Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 11:49:43 (4153)

1996-03-21 11:49:43# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[11:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breyting á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Þetta mál er á þskj. 739, 415. mál þingsins.

Árið 1978 var þriðji kafli laganna um stéttarfélög og vinnudeilur felldur brott og gerður að sérstökum lögum um sáttastörf í vinnudeildum. Að undanskilinni þessari breytingu hafa lögin að mestu verið óbreytt sl. 58 ár. Frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur olli á sínum tíma harðvítugum deilum hér á Alþingi. Þeir sem töldu sig sérstaka talsmenn launafólks lýstu yfir andstöðu sinni við frv. og fundu því flest til foráttu. Einn þingmaður lýsti stöðunni þannig að það hættulegasta væri að láta koma á vinnulöggjöf í fyrsta skipti í hvað saklausu formi sem hún væri. Það væri auðvelt fyrir atvinnurekendur þegar einu sinni væri búið að koma á vinnulöggjöf að gera hana mjög svo bölvaða smátt og smátt eða að hreinum þrælalögum með breytingum á hverju þingi. Þá væri hægt að rýra þau smáu réttindi sem eru veitt en gera þau ákvæði sem til tjóns væru enn verri. Þess vegna væri aðalatriðið fyrir verkalýðshreyfinguna að henni tækist að hindra að vinnulöggjöf kæmist á. Þetta sögðu menn árið 1938. En nú er öldin önnur. Þær raddir eru háværar sem telja að gömlu þrælalögin hafi gagnast vel og engin ástæða sé til að breyta þeim.

Á þeim nærri 60 árum sem liðin eru frá setningu laga um stéttarfélög og vinnudeilur hefur þjóðfélagið tekið miklum stakkaskiptum. Fjöldi atvinnugreina hefur margfaldast og störf hafa orðið sérhæfðari. Í sama fyrirtækinu eru starfsmenn sem eru félagar í mörgum ólíkum stéttarfélögum sem semja um kaup þeirra og kjör. Gott gengi í milliríkjaverslun og samkeppnishæfni iðnaðarframleiðslu á alþjóðamarkaði er lykillinn að velmegun komandi ára. Samt sem áður er stöðugleiki í atvinnu- og efnahagsmálum grundvöllur fyrir þróunarstarfi innan fyrirtækjanna og frekari markaðssókn þeirra. Þeir eru nokkuð margir sem hafa um nokkurt skeið haldið því fram að brýna nauðsyn bæri til að endurskoða lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Í því sambandi hefur margt verið tínt til. Bent hefur verið á fjölda verkfallsdaga. Samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar hefur heildarfjöldi tapaðra vinnudaga á árunum 1970--1995 þrisvar sinnum farið yfir 300 þús. á ári. Fjöldi vinnustöðvana á ári hefur verið frá einni og upp í 292 árið 1977. Þessi mikli fjöldi vinnustöðvana hefur valdið miklu beinu og óbeinu tjóni. Nefna má að mál hafa þróast með þeim hætti að oftar en ekki valda vinnustöðvanir tjóni hjá aðilum sem ekki eru þátttakendur í kjaradeilu. Reglur verða að vera þannig að verkföll varði fyrst og fremst raunverulega aðila kjaradeilunnar og afleiðingar þeirra bitni ekki á þriðja aðila.

Afskipti stjórnvalda af kjaradeilum og breytingar á kjarasamningum er annað atriði sem hefur verið teflt fram sem röksemd fyrir því að nauðsynlegt væri að breyta vinnulöggjöfinni. Í þessu sambandi hefur verið bent á að löggjafinn hefur haft afskipti af vinnudeilum og kjarasamningum tólf sinnum sl. tólf ár. Þessi afskipti hafa vakið athygli alþjóðlegra stofnana sem fjalla um félags- og vinnumál, t.d. Evrópuráðsins og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Sérfræðinganefnd þeirrar stofnunar hefur orðað það þannig að þetta bendi til þess að vandkvæði ríki í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Ég held að flestir geti tekið undir það álit. Sérhvert þjóðfélag á mikið undir því að reglur um skiptingu á afrakstri fyrirtækja og þar með vinnuframlagi launamanna séu þannig að hægt sé að ná samkomulagi um niðurstöðuna án átaka. Verkföll og verkbönn valda launafólki og fyrirtækjum tekjutapi og draga úr viðskiptatrausti. Það skiptir gífurlega miklu máli fyrir þjóð sem á jafnmikið undir utanríkisverslun og Íslendingar að viðskiptavinir okkar í öðrum löndum geti treyst því að fá vöru og þjónustu á tilsettum tíma.

