Embætti umboðsmanns jafnréttismála

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:44:20 (4097)

1996-03-20 13:44:20# 120. lþ. 111.3 fundur 279. mál: #A embætti umboðsmanns jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. þm. lýsir eftir skoðun minni eða afstöðu til stofnunar embættis umboðsmanns jafnréttismála. Ég geng út frá því að hún eigi við stofnun sem væri hliðstæð slíkum embættum á Norðurlöndum sem tæki við kærum og kvörtunum frá einstaklingum og sem telja að á sér hafi verið brotin ákvæði jafnréttislaga.

Frá árinu 1976 hafa Jafnréttisráð og skrifstofa jafnréttismála annast mál af þessu tagi. Með nýjum jafnréttislögum árið 1991 var sett á laggirnar sérstök kærunefnd jafnréttismála. Verkefni hennar var að taka við ábendingum um brot á ákvæðum jafnréttislaga. Þar af leiðandi virðist mér að þörfin fyrir stofnun sérstaks embættis umboðsmanns jafnréttismála ekki vera við nýverandi aðstæður sérlega brýn. Ég er hins vegar alveg tilbúinn að hlusta á rök sem mæla með stofnun slíks embættis og ég hef ákveðið að ráða í starf jafnréttisráðgjafa á næstunni í samræmi við ákvæði framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum.

[13:45]

Í niðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins um afnám alls misréttis gagnvart konum voru ýmsar tillögur og tilmæli til að tryggja að markmið samningsins næðust fram. Þar var höfuðáherslan lögð á vinnumarkaðinn, að tryggja konum sömu möguleika og körlum og sérstakar aðgerðir í því sambandi og atriði eins og starfsmat. Það komu hins vegar ekki tillögur um umboðsmann jafnréttismála. Ég tel að í ljósi þess hve margt er ógert í jafnréttismálum sem krefst beinna aðgerða af hálfu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sé mikilvægara að styðja skrifstofu jafnréttismála og starfsemi að jafnréttismálum á landsbyggðinni í formi jafnréttisráðgjafa og láta embætti umboðsmanns jafnréttismála bíða um sinn.

Ég vil láta þess getið að ég mun setja í gang vinnu alveg á næstunni við að endurskoða jafnréttislögin. Þá tel ég að það komi vel til skoðunar hvort kærunefndin dugi, hvort kærunefnd væri betur fyrir komið með öðrum hætti svo sem eins og umboðsmanni. Í stuttu máli er svar mitt það að ég hef ekki uppi áform um að setja á stofn embætti alveg á næstunni. Ég vil byrja á öðru og láta það a.m.k. bíða niðurstöðu úr endurskoðun jafnréttislaga.