Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 21:11:57 (4077)

1996-03-19 21:11:57# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[21:11]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Í því frv. sem hér er til umræðu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru tekin til endurskoðunar lagaákvæði jafnframt því sem boðað er að fram komi frv. um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Ég vil af því tilefni freista þess að gera grein fyrir viðhorfum mínum til þeirra mála sem þessi tvö frumvörp munu grípa á og í samræmi við þá meginreglu að menn lýsi almennum viðhorfum til málsins við 1. umr. en hins vegar til einstakra efnisgreina í 2. umr.

Á undanförnum áratugum hefur þróast mjög mismunandi réttarstaða launþega hjá hinu opinbera annars vegar og á almennum vinnumarkaði hins vegar. Þá ber að geta þess að allstór hluti starfsmanna hjá hinu opinbera fellur einnig undir kjarasamninga ASÍ-stéttarfélaganna. Þessi þróun endurspeglast í skiptingu verkalýðshreyfingarinnar í annars vegar stéttarfélög opinberra starfsmanna og þá fyrst og fremst ríkisstarfsmanna og hins vegar stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands. Ég tel að þessi uppskipting hafi veikt verkalýðshreyfinguna, sér í lagi sú staðreynd að menntamenn safnast saman í sérfélög um sína hagsmuni í stað þess að fylkja sér með öðrum launþegum.

Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að þessar tvær fylkingar launþega renni saman í eina öfluga launþegahreyfingu. Ég tel það mikilvægasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir að vinna að þessari samfylkingu. Til þess að ná fram þessu markmiði þarf að samræma stöðu launþega og þar með talið réttarstöðu þeirra, verkfallsrétt, samningsrétt og lífeyrisrétt. Ég er því á þeirri skoðun að rétt sé að samræma stöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði út frá almennum hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar. Samræmd lífeyrisréttindi eru nauðsynleg til þess að þessi þróun megi verða. Í þessari skoðun um samræmd kjör felst ekki að skerða eigi kjörin í heild sinni, hins vegar mun slík samræming óhjákvæmilega leiða af sér að ýmsir þættir kjaranna breytast frá því sem nú er.

[21:15]

Erfiðasti hjallinn er tvímælalaust lífeyrisréttindin, einkum í ljós þeirrar staðreyndar að lífeyrisskuldbindingar vegna opinberra starfsmanna eru einn hinn alvarlegasti vandi ríkissjóðs og munu fara vaxandi að óbreyttu. Það verður ekki undan því vikist að grípa til aðgerða á þessu sviði. Lífeyrisskuldbindingar A-hluta ríkissjóðs, þ.e. loforð um lífeyri umfram það sem til er í sjóði, nema um 67 þús. millj. kr. og þessi skuldbinding vex um 3,6 milljarða kr. á hverju ári umfram innkomin iðgjöld. Er talið að lífeyrisiðgjöld standi ekki undir nema 1/5 hluta skuldbindinga. Auk þessarar skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs er áætlað að skuldbindingar vegna starfsmanna í B-hluta stofnana ríkisins séu um 12 milljarðar kr.

Ég minni á álit yfirskoðunarmanna ríkisreiknings sem fram kemur í endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1994, með leyfi forseta:

,,Hér þarf tafarlaust að taka á. Í fyrsta lagi á málunum í heild, en í annan stað einstökum vandamálum sem hlaða upp á sig.``

Það gengur ekki að safna árlega upp skuldbindingum og vísa á framtíðina til greiðslu þeirra. Það er óásættanlegt fyrir þá sem búa við lífeyrisréttindi sem takmarkast af iðgjöldum að þurfa í framtíðinni að borga sérstakan skatt til að standa undir lífeyrisréttindum annarra. Það á ekki að veita betri lífeyrisréttindi en iðgjaldagreiðslur standa undir. Vilji alþingismenn viðhalda óbreyttum lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, ber þeim að afla tekna til þess að standa undir réttindunum. Vilji menn ekki afla nægilegra tekna ber að skerða réttindin. En það er eitt sem ekki er hægt að gera og það er að veita betri réttindi en iðgjöldin standa undir.

Það er verkefni ríkisvaldsins og starfsmanna þess að semja um lífeyrisréttindi á þessum grundvelli. Auk þeirrar stefnu að færa saman starfskjör opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði tel ég nauðsynlegt að draga úr miðstýringu ríkisvaldsins. Valddreifing í opinberum rekstri er bráðnauðsynleg, hvort heldur er um að ræða að færa vald til stofnana ríkisins í starfsmannamálum eða almennt auka sjálfstæði þeirra.

Undanfarna áratugi hefur uppbygging opinbers reksturs grundvallast á sterkri miðstýringu og er kominn tími til að snúa af þeirri braut og er ég þá með í huga að dreifa opinberu valdi út um land. Niðurstaða mín er þessi:

1. Stefna á að því að sameina verkalýðshreyfinguna og færa saman réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á hinum almenna markaði.

2. Dreifa á valdi til einstakra stofnana ríkisins.

3. Taka á tafarlaust á því gríðarlega vandamáli að veitt skuli lífeyrisréttindi sem eru meiri en iðgjöld standa undir.

Að því marki sem frv. fellur að þessum sjónarmiðum er það til bóta. Í frv. eru hins vegar atriði sem ganga til annarrar áttar og eru óásættanleg. Þar vil ég fyrst nefna ákvæði 2. mgr. 47. gr. sem er greinilega sett til að brjóta niður afl stéttarfélaganna. Það hlýtur að vera grundvallarregla í samskiptum ríkisins og stéttarfélaganna að samningsréttur um kaup og kjör sé hjá félögunum. Þá er ákvæði 17. gr. um skyldu starfsmanna til að vinna yfirvinnu fullkomlega andstætt grundvallarreglunni um að launþegi sé frjáls að því að vinna yfirvinnu. Valddreifingu fylgir að ákvörðun um launakjör flyst að einhverju leyti til stofnana. Það þarf að vera sem mest á grundvelli samnings við stéttarfélög sem kjörin víkja frá grunnlaununum. Og ég hef efasemdir um ákvæði 9. gr. um rúma heimild forstöðumanna stofnana til einstaklingsbundinna frávika.

Þá þarf að huga að ákvæðum 49. gr. um málskotsrétt vegna ákvarðana stjórnvalda, ekki hvað síst í tengslum við valddreifinguna. Það er nauðsynlegt að starfsmaður ríkisins eigi ávallt leið til að fá athugaða af sæmilega hlutlausum aðila bersýnilega ósanngjarnar ákvarðanir stjórnvalds sem yfir honum er.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli dregið saman almenn viðhorf mín til breytinga á umhverfi í opinberum rekstri auk þess að nefna nokkur atriði í þessu frv. sem mér þykja afar ósanngjörn. Þau mega því gjarnan missa sig. Að öðru leyti geymi ég mér umfjöllun um einstök efnisatriði frv. til 2. umr.