Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:31:49 (4115)

1996-03-20 14:31:49# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér fer fram 3. umr. um frv. um erfðabreyttar lífverur og frsm. umhvn. hefur kynnt breytingartillögur við frv. í tveimur tölusettum liðum sem full samstaða er um í nefndinni. Það er ekki óalgengt að það komi fram minni háttar breytingar á stóru frv. við 3. umr. Það er gert eins og fram hefur komið að athuguðu máli. Ég stend að þessum breytingartillögum að sjálfsögðu einnig og væntanlega eiga þær greiðan gang í gegnum þingið eins og þær breytingartillögur aðrar sem nefndin flutti við 2. umr. málsins og þá voru ræddar.

Ég tel að það sé mikilvægt að þetta stóra mál sem er í rauninni miklu meira mál en kannski margir gerðu sér ljóst þegar það fyrst var sýnt í þinginu, nái fram að ganga og ekki síst að gerðum þeim breytingum sem umhvn. þingsins hefur lagt til á efnistriðum frv. Þar er um að ræða eina mjög veigamikla breytingu sem við ræddum við 2. umr. málsins. Hún er að ný mælistika verði tekin með í athugun þessara mála sem ekki var í upphaflegri gerð eða eins og frv. var lagt fyrir á 119. þingi, þ.e. að siðferðileg álitaefni verði til athugunar á öllum stigum málsmeðferðar varðandi erfðabreyttar lífverur, jafnt varðandi rannsóknir sem og skref sem lengra yrðu stigin í sambandi við sleppingu, hvort sem er í tilraunaskyni eða til framleiðslu. Þetta er meginefnisbreyting sem gengur í gegnum breytingartillögur nefndarinnar og á vonandi eftir að leiða til þess að á þessi mál verði litið, ekki fyrst og fremst út frá tæknilegu sjónarmiði eða hugsanlegri hagnaðarvon heldur ekki síður og kannski enn frekar út frá því hvort það sé réttmætt að heimila rannsóknir og síðan sleppingu á viðkomandi lífverum. Þetta vildi ég ítreka við 3. umr. málsins.

Þá vildi ég aðeins koma að fáeinum atriðum sem fram komu við umræðuna. Hv. 15. þm. Reykv. kom og bætti nokkru við frá því sem fram hafði komið við 2. umr. málsins. Það eru kannski viss atriði sem væri rétt að gera nokkrar ábendingar við, ég skal ekki segja athugasemdir, en nokkrar ábendingar. Ég ætla þó ekki að fara mikið í getsakir um fortíðina að því er varðar hugrenningatengsl á milli mikilla hugsuða, hvorki Maós formanns né hv. 15. þm. Reykv. eins og tilefni gat þó verið til (ÖS: Hvor er meiri hugsuður?) og það mikla álitaefni hvor þessara mætu manna hafi kafað dýpra og kynnt frumlegri hugmyndir, hv. 5. þm. Reykv. eða Maó formaður. Hér verður ekkert skorið úr um það, enda meira rannsóknarefni en svo að fært sé í stuttri þingræðu að gera því rökstudd skil.

Hv. þm. var ráðherra umhverfismála þegar frv. var mótað. Það kom fram við 2. umr. málsins hjá hæstv. núv. umhvrh. að frv. þetta hefði verið lagt óbreytt fyrir á síðasta þingi og nú aftur í haust frá þeirri gerð sem það lá fyrir í ráðuneytinu þegar hv. 15. þm. Reykv. afhenti eftirmanni sínum lyklavöldin. Spurningin er um það hvort aðstæður hafi breyst svo mjög frá því að þetta gerðist á síðasta ári, hvort það væri komið eitthvað alveg nýtt fram frá því að farið var yfir þessi efni af ráðuneytisins hálfu, eins og t.d. það að áður fyrr hafi eingöngu verið um að ræða örverur sem hefðu verið til skoðunar í þessum málum og ekki verið farið að fjalla um lífverur sem til fjölfrumunga teljast og sumir kalla æðri lífverur en það er mælistika sem ég vil helst forðast. Það er erfitt að gefa einkunnir í þeim efnum um hvað sé hátt og hvað lágt. En ég tel að það sé á misskilningi byggt hjá hv. þm. að þarna hafi orðið þessi breyting á allra síðustu árum. Það hefur legið fyrir í a.m.k. áratug hvert stefndi í þessum efnum. Ég held að það hafi verið um miðjan síðasta áratug eða þar um bil, hvort það var 1984 eða 1987, á þessu árabili, voru vestur í Bandaríkjunum veittar fyrstu heimildirnar til sleppingar, fyrst á plöntum og síðan á dýrum, þ.e. tvíkímblöðungum eða alla vega blómplöntum og dýrum þannig að þetta var komið á fullt skrið áður en tilskipanir voru samþykktar í Evrópusambandinu sem upphaflegt frv. þó hvílir á. Síðan er það tekið til athugunar hér og þá lágu þessi efni að sjálfsögðu fyrir þannig að við athugun og undirbúning íslenska stjórnkerfisins eða umhvrn. á þessum málum, lá þessi þróun fyrir þannig að hún hlaut að vera til skoðunar og ein af undirstöðum þessa máls.

