarpsdrögin voru lögð fram í hendur fulltrúum opinberra starfsmanna var farið með þau út og barist gegn þeim þannig að við náðum því miður aldrei að ræða efnislega um þessi frv. Varðandi ummælin um kennarana, að það væri sérkennilegt að hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri gerði, var skýrt tekið fram um þá að það stæði til að gera þessar breytingar. Það sama gildir um Póst og síma. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁ): Þögn í sal.)

Það var tekið með í frv. um réttindi og skyldur kennara og greinargerðina og kynnt þeim sem stóðu að frv. Líka kennurunum sem vissu nákvæmlega að hverju þeir gengju, þótt þeir lýstu ekki yfir stuðningi við þetta frv., enda var það þá aðeins til í drögum.

Ef menn lesa 12. gr. og ákvæði til bráðabirgða, 2. mgr. ef ég man rétt, kemur berlega í ljós að það er ekki verið að breyta neinum réttindum hvað varðar fæðingarorlof. Enda tel ég að það hefði ekki verið hægt. Það er kjarabundinn og samningsbundinn réttur. Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram hér í andsvari.