Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:27:33 (4070)

1996-03-19 18:27:33# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú kemur hæstv. fjmrh. og segir, ég held ég hafi náð því orðrétt: Það er hugmyndin að það gildi gagnsæjar reglur. Það stendur ekki í frumvarpstextanum. Það er ekki það sem við getum lesið út úr þessum texta sem þarna er. Eigum við þá ekki að setja það í lögin? Eigum við ekki að ganga þannig frá málinu að það sé ljóst hvernig þetta verði. Ég segi alveg eins og er og það kom reyndar fram í máli mínu áður en hæstv. fjmrh. kom hér upp í andsvari að það er m.a. ein ástæðan fyrir því að ég er tortrygginn á það hvernig frá þessu er gengið. Ég tel að þá eigi að lögfesta og afmarka leiðsögn um það hvernig með svona vald --- að svo miklu leyti sem það er fyrir hendi --- er farið, vegna þess að ég er á móti því að framselja geðþóttavald af þessu tagi til forstöðumanna stofnana eða hæstv. ráðherra, jafnmerkir sem þeir eru. Ég tek það fram að ég er ekki að segja það vegna þess að ég óttast að núv. hæstv. fjmrh. fari verr með það vald en aðrir. En mér finnst almennt að slíkt eigi að vera að lágmarki í löggjöf af þessu tagi. Og það er þannig að hér, eins og svo oft áður, geta verið tvær hliðar á sama peningnum. Það er ekki heldur hægt að horfa fram hjá þeirri hættu að málið svona úr garði gert gæti verið farvegur fyrir aukinn launamun, ekki endilega milli kynja heldur innbyrðis aukinn launamun opinberra starfsmanna, að það dragi enn hraðar í sundur en ella með þeim sem komast upp í efri lögin og geta í krafti aðstöðu sinnar eða nálægðar við forustumenn og toppa knúð fram betri kjör.

Ég var ekki sérstaklega að ráðast á þá þætti sem hæstv. fjmrh. nefndi hér. Ég held að ég hafi gert einna minnst úr þeim af flestum ræðumönnum. Ég var að reyna að draga fram stóru pólitísku drættina í þessu máli. Og ég varaði einmitt við því að menn týndust alveg í pexi um biðlaun og fyrirfram- og eftirágreidd laun og eitthvað því um líkt.

Að lokum er það þannig að komi á dagskrá hér að ræða um setningu bráðabirgðalaga í tíð fyrrv. og núv. ríkisstjórna þá er ég alveg tilbúinn til þeirrar umræðu. Ég held ég fari alveg rétt með það að hæstv. núv. fjmrh. og félagar hans í núv. og fyrrv. ríkisstjórn eiga algjört met í því að setja bráðabirgðalög. Þeir hafa tekið af kjaradóma og tekið af ýmiss konar réttindi trekk í trekk með bráðabirgðalögum. Þannig að við skulum bara skella okkur í þá umræðu ef það er efnislegt, herra forseti, og heyrir undir þennan dagskrárlið.