Embætti umboðsmanns jafnréttismála

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:41:23 (4096)

1996-03-20 13:41:23# 120. lþ. 111.3 fundur 279. mál: #A embætti umboðsmanns jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Um nokkurra ára skeið hafa verið starfrækt embætti umboðsmanns jafnréttismála í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Í Danmörku er nú verið að endurskoða jafnréttislögin og þar hefur komið til tals að endurskipuleggja kerfið og koma á slíku embætti umboðsmanns. Hér á landi er starfandi Jafnréttisráð ásamt kærunefnd og skrifstofu jafnréttismála en ekki verður fram hjá því horft að jafnréttislögin eru ekki virt sem skyldi og hér skortir mjög á framkvæmdarvald til þess að fylgja þeim eftir. Munurinn á því kerfi sem hér er við lýði og því sem ríkir á Norðurlöndum er einmitt að umboðsmenn jafnréttismála hafa vald til þess að grípa inn í, til þess að eiga frumkvæði, til þess að halda stofnunum við efnið og benda á þegar brot eru framin eða sýnt að brot séu jafnvel fram undan. Þannig er t.d. heimilt í Noregi að grípa inn í stöðuveitingar og umboðsmaður getur óskað eftir upplýsingum um stöðuveitingar áður en þær hafa átt sér stað.

Í Svíþjóð virkar umboðsmaður jafnréttismála nánast eins og saksóknari og beitir sér í þágu einstaklinga og t.d. er nýlega fallinn þar merkur dómur í launamálum sem umboðsmaður vann fyrir dómstólum.

Eins og ég nefndi áðan er framkvæmdarvald Jafnréttisráðs á skrifstofu jafnréttismála afar lítið og þyrfti að mínum dómi að styrkja verulega. Við höfum dæmi hér á landi um stofnun og ráð sem eru samkeppnislögin með sitt samkeppnisráð sem hefur verulegt vald til þess að grípa inn í gang mála. Hér eru því vissulega fordæmi fyrir því að stofnunum er gert að sjá til þess að lögum sé framfylgt.

Nú hefur umræða um umboðsmann jafnréttismála verið afar lítil hér á landi og þar sem jafnréttislögin verða 20 ára á þessu ári er vissulega tímabært að huga að því hvort ekki ber að endurskoða það kerfi. Því spyr ég hæstv. félmrh.:

,,Hver er afstaða ráðherra til stofnunar embættis umboðsmanns jafnréttismála hér á landi?``