Niðurstaða síðustu samningalotu var mikið til umfjöllunar í haust. Talsmenn stærstu heildarsamtaka launafólks töldu að láglaunafólkið hefði þegar upp var staðið borið skarðan hlut frá borði en smærri hópum í lykilstöðum tekist að ná meiru í sinn hlut. Ég skal ekki dæma um hvort þetta er rétt en það bendir margt til að svo sé. Við þetta má bæta gagnrýni á það sem hefur verið kallað ólýðræðislegir starfshættir, bæði samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga launafólks.

Í ljósi alls þessa var því býsna vel tekið þegar fyrrv. félmrh., hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, skipaði 4. okt. 1994 vinnuhóp sem falið var að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðu mála hérlendis. Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna. Rétt er að leggja á það áherslu að ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni. Í vinnuhópnum áttu sæti fulltrúar ASÍ, BSRB, félmrh., fjmrh., Vinnumálasambandsins og VSÍ. Vinnuhópurinn sendi mér áfangaskýrslu sem kynnt var í ríkisstjórn 24. nóv. sl. Með skýrslunni gerði hópurinn grein fyrir nýjum hugmyndum í tengslum við undirbúning, gerð og afgreiðslu kjarasamninga. Lögð var áhersla á umfjöllun um leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri. Í framhaldi af áfangaskýrslunni var ákveðið að fela starfsmönnum vinnuhópsins að semja drög að lagafrv. og var fyrsta tillaga lögð fyrir hópinn á 38. fundi sem haldinn var 4. jan. sl. Í framhaldi af umræðum í hópnum voru settar fram aðrar tillögur, sú síðasta 15. jan. sl. Þessi tillaga var kynnt á vettvangi hlutaðeigandi samtaka. Vinnumálasambandið og VSÍ töldu hana ásættanlega en henni var hafnað af ASÍ og BSRB sem jafnframt óskuðu eftir því að samtökum á vinnumarkaði yrði veitt svigrúm til að semja sín á milli um helstu efnisatriði áfangaskýrslunnar með samningi. Fallist var á að veita þetta svigrúm til febrúarloka en aðilum var jafnframt gerð grein fyrir því að áfram yrði unnið að samningu lagafrv. á vegum mínum. Samkomulag á milli helstu samtaka á vinnumarkaði liggur ekki fyrir og virðist sem litlar líkur séu á að það takist í bráð. Því er þetta frv. fram komið og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þess skal getið að vinnuhópur félmrn. um samskiptareglur á vinnumarkaði hefur haldið samtals 48 fundi.

Nái frv. fram að ganga verða öll helstu efnisatriði laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, tekin upp í sérstakan III. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Sáttastörf í vinnudeilum tengjast beint og óbeint ákvæðum þeirra laga og því er rökrétt að ákvæði á þessu sviði sé að finna í sömu lögum en ekki í tveimur lagabálkum. Við gildistöku nýrra laga falla úr gildi lög nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, og lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru færð í fyrra horf.

Drög að frv. voru eins og áður sagði fyrst kynnt í byrjun janúar og til þess ætlast að aðilar vinnuhópsins kynntu þau innan sinna samtaka og héldu því næst nefndarstarfinu áfram til að ljúka við tillögugerð um málið. Þvert á allar væntingar fór það svo að formenn landssambanda ASÍ höfnuðu með ályktun öllum hugmyndum um endurskoðun lagaákvæða um samskipti á vinnumarkaði. Þeir buðu þess í stað viðsemjendum sínum til viðræðna um ýmsa þá efnisþætti sem mest höfðu verið til umræðu í nefndarstarfinu og BSRB hafnaði einnig breytingum á löggjöf. Samtök atvinnurekenda hafa lýst þeim viðhorfum að gagnslítið sé að gera samkomulag um grundvallarreglur um samskipti á vinnumarkaði ef ekki sé tryggt að sömu reglur gildi a.m.k. á öllum hinum almenna vinnumarkaði. Til lítils sé að semja ef það sé síðan undir einstökum félögum komið hvort þau vilja samþykkja reglurnar og lúta þeim.

