Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:01:58 (4105)

1996-03-20 14:01:58# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því að Alþingi stendur núna frammi fyrir kaflaskilum á þessu þingi. Til þessa hefur þingið fjallað um ýmis mikilvæg mál, oft mjög tæknileg en yfirleitt ekki stóralvarleg pólitísk átakamál.

Nú hefur það hins vegar gerst að lögð hafa verið fram frumvörp um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem hafa vakið mikla umræðu og einnig hefur verið lagt fram frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem eru kaflaskil í samskiptum ríkisstjórnar við verkalýðshreyfinguna á Íslandi. Það hefur aldrei áður gerst að nokkur ríkisstjórn nokkurn tíma legði fram frv. um að gerbreyta vinnuumhverfi stéttarfélaga með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Með þessu móti óttast menn auðvitað að ríkisstjórnin hafi sagt í sundur friðinn í landinu. En það er einnig ljóst, hæstv. forseti, og verður auðvitað að koma fram í tilefni af umræðunni að þetta frv. segir í sundur friðinn í þessari stofnun eins og sakir standa. Það er alveg óhjákvæmilegt að mínu mati, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin geri sér ljóst að ekki er hægt að meðhöndla þetta frv. eins og hvert annað frv. Hér er um að ræða mál þar sem ætlunin er að skipa innri málum félaga með lögum og stríðir þannig í raun og veru gegn anda stjórnarskrárinnar í veigamiklum atriðum. Þess vegna er auðvitað mjög brýnt að núna komi fram að frv. og efni þess er mótmælt mjög harkalega en líka því að hæstv. iðnrh. og viðskrh. talar um Alþingi úti í frá eins og það sé ómerkileg stimpilstofnun á öllum sviðum, eins og það skipti hann engu máli hvaða skoðun Alþingi hefur á því að selja ríkisbankana, eins og það skipti hann engu máli hvaða skoðun Alþingi hefur á því að einkavæða Orkustofnun. Það er talað um Alþingi eins og það skipti engu máli og það er nauðsynlegt að forsætisnefnd Alþingis kenni ráðherrunum nokkur grundvallaratriði þingræðis áður en mikið lengra er haldið.