Embætti umboðsmanns jafnréttismála

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:47:36 (4098)

1996-03-20 13:47:36# 120. lþ. 111.3 fundur 279. mál: #A embætti umboðsmanns jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá félmrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil af tilefni þessarar fyrirspurnar nefna að ég átti sæti í þeirri nefnd sem síðast endurskoðaði lög um jafnréttismál karla og kvenna í aðdraganda þeirrar lagasetningar sem varð 1991. Í þessari nefnd lagði ég til að það yrði stofnað embætti umboðsmanns jafnréttismála. Það hlaut hins vegar ekki stuðning forustu í nefndinni eða þáv. ráðherra að það yrði tekið inn. Ég vil ekki segja með hvaða hætti það reyndi á gagnvart ráðherranum, a.m.k. var ekki undir það tekið af meiri hluta þá. Ég heimsótti umboðsmann jafnréttismála í Ósló í tengslum við skoðun þessara mála og ég er sannfærður um að það ætti að vera búið að koma þessu embætti á laggirnar hliðstætt því sem er á öðrum Norðurlöndum. Ég hef kynnt í þingflokki mínum þá hugmynd að flytja brtt. á jafnréttislögunum um þetta efni, um að sett verði á fót og lögfest embætti umboðsmanns jafnréttismála og fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan um jafnréttisráðgjafana. Ég gerði tillögu um að í hverju kjördæmi yrði stefnt að því að þar yrði jafnréttisráðgjafi, a.m.k. þrír, en úr þessu var dregið við lagasetninguna, því miður að mínu mati. Ég held að það væri rétt að skoða að flytja brtt. á jafnréttislögunum um þetta efni, þótt málið komi síðan til heildarendurskoðunar, til að forma nánar hugmyndir um þetta. Ég held að það sé mikilvægt, virðulegur forseti, að við höfum hliðstætt kerfi og er á hinum Norðurlöndunum, að þar skapist skilmerkilegt samstarf á milli málafylgju um jafnréttismál.