Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:35:22 (4136)

1996-03-21 10:35:22# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir mjög eindregin mótmæli við því að þetta mál sé tekið á dagskrá. Það eru óeðlileg vinnubrögð í hæsta máta. Hér er á ferðinni stórmál og mikið ágreiningsmál og hér er í þriðja lagi á ferðinni viðamikið þingmál sem dreift var fyrst í ljósriti á borð þingmanna í fyrrakvöld, seint í fyrrakvöld og náðist ekki að prenta fyrr en í gær.

Ég spyr, herra forseti: Er hér í uppsiglingu fordæmi um samskipti manna almennt, samskipti meiri hlutans við stjórnarandstöðuna og samskipti aðila í þessu þjóðfélagi? Hvað er að gerast? Hæstv. félmrh. kemur með þetta frv. eins og þruma úr heiðskíru lofti. Um það er bullandi ágreiningur við stærstu samtök launamanna í þessu landi, en það liggur svo mikið á að það er rutt út af dagskrá Alþingis þeim málum sem búið var að setja á dagskrá og áttu að ræðast í dag, til að mynda frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Svo er þessu troðið inn með þessum hætti.

Það er ekki eins og hér sé á ferðinni eitthvert smámál. Eða hafa menn ekki séð ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands? Ég held að það sé langt síðan jafndjúpt hefur verið tekið í árinni í ályktun af því tagi um sambærileg mál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Um þetta mál ríkir engin sátt nú vegna þess að ríkisstjórnin hefur rofið grið í málinu. Með framlagningu frumvarpsins hafa stjórnvöld gefið yfirlýsingu um að þau óski ekki lengur eftir hefðbundnu þríhliða samstarfi um þróun vinnulöggjafarinnar. ... Fyrirliggjandi frumvarp er árás á verkalýðshreyfinguna.``

Er þetta ekki nóg, herra forseti, til þess að menn hugsi aðeins sinn gang? Er líklegt að menn nái árangri með þessum hætti? Ég skora á hæstv. forseta sem hefur oft sýnt sig að því að vilja vera sanngjarn í stjórn þingsins að endurskoða þá ákvörðun að taka þetta mál á dagskrá. Ég hvet hann til að gera hlé á þessum fundi nú þegar og ræða við forustumenn þingflokka og stjórnmálaflokka um stöðuna sem upp er komin í þessum málum. Það er verið að efna til stríðsátaka í þjóðfélaginu, bæði innan þings og utan. Það er afar óskynsamlegt að taka ákvarðanir af því tagi í miklu fljótræði og sé ég nú að sígur neðri kjálkinn á sumum mönnum.