Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:13:15 (4110)

1996-03-20 14:13:15# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:13]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ekki veit ég hvort hv. þm. Ögmundi Jónassyni urðu á freudísk mismæli eins og það er kallað þegar hann eignaði forseta Íslands tiltekin ummæli hæstv. forsrh. en ég vil alla vega nota tækifærið til þess að þakka hæstv. forsrh. svörin.

Fjögur meginmál sem varða samskipti stjórnvalda og vinnumarkaðar eru á dagskrá, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og frv. hæstv. félmrh. um samskipti aðila á vinnumarkaðinum.

Að því er varðar það mál sem mest hefur verið spurt um eru svör forsrh. öll önnur en hæstv. fjmrh. ef vel er hlustað eftir. Hæstv. forsrh. hefur áður lýst því yfir að hann muni ekki beita sér fyrir framlagningu frv. sem tekur af áunnin réttindi starfsmanna. Það á reyndar við bæði frumvörpin eins og fram kom í umræðunum í gær. Nú heyrðist mér alveg eins og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að því væri við bætt að það mundi ekki gert í andstöðu við kennara.

Hæstv. fjmrh. hefur sagt að þeir vinirnir, hæstv. ráðherrar, hafi fallist í faðma um þetta mál og séu innilega sammála um efni þess og það verði lagt fram á næstunni en þetta ,,á næstunni`` virðist vera óskilgreinanlegt. Hvað það þýðir að vera sammála um efni þess er ekki hægt að skilja ummæli hæstv. forsrh. á annan veg en þann að frv. eigi að fara í endurvinnslu og hann gerir sér vonir um meira samkomulag um endurunnið frv.

[14:15]

Að því er varðar vinnubrögð á þingi, herra forseti, og viðbrögð stjórnarandstöðu, vildi ég einfaldlega segja þetta: Það er stuttur tími til þinghlés og þetta eru stór og viðamikil mál. Við hljótum að gera kröfu til þess að fá góðan tíma til undirbúnings almennum stefnumótandi umræðum um þessi stórmál. Þar á ég t.d. við mál eins og samskipti á vinnumarkaðinum og fjármagnstekjuskatt. Því næst er þess að geta að þess er ekki að vænta að stjórnarandstaðan verði ásátt við innihald þessara mála. Þess er að vænta að hún vilji jafnvel flytja sín eigin mál. Og þá spyr ég að lokum hæstv. forsrh.: Megum við vænta þess að því verði vel tekið af meiri hluta stjórnarliða ef við þurfum hugsanlega að leita afbrigða við einhver mál tengd þessum málum, þ.e. flutning lagafrumvarpa jafnvel eftir 1. apríl?