Embætti umboðsmanns jafnréttismála

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:51:50 (4101)

1996-03-20 13:51:50# 120. lþ. 111.3 fundur 279. mál: #A embætti umboðsmanns jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið undir þetta mál og hæstv. félmrh. fyrir svörin. Mér fannst hann opna á það að aðgerðir gætu hafist í þessu máli. Það er auðvitað spurning hvort við eigum fyrst að fara í að endurskoða lögin og skoða þar með í heild það kerfi sem við höfum byggt upp hjá ríkisvaldinu varðandi jafnréttismálin, en mín skoðun er sú að það sé mjög mikilvægt að styrkja framkvæmdarvaldið og það eftirlitshlutverk sem þarf að vera til staðar til að sjá til þess að lögunum sé framfylgt.

Ég vísa þar aftur til þess fyrirkomulags sem við höfum komið á varðandi samkeppnislögin þar sem um býsna sterkt vald er að ræða og vald sem er virkt. Menn verða að gæta sín á því að rugla ekki saman eða blanda saman embætti umboðsmanns jafnréttismála annars vegar og svo kærunefnd hins vegar. Á þessu er munur. Kærunefnd tekur á málum eftir á, umboðsmaður getur gripið inn í strax í byrjun og jafnvel átt frumkvæði að skoðun. Slíkt vald hefur kærunefndin ekki. Hún tekur eingöngu við málum. Ég fagna því svo sannarlega ef embætti eða embættum jafnréttisráðgjafa verður komið á. Það er að sjálfsögðu mjög þarft og brýnt og ákveðin reynsla komin á það, t.d. norður á Akureyri.

En hlutverk ráðgjafans er líka annað. Það sem hér um ræðir er fyrst og fremst það að tryggja að lögunum sé framfylgt. Það er það sem skiptir mjög miklu máli og það er sá þáttur sem þarf að styrkja.