Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 11:03:43 (4149)

1996-03-21 11:03:43# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), KÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[11:03]

Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna orða hæstv. forseta áðan vil ég koma því á framfæri að fyrir félmn. liggja ekki mörg mál. Þau eru fá og frekar lítil þannig að það mun ekki verða til baga þótt málið komist ekki til nefndar fyrr en eftir páska. Málið verður að sjálfsögðu unnið eins og önnur þingmál, en það sem hér skiptir mestu máli er auðvitað það að sú umræða sem hér á að fara fram sé vel skipulögð og fólk hafi haft tíma til þess að kynna sér þetta mál. Ég vil enn ítreka að það er svo stuttur tími síðan frv. kom fram að hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur lýst því yfir að þeim hafi ekki gefist tími til að kynna sér málið til hlítar. Það gildir líka um mig. Þess vegna vil ég ítreka að mér finnst það algerlega óviðunandi og nánast óþolandi að eiga að fara að ræða svona stórt mál án þess að maður hafi varla náð að lesa frv. og athugasemdir við greinar þess.

Þess vegna vil ég ítreka að það mun ekki standa á félmn. að vinna í þessu máli með eðlilegum hætti, en ég ítreka þá skoðun mína að það beri að fresta þessari umræðu.