Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:11:30 (4124)

1996-03-20 15:11:30# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:11]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn eru farnir að þynna þessa umræðu nokkuð og endurtekning orðin veruleg frá 2. umr. og jafnvel þeirri sem hér stendur nú yfir. Þó vil árétta það sem fram hefur komið að í 2. gr. er átt við útflutning. Þetta tók ég fram í fyrri ræðu og skal það áréttað hér.

Einnig er rétt að þessi atriði komu til umræðu í hv. umhvn. og þar var sérstaklega um það rætt að útflutningur félli undir þá almennu skilgreiningu sem fram kemur í greininni.

Ég vil einnig láta koma fram að nýju að veruleg umræða fór fram um 6. gr. og þá í fyrsta lagi hvort taka skyldi fram hvaða stofnanir kæmu að þessu máli og eins líka hvaða sérsvið innan náttúrufræði og náttúruverndar ætti að hafa umsagnarrétt. Okkur í nefndinni þótti það vera eðlilegt miðað við það svið sem um er að ræða og í hraðri breytingu að það ætti ekki að binda þetta og reyra umfram það sem gert er í frv. Með þeim hætti er fjarri því verið að útiloka nokkurn aðila frá þessu máli en um leið að gefa skynsömum og vel meinandi mönnum fullt frelsi til þess að taka ábyrga aðila til umsagnar í málinu.

Ég ætla ekki að fara út í neinar umræður um viðræður hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við sjálfan sig hvað hann gerði og hvað hann gerði ekki í ráðherratíð sinni en að lokum bendi ég á að auðvitað er það andvaraleysi hjá hv. þm. að koma þessum ábendingum sínum ekki til nefndarinnar annaðhvort gegnum samflokksmann sinn eða annarra á milli umræðna.