[12:00]

Þessi grundvallarágreiningur um það hvort lög eigi að gilda um þessi samskipti eða ekki hefur komið í veg fyrir formlegar viðræður um aðra þætti málsins. Afstaða ríkisstjórnarinnar til þessa álitaefnis kemur fram í starfsáætlun hennar eins og áður var vitnað til. Um þessi samskipti gilda nú lög og ekki eru hugmyndir uppi um annað en færa þau lagaákvæði til nútímalegra horfs svo betur gagnist launþegum og atvinnurekendum og raunar þjóðarheildinni allri. Því hef ég látið semja frv. til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er í höfuðatriðum byggt á tillögum sem samkomulag var um í áðurnefndri nefnd eða starfshópi, svo og þeim hugmyndum öðrum sem umfjöllun nefndarinnar gaf tilefni til þótt ekki hafi þær allar verið útræddar eða orðnar að samkomulagi þegar nefndarstarfið rann út í sandinn.

Þótt starf nefndarinnar hafi að mestu lagst af í kjölfar samþykkta ASÍ og BSRB, þá kom fram af hálfu verkalýðsfélaganna rökstudd gagnrýni og ábendingar á ýmsa þætti í frumvarpsdrögunum um sáttastörf í vinnudeilum frá því í janúar. Hefur í undirbúningi að samningu þessa frv. verið leitast við að taka tillit til þessara athugasemda og tryggja með því að starfsemi stéttarfélaganna bíði engan hnekki af samþykkt frv. Verður raunar aldrei of oft tekið fram að markmiðið er ekki að takmarka svigrúm stéttarfélaganna til samninga heldur eingöngu að tryggja að samningaleiðir séu jafnan fullreyndar áður en til átaka kemur. Jafnframt að tryggja að félagsmennirnir hafi í raun full áhrif á framgang mála.

Nú mun ég víkja að einstökum þáttum frv. og fyrst þeim sem fjallað var um í margnefndu nefndarstarfi fulltrúa aðila vinnumarkaðarins. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á margvíslegum breytingum sem gerðar hafa verið frá frumdrögum þeim sem kynnt voru í byrjun janúar til þess að koma til móts við rökstudda gagnrýni verkalýðsfélaganna á einstaka efnisþætti.

Í 2. gr. frv. er skýrt að samninganefndir aðila fari með óskorað samningsumboð, geti framselt það til sameiginlegrar samninganefndar, ákveðið sameiginlega atkvæðagreiðslu um samninga með fleiri félögum, allt eftir því sem samninganefndin kann að kjósa hverju sinni. Breytingin skýrir því og styrkir heimildir samninganefnda stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda en skerðir hvergi sjálfsforræði eða rétt þeirra til ákvörunar um það hvernig þessum heimildum verður beitt. Og ég veit ekki til þess að ágreiningur sé um þessi atriði.

Í 2. mgr. 2. gr. er því slegið föstu að kjarasamningur gildi frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið enda hafi honum ekki verið hafnað af félagsmönnum samkvæmt nánari reglum þar um innan tiltekins tíma. Ekki er heldur vitað til þess að ágreiningur sé um þessa meginreglu enda er hún í samræmi við það sem aðilar á hinum almenna vinnumarkaði hafa miðað við í undangengnum samningum.

Í frumvarpsdrögum sem sýnd voru í janúarmánuði sl. var miðað við að til að fella undirritaðan samning þyrfti þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Þetta ákvæði hefur mjög verið gagnrýnt af hálfu forustumanna verkalýðsfélaga og bent á að það geti verið mjög íþyngjandi fyrir starfsemi þeirra, einkum þeirra stærri. Þá sé einnig óeðlilegt að krefjast allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna um samninga sem efni sínu samkvæmt er eingöngu ætla að taka til hluta félagsmanna. Þessar ábendingar eru réttmætar og hefur því verið tekið tillit til þeirra í endanlegri gerð frv. Almennt er þess nú krafist að a.m.k. 20% félagsmanna synji um samþykki á kjarasamningi í stað 33% áður svo löglega gerður samningur teljist felldur. Vilji stéttarfélög tryggja að ekki komi til þess að samningur sé staðfestur sökum þátttökuleysis í atkvæðagreiðslu er jafnframt gefinn kostur á því að einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ráði niðurstöðu. Það gildir ef félag ákveður að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu með póstkosningafyrirkomulagi. Þá gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Þannig er tryggt að stéttarfélögin geti sjálf að eigin vali ákveðið form atkvæðagreiðslu um kjarasamninga og engar lágmarkskröfur eru gerðar um þátttöku ef tryggt er að allir félagsmenn geti með sæmilega auðveldum hætti neytt atkvæðisréttar. Til þessa er póstkosningafyrirkomulagið það öruggasta og það hefur farið í vöxt að stéttarfélög hafi notað þessa aðferð svo að hún er ekki alger nýlunda á íslenskum vinnumarkaði.

