Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:43:35 (4140)

1996-03-21 10:43:35# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Samkvæmt 36. gr. þingskapa skulu líða tvær nætur frá því að lagafrv. er útbýtt þar til það er tekið til umræðu og það eru vissulega liðnar tvær nætur frá því að þessu frv. var útbýtt. En þetta mál er svo stórt og viðamikið að það er ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á að eiga að ræða þetta stóra mál af einhverri alvöru eftir svo skamman tíma. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ég alls ekki undir það búin að taka þátt í þeirri umræðu sem hér fer væntanlega fram í dag, nema forseti verði við sanngjörnum tilmælum stjórnarandstöðunnar um að setjast nú niður og ræða saman um það hvort ekki sé rétt að fresta þessu máli. Ég hvet forseta til þess að halda fund með þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar og hlusta á þau rök sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fram að færa, þau eru vissulega veigamikil. Við erum að tala um mjög alvarlegt deilumál sem flutt er í blóra við vilja verkalýðshreyfingarinnar eins og hún leggur sig. Vinnuveitendur lýsa reyndar yfir ánægju með þetta sem sýnir kannski best hversu hlutdrægt málið er af hálfu ríkisstjórnarinnar. Svona vinnubrögð einfaldlega ganga ekki. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. forseta að menn setjist nú niður og ræði málin því ella ríkir hér einfaldlega styrjaldarástand.