Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 11:00:45 (4147)

1996-03-21 11:00:45# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[11:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Formaður þingflokks Framsfl. vísaði til viðræðna okkar tveggja í morgunútvarpi í byrjun janúar og sagði að þar hefði það komið fram að von væri á stórum frumvörpum inn á þing og m.a. því sem hér er á dagskrá.

Virðulegi forseti. Ég minni á að það hefur verið til umræðu að inn á borð þingmanna bærust frumvörp t.d. um að breyta bönkum í hlutafélög eða annað slíkt. Það hefur hins vegar ekkert með það að gera hvort okkur hefði átt að bjóða í grun á mánudegi að á fimmtudegi væri komið á dagskrá frv. um t.d. einkavæðingu bankanna, sem heldur ekki hefur gerst. Ég dreg þetta fram vegna þess að eitt er að vita að ríkisstjórn sé með eitthvað í farvatninu og annað að lenda í því sé dengt á borð þingmanna.

Virðulegi forseti. Mér finnst vinnubrögð ríkisstjórnarinnar einkennast af þeirri valdastöðu sem hinn mikli meiri hluti veitir henni. Ég verð að segja að þótt þetta frv. sem hér á að taka til umræðu standist tímafrest sem þingsköp setja þá höfum við þingmenn fengið í hendur gögn víða að sem snerta þetta viðamikla og viðkvæma mál og okkur hefur ekki unnst tími til að fara yfir þau. Ég hvet forseta þess vegna til þess að fara að þeim óskum sem þingmenn hafa borið fram.

Virðulegi forseti. Á 18 ára ferli mínum sem stjórnmálamaður hef ég verið í meiri hluta. Meiri hluti hefur birst mér með ýmsu tagi, virðulegi forseti. Í fyrsta sinn á þessum vetri miðað við þau vinnubrögð sem ég hef upplifað, hef ég hræðst ógnvekjandi meirihlutavald.