Loks er að geta nýs ákvæðis sem segir að sé samningi eingöngu ætlað að taka til hluta félagsmanna stéttarfélags, þá sé heimilt að ákveða við samningagerðina að samningur fari eingöngu undir atkvæði þeirra sem eftir honum starfa. Við þessar aðstæður er raunar gerð heldur meiri krafa um þátttöku og það finnst mér eðlilegt þar sem auðvelt á að vera fyrir stéttarfélög að ná til félagsmanna við þessar aðstæður. Meginmarkmið allra þessara breytinga er að tryggja festu við frágang og afgreiðslu kjarasamninga og það að stéttarfélög og samtök atvinnurekenda sem gera slíka samninga beri ábyrgð á þeim og þeim sé ekki varpað fyrir róða nema að vel athuguðu máli. Því er eðlilegt að krefjast þess að a.m.k. lágmarkshluti félagsmanna lýsi því í atkvæðagreiðslu að þeir vilji ekki sætta sig við samninginn. Athugasemdir sem komið hafa af hálfu talsmanna stéttarfélaga hafa í öllum meginatriðum verið teknar til greina og þess gætt að ekki sé þrengt að eðlilegum starfsháttum og heimildum félaganna. Breytingin er þannig til þess fallin að auka lýðræði og virkni félagsmanna í stéttarfélögunum.

Í gildandi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur segir að vinnustöðvun megi gera til þess að knýja á um kröfur í kjaradeilum. Engin skilyrði eru um form kröfugerðar eða undanfarandi viðræður og sáttatilraunir áður en verkfall er boðað. Dæmi munu vera um að verkfall hafi verið boðað án þess að formleg kröfugerð hafi verið lögð fram. Raunar hefur félagsdómur staðfest að nægjanlegt sé að kröfur liggi fyrir áður en verkfall skellur á þannig að þær þurfi ekki að hafa legið fyrir við ákvörðun verkfalls. Þaðan af síður hefur það verið skilyrði að reynt hafi verið að ná sáttum áður en vinnustöðvun er boðuð.

Samkvæmt frv. verður það eftirleiðis formlegt skilyrði fyrir lögmætri ákvörðun um verkfall eða verkbann að kröfur séu formlega komnar fram og reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi. Til þess að tryggja það þarf milligöngu ríkissáttasemjara að hafa verið leitað og honum gefist nægilegt tóm til þess að reyna sættir. Allt eru þetta tiltölulega sjálfsagðar formkröfur fyrir því að grípa megi til löglegrar vinnustöðvunar.

Í viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins hefur það verið viðurkennt að vinnustöðvun eigi að skoðast sem þrautalending þegar önnur ráð hafa ekki dugað til þess að ná fram ásættanlegri niðurstöðu. Framangreindum formkröfum er ætlað að tryggja að svo verði í raun. Það skal sérstaklega áréttað í þessu sambandi að matið á því hvort sáttatilraunir hafi verið reyndar til þrautar liggur hjá þeim sem til vinnustöðvunar boðar eftir að formkröfum hefur verið fullnægt. Ekki er annað vitað en að þokkaleg sátt sé um framangreinda skipan.

Vert er í þessu sambandi að vekja athygli á því að samkvæmt frv. er miðað við að ákvörðun um vinnustöðvun megi fyrst taka þegar þrautreynt hefur verið að ná sáttum. Þá fyrst hafa þeir sem ákvörðun eiga að taka í reynd möguleika á að meta það hvort rétt sé að hefja átök til að knýja á um meira en það sem viðræður hafa fram til þessa leitt til. Þetta er breyting frá því sem nú er, þar sem heimild til vinnustöðvunar er gjarnan veitt löngu áður en raunverulegar viðræður hafa hafist.

