Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:09:56 (4108)

1996-03-20 14:09:56# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi umræða snýst um störf þingsins og það er ekki óeðlilegt þegar einungis fimm vikur eru eftir af störfum þingsins samkvæmt starfsáætlun, sex vikur reyndar ef við tökum inn í næstu viku sem mér skilst að sé farið að skipuleggja meira og minna í nefndarfundi. Hér hefur birst hver stríðsyfirlýsingin á fætur annarri undanfarna daga frá hæstv. ríkisstjórn og við hljótum að spyrja: Er von á fleirum?

Eitt er það stórmál sem hefur ekki verið nefnt í umræðunni. Það er frv. til laga um breytingu á lögum um fæðingarorlof. En samkvæmt því sem heyrst hefur af því starfi er þar von mikilla og alvarlegra tíðinda og ég spyr: Hvar er það mál statt? Er von á því hingað inn til að meðhöndlast á þeim fimm til sex vikum sem eftir eru?

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni vil ég rifja upp spurningu til hæstv. fjmrh. um skýrslu sem ég bað um fyrir 19 vikum um áhrif 14% virðisaukaskatts á bóka- og tímaritaútgáfu í landinu. Samkvæmt þingsköpum hefur ráðherra 10 vikna frest til þess að svara skýrslubeiðni af þessu tagi og það er algerlega óviðunandi að ekki skuli fást svör. Hvað er svona erfitt í þessu? Á hvaða upplýsingum stendur eða er eitthvað þarna á ferð sem ráðherrann vill ekki að komi fram? Þetta er algerlega óviðunandi og ég krefst þess að ráðuneytið svari skýrslubeiðninni og það nú þegar.