Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:45:21 (4141)

1996-03-21 10:45:21# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Undarlegir þykja mér hlutirnir orðnir á hinu háa Alþingi ef við þurfum að hlusta á morgunútvarpið til þess að vita hvað hér verður á dagskrá vikunnar. Er Framsfl. virkilega orðinn svo valdamikill í þessari stofnun að við þurfum að opna fyrir hinar og þessar frjálsar útvarpsstöðvar til þess að hlusta á tilkynningar hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um það hvað henni þóknast að leyfa okkur að ræða?

Herra forseti. Flokkurinn sem gekk til kosninga undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi er fyrir tilstilli hæstv. félmrh. orðinn að eins konar stökkbreyttri lífveru á einni nóttu og ætti eiginlega helst að takast til umræðu undir liðnum erfðabreyttar lífverur sem við höfum verið að ræða síðustu daga. Herra forseti. Mér finnst að hér þurfi að koma til kasta virðulegs forseta. Það er hann sem er verkstjóri okkar í þessari stofnun og það er hann sem leggur línur fyrir dagskrá vikunnar. Það er svo að menn hafa tekið mark á þessum forseta vegna þess að honum hefur tekist með góðri samvinnu við þingmenn að reisa virðingu þessarar stofnunar. En hann verður líka að leggja sitt af mörkum til þess að hún sökkvi ekki aftur. Það var hæstv. forseti sem kynnti störf vikunnar og það var á grundvelli þess sem þingflokkarnir lögðu sínar línur. Þingflokkur Alþfl. hefur tapað mönnum bæði til fundahalda úti á landi og erlendis vegna þess að menn vissu ekki að svo mikilvægt mál væri til umræðu hér.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sanngjörn krafa að forustumenn þingflokkanna fái tóm til að ræða þessa óvæntu þróun mála við forsetadæmið vegna þess að ég fæ ekki betur séð en menn hafi í besta falli verið dregnir á asnaeyrunum og í versta falli verið blekktir. Það er ekki hægt að láta bjóða sér það þegar svona mikilvægt mál er annars vegar. Hér er um mál að ræða sem snertir einn viðkvæmasta lagabálkinn í lagasafni okkar og það er sanngjörn krafa okkar sem eigum að fjalla um þetta mál hér að okkur gefist tóm tilþess að fara yfir það og getum kallað til okkar ráðgjafa til að kynna okkur það. Við fengum þetta mál dreift í fjölriti síðla kvölds í fyrradag og það er ekki bjóðandi, herra forseti, hinu háa Alþingi að þurfa að fara í gagngera umræðu um svo viðkvæmt mál án þess að forseti geri sitt til þess að þingheimur fái tóm til að kynna sér málið.