Samkvæmt gildandi löggjöf er unnt að taka ákvörðun um löglega vinnustöðvun í fyrsta lagi með almennri leynilegri atkvæðagreiðslu sem staðið hefur í a.m.k. 24 klukkustundir, í öðru lagi af samninganefnd eða félagsstjórn samkvæmt heimild samþykktri í atkvæðagreiðslu samkvæmt 1. tölulið og í þriðja lagi af trúnaðarmannaráði ef félagslög færa því slíkt vald. Þetta gildir um félög á almennum vinnumarkaði og má fullyrða að þau hafa öll ákvæði í félagslögum sem heimila fámennum trúnaðarmannaráðum að boða til vinnustöðvunar án undanfarandi atkvæðagreiðslu félagsmanna. Má raunar fullyrða að ákvörðun um verkföll og verkbönn á almennum vinnumarkaði séu jafnan teknar á grundvelli þessarar heimildar. Í mörgum tilvikum er undanfari slíkrar ákvörðunar almennur félagsfundur sem ályktar um heimild til stjórnar og trúnaðarráðs til boðunar vinnustöðvunar. Slíkir fundir hafa samkvæmt gildandi lögum ekkert formlegt vald. Atkvæðagreiðsla er sjaldnast leynileg og fundir gjarnan haldnir löngu áður en sýnt er hverra kosta raunverulega er völ í viðræðum. Þessi háttur á ákvarðanatöku er því ekki gallalaus og veitir samningsaðilum ekki það aðhald til að leita friðsamlegra lausna sem æskilegt er. Þá eru áhrif einstakra félagsmanna á hagsmunamat og ákvarðanatöku ekki með þeim hætti sem eðlilegt má telja.

Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, er það skilyrði löglegrar verkfallsboðunar að tillaga um verkfall sem hefjist á tilteknum tíma njóti meirihlutastuðnings í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna og a.m.k. helmingur þeirra taki þátt í henni. Með öðrum orðum er það skilyrði að 25% félagsmanna greiði tillögu um verkfall atkvæði sitt. Rétt þykir að samræma kröfur um þessi efni þannig að skilyrði til vinnustöðvunar verði í meginatriðum þau sömu á öllum vinnumarkaðinum. Því er lagt til í 4. gr. frv. að vinnustöðvun verði því aðeins boðuð að tillaga þar um hafi hlotið stuðning meiri hluta þátttakenda í allsherjaratkvæðagreiðslu sem minnst 20% félagsmanna taka þátt í, þ.e. 10,1% félagsmanna hið minnsta þarf að lýsa yfir vilja sínum til vinnustöðvunar.

Í tengslum við umræðu um frumvarpsdrög þau sem sýnd voru í janúar sl. var rætt um að krefjast skyldi samþykkis þriðjungs félagsmanna samkvæmt félaga- eða atkvæðaskrá.

Atvinnurekendur hafa raunar lýst þeirri skoðun að krefjast eigi samþykkis meiri hluta félagsmanna. Af hálfu stéttarfélaganna hefur hins vegar komið upp gagnrýni á það að kröfur um of hátt hlutfall skerði möguleika félaganna til að sækja á um kjarabætur og það langt umfram það sem gerist meðal opinberra starfsmanna. Þeir vinna fleiri saman á færri vinnustöðum og því er auðveldara fyrir félög opinberra starfsmanna að nálgast félagsmennina en gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Það hefur einnig verið á það bent að óeðlilegt sé að svipta félögin möguleikum á að boða til staðbundinna aðgerða sem ná einungis til hluta félagsmanna öðruvísi en að fá samþykki stórs hluta félagsmanna í allsherjaratkvæðagreiðslu. Allt sé þetta sérlega íþyngjandi gagnvart stærri félögunum og geti raunar kallað á klofning þeirra og þar með fjölgun félaga sem vart er þó brýn þörf á. Rétt þótti að taka mið af þessum athugasemdum. Því er lagt til að áskilnaður um þátttöku í allsherjaratkvæðagreiðslu um vinnustöðvun verði einungis 40% af því sem krafist er samkvæmt lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Jafnframt er ákveðið að stéttarfélög geti efnt til almennrar póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu að vinnustöðvun. Ef sú leið er farin þykir ekki efni til þess að gera sérstakan áskilnað um hlutfall þátttakenda enda félagsmönnum gefið besta mögulega færið á að gaumgæfa tillögu á heimili sínu, meta áhrif og aðstæður og greiða atkvæði á öruggan og einfaldan hátt. Eru þetta sömu rök og eiga við um atkvæðagreiðslur um kjarasamninga. Auk þessa er heimilt að bera tillögu um vinnustöðvun sem eingöngu er ætlað að ná til takmarkaðs hóps félagsmanna, t.d. á einum vinnustað, undir atkvæði hlutaðeigandi félagsmanna einna. Þá eru aðstæður hins vegar svo líkar því sem gerist á vinnustöðum opinberra starfsmanna að rétt þykir að gera sömu kröfur um þátttöku og samþykki, þ.e. meirihlutasamþykki og 50% þátttöku.