Það breytir ekki því að frv. sem fram var lagt tók fyrst og fremst mið af tilskipunum Evrópusambandsins en fylgdi ekki þeirri þróun í mótun laga sem orðið hafði á Norðurlöndum núna síðustu árin. En við höfum m.a. stuðst við það við gerð breytingartillagna um þetta efni. Það var aldrei í huga, má ég fullyrða, neins í umhvn. að halda frá sérfræðistofnunum þó að fylgt væri upphaflegri tillögu frv. um það að leyfisveitingar skyldu vera á snærum Hollustuverndar ríkisins og sú stofnun yrði undir það búin og gert kleift að sinna þessum málum. Það má að sjálfsögðu ekki blanda saman núverandi stofnun og aðstöðu hennar sem er hörmulega léleg í mörgum greinum. Það er langt frá því að þessari stofnun hafi verið gert kleift að sinna ört vaxandi verkefnum. Það hlýtur að vera og ég veit að það er áhugaefni núv. hæstv. umhvrh. og mikið áhyggjuefni um leið hvernig aðstæður eru á þessari stofnun og það höfum við rætt í þinginu. Ég hef flutt brtt. til að freista þess að ráða nokkra bót á. Það má ekki gerast að um leið og þingið samþykkir að Hollustuvernd taki að sér yfirumsjón með leyfisveitingum varðandi rannsóknir og sleppingu erfðabreyttra lífvera að viðkomandi ríkisstofnun verði ekki gert kleift að standa sómasamlega að því. Það er undirstöðuatriði.

Auðvitað verður sama stofnun að afla fanga annars staðar frá, frá sérfræðistofnunum sem búa yfir þekkingu á þessu sviði eða sviðum sem tengjast þessu máli og það á ekki síst við um Náttúrufræðistofnun Íslands. Um það varð nefndin sammála og ræddi í sínum hóp um leið og farið var yfir athugasemdir og ábendingar sem komu frá þeirri stofnun eins og fleiri umsagnaraðilum. Það sem hér hefur gerst með framlagningu þessarar brtt. á fyrirliggjandi þskj. við þessa umræðu um breytingu á 14. gr. frv., er til frekari áréttingar á þessu sjónarmiði til að taka af tvímæli um að Náttúrufræðistofnun Íslands taki afstöðu til fyrirætlana um leyfisveitingar og skili þannig tillögum þar að lútandi til Hollustuverndar ríkisins. Þetta er til bóta á frv. og það styð ég heils hugar.

Ég held þá að lokum svo að ég nefni eitt efnisatriði til viðbótar að gefnu tilefni, að það sé ekki réttmætt að vera að finna að því að tilgreina Náttúruverndarráð sem umsagnaraðila ásamt öðrum. Orðalagið er eitthvað á þá leið að Náttúruverndarráð og aðrir skuli veita umsögn um mál sem er í undirbúningi vegna leyfisveitinga. Það er sammæli í nefndinni að tiltaka Náttúruverndarráð. Hvort menn hafa verið með Náttúruverndarráð í huga í núverandi formi eða samkvæmt þeim hugmyndum sem liggja fyrir í stjfrv. um málið tel ég að breyti engu að þessu leyti. Það breytir í rauninni engu. Það er á misskilningi byggt að vera að gagnrýna það atriði og verði Náttúruverndarráð á annað borð við lýði er mjög eðlilegt að það komi að málinu sem umsagnaraðili. Hinir verða hins vegar margir sem bætast þar við. Náttúrufræðistofnun Íslands er þar á meðal auk þess að vera ætlað veigamikið hlutverk í sambandi við það að taka afstöðu til hugmynda um leyfisveitingar að því er varðar sleppingar á erfðabreyttum lífverum.

Þetta taldi ég rétt, virðulegur forseti, að segja við umræðuna en ætla ekki að fara út í neinar sálgreiningar enda eru þau vísindi á nokkuð hálum ís sem kunnugt er og best að láta það vera að sinni a.m.k.