Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:11:53 (4109)

1996-03-20 14:11:53# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka til efnislegrar umræðu frv. um stéttarfélög og vinnudeilur þó að einstakir þingmenn hafi verið að hleypa út einhverjum dampi. Það kemur á dagskrá áður en mjög langt um líður og þá gefst tækifæri til þess að ræða það efnislega.

Hér er ekki um pólitískt átakamál að ræða í eðli sínu þó að einhverjir vilji kannski reyna að gera það að pólitísku átakamáli og vinnuumhverfi stéttarfélaga er ekki umturnað. Það er lagfærður aðdragandi kjarasamninga, það eru skýrðar heimildir og auknar skyldur lagðar á ríkissáttasemjara og það er aukið lýðræði í verkalýðsfélögunum og það ætti að styrkja verkalýðshreyfinguna. Það er hugmyndin með þessu að reyna að draga úr eða stuðla að því að dregið verði úr launamun í landinu. Það er alrangt að verkfallsréttur sé skertur. Það er alrangt að verið sé að setja verkalýðshreyfinguna í einhverja fjötra með þessu frv. og sömu lýðræðiskvaðir eru lagðar á atvinnurekendur og launþega. (JBH: Hefur ráðherrann lesið frv.?) Það hef ég gert.