Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:19:55 (4112)

1996-03-20 14:19:55# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:19]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum umhvn. á þskj. 737. Umhvn. leggur til smávægilega breytingu á frv. til laga um erfðabreyttar lífverur. Þannig leggur nefndin til að Hollustuvernd ríkisins skuli gefa út leyfi til sleppingar og dreifingar erfðabreyttra lífvera að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá eru einnig lagðar til orðalagsbreytingar við 4. mgr. 13. gr. Áður hafði nefndin lagt til þá breytingu við frv. að leita skyldi umsagnar Náttúruverndarráðs og rannsóknastofnana sem sérfróðar væru á viðkomandi sviði.

Við nánari skoðun er það niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt sé að binda í lög að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli taka afstöðu til leyfa um sleppingu og dreifingu erfðrabreyttra lífvera út í umhverfið og það skuli gert áður en þau eru veitt af Hollustuvernd. Byggir niðurstaða þessi á því að hjá Hollustuvernd ríkisins starfa ekki grasa-, dýra- eða vistfræðingar. Því hefur stofnunin ekki yfir að ráða nægilega yfirgripsmikilli þekkingu á náttúru þess svæðis sem sleppa á lífveru á, skilning á líffræði viðkomandi lífvera né samspili lífveranna og vistfræði þeirra. Slík þekking er aftur á móti fyrir hendi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Því leggur umhvn. til þessa breytingu. Jafnfram er dregin til baka brtt. nefndarinnar á þskj. 698.