Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:07:40 (4122)

1996-03-20 15:07:40# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vissi að orðstírs Mao Tse Tung væri víða að leita en ég gerði mér ekki grein fyrir því að jafnvel innst í búri Sjálfstfl. væri að finna einn hv. kopp sem er aðdáandi Mao Tse Tung.

Þótt hv. þm. sé óðfús til að rifja upp ferðasögur sínar og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar frá Ríó tók samningurinn samt ekki gildi hér á landi fyrr en í desember 1994.

Það er líka alveg rétt hjá honum að auðvitað má eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur gert túlka 2. gr. léttilega þannig að hún taki líka yfir útflutning á þessari framleiðslu. Ég hjó hins vegar eftir því að þeir ágætu félagar, hæstv. umhvrh. og hv. formaður umhvn., þurftu að ráðgast áður en þeir gáfu svar við spurningu minni við 2. umr. vegna þess að svarið er ekkert sjálfgefið. En það liggur fyrir í úrskurði ráðherra og nefndarinnar frá þeirri umræðu en hefði verið hreinna og tærara að taka þetta sérstaklega fram í greininni sjálfri.

Að því er varðar Náttúruverndarráð eftir breytinguna, sem gerð er ráð fyrir í frv. sem liggur fyrir þinginu, þá greinir mig einfaldlega á við hv. þm. Árna Mathiesen um það hversu vel það ráð verður fallið til þess að fjalla um erfðabreyttar lífverur. Ég dreg mjög í efa að það sé eitthvað sjálfgefið að ráðið eigi að koma að slíkum málum fremur en ýmsar aðrar stofnanir sem hægt væri að benda á. Ég ítreka að ég tel að það vanti inn í lögin eitthvert ákvæði sem gefur frjálsum félagasamtökum möguleika á því að láta í ljós álit sitt í þessum efnum.