Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:04:32 (4106)

1996-03-20 14:04:32# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:04]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég fylgdist mjög nákvæmlega með því sem hæstv. forsrh. sagði áðan og ég skrifaði orðrétt eftir honum þessa yfirlýsingu um lífeyrismál opinberra starfsmanna. Hann sagði: ,,Þau mál verða ekki á þinginu afgreidd í andstöðu við kennara.``

Hingað til hefur forsrh. aðeins fullyrt að á þessu þingi verði málin ekki afgreidd með þeim hætti en ég tek yfirlýsingu hans þannig að hér á þingi, á Alþingi Íslendinga, verði þetta mál ekki afgreitt í andstöðu við opinbera starfsmenn. Ef það er ekki réttur skilningur óska ég eftir því að hæstv. forsrh. leiðrétti það. Með þessu er hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að heita opinberum starfsmönnum því að afgreiða þessi mál ekki í andstöðu við þá. Það tel ég vissulega fagnaðarefni ef ég hef skilið orð hans rétt.

Í öðru lagi er mjög eðlilegt að spurst sé fyrir um það núna hvaða stórmál ríkisstjórnin ætlar að leggja fram því að þetta er næstsíðasti dagur þingsins áður en rennur upp sá dagur, 1. apríl, þegar mál verða ekki tekin til umræðu ef þau eru lögð fram síðar nema með afbrigðum. Ég hvet mjög eindregið til þess að frv. um eignarhald þjóðarinnar á orku og námum utan þess svæðis sem einstaklingar geta gert tilkall til verði lagt fram á þessu þingi og afgreitt því að ella tel ég að ekki sé hægt að afgreiða frv. hæstv. iðnrh. um erlenda fjárfestingu.

Í öðru lagi tek ég mjög undir með hv. þm. Svavari Gestssyni að ég skil það ekki að einmitt við þessi tímamót þegar Alþýðusamband Íslands fagnar 80 ára afmæli sínu skuli hæstv. ríkisstjórn velja sér þann stað í tilverunni að efna til átaka, ekki bara við eitt heldur við öll stéttarfélög í landinu, hvaða nafni sem þau nefnast. Hæstv. ríkisstjórn er að stofna þarna til styrjaldarástands og átaka við aðila vinnumarkaðarins. Það er aðeins eitt sem er víst í þeim efnum og liggur ljóst fyrir, þ.e. ríkisstjórnir sem efna til slíkra átaka, munu falla í þeim.