Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:29:08 (4114)

1996-03-20 14:29:08# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:29]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Össur Skarphéðinsson fagnar þeim breytingum sem lagðar eru til í frv. og telur þær til bóta. Ég er sannfærður um að það er rétt, það er til bóta að Náttúrufræðistofnun Íslands fjalli um þau atriði er varða sleppingu og dreifingu út í vistkerfi landsins. Um það erum við sammála.

[14:30]

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist á Náttúruverndarráð og hugsanlega breytt hlutverk þess. Það er rétt að fyrir þinginu liggur frv. sem gerir ráð fyrir breyttu hlutverki þess ráðs í átt til ráðgjafarhlutverks en ekki þess hlutverks sem það hefur nú. Ég tel óeðlilegt að þingið fari að samþykkja frumvörp miðað við eitthvert hugsanlegt ferli sem kunni að verða á þinginu eða annars staðar. Ég held að það hefði verið enn óeðlilegra að þetta frv. og brtt. sem þingmaðurinn lagði til hefðu gengið á þann veg að fela þeirri stofnun sem ætlað er að taka við meginhlutverki Náttúruverndarráðs, en sú stofnun er ekki til, eitthvert hlutverk í þessum lögum sem hér er verið að samþykkja. Það tel ég ekki vera í anda þinglegra starfa eins og ég hef skilið þau.

Ég skal ekki deila við fróða menn og sérfræðinga um skilgreiningu á lífverum. Sú skilgreining sem við lögðum til var gerð að vandlega yfirlögðu ráði og íhuguðu samkvæmt tillögum sem við fengum frá færustu sérfræðingum og ég tek fullt mark á.