[12:15]

Sá eðlismunur er á heimildum til ákvörðunar um vinnustöðvun meðal opinberra starfsmanna annars vegar og á einkamarkaði hins vegar að hinir fyrrnefndu taka afstöðu til tillögu um raunverulegt verkfall sem hefjist á tilteknum tíma. Í þeim tilvikum að félagsmenn á einkamarkaði fá tækifæri til að greiða atkvæði um vinnustöðvun er það jafnan um heimild til handa valdastofnunum félagsins að boða verkfall þegar þeim þykir tímabært. Rétt þykir að láta sömu reglu gilda í þessu efni á öllum vinnumarkaðnum og eðlilegt að félagsmenn taki afstöðu til tillögu um raunverulega vinnustöðvun. Er það í samræmi við þá áherslubreytingu að vinnustöðvun komist þá fyrst á dagskrá þegar samningaviðræður hafa siglt í strand.

Það hefur verið gagnrýnt að enginn möguleiki sé samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að fresta framkvæmd boðaðrar vinnustöðvunar. Raunar þótti vafi á því hvort stjórn eða samninganefnd hefði heimild til að afboða vinnustöðvun án þess að samningur liggi fyrir. Þessi háttur er umdeilanlegur og mun viðurkennt af báðum samningsaðilum á hinum almenna vinnumarkaði að ekki væri æskilegt að innleiða svo ósveigjanlegar reglur á þeirra vettvangi. A.m.k. þurfi að vera ótvírætt að stjórn eða samninganefnd félags hafi heimild til að aflýsa boðaðri vinnustöðvun og að fresta framkvæmd hennar um tiltekinn tíma.

Í frv. er tekið fullt tillit til þessara sjónarmiða og ákveðið að samninganefndum sé heimilt að fresta framkvæmd vinnustöðvunar án samþykkis gagnaðila um allt að 14 sólarhringa. Skilyrði fyrir frestun sé kynnt viðsemjanda með a.m.k. sólarhrings fyrirvara.

Í viðræðum atvinnurekenda og fulltrúa stéttarfélaga hefur ekki verið ágreiningur um það að rétt sé að gera allsherjaratkvæðagreiðslu að skilyrði vinnustöðvunar. Hins vegar hafa talsmenn stéttarfélaganna lagt áherslu á að í stað tillögu um ákvörðun um vinnustöðvun eigi að vera unnt að fá samþykki til handa trúnaðarráði eða annarri valdastofnun félaganna til að boða til vinnustöðvunar þegar henta þykir. Á því er hins vegar sá galli að félagsmenn fá þá aldrei tækifæri til þess að meta sjálfstætt hvort þeir vilji hefja vinnustöðvun eða ljúka samningum á þeim grunni sem fyrir liggur eftir undangengnar viðræður. Þá sýnir reynslan að ekki sé eðlilegt að heimild sem veitt er á einum tíma í ljósi þáverandi aðstæðna sé síðan nýtt mörgum mánuðum síðar. Því væri í öllu falli nauðsynlegt að binda slíka heimild til boðunar vinnustöðvunar þeim skilmálum að hana mætti einungis nýta á nánar tilteknu tímabili. Að því virtu er ekki allur munur á ákvörðun sem samninganefnd má fresta eða heimild sem nýta mætti innan einhverra nánar tiltekinna tímamarka.

Aðildarsamtök á vinnumarkaði hafa almennt lýst stuðningi við það að vanda þurfi betur til undirbúnings og skipulags kjaraviðræðna en venja er til hér á landi. Þá hefur einnig verið samstaða um að æskilegt sé að stytta þann tíma sem kjaraviðræður taka eftir að kjarasamningar eru lausir. Síðast en ekki síst hefur komið fram víðtækur skilningur á því að æskilegt sé að kjaraviðræður félaga fari fram sem mest samtímis því alkunna er að í samningaviðræðum geta kjarabreytingar eins hóps haft mikil áhrif á væntingar og stöðu annarra.

Nefndin horfði í starfi sínu töluvert til samskiptareglna á dönskum vinnumarkaði. Er það að vonum þar sem samanburðar við kjör hefur einmitt verið mjög leitað í Danmörku og því er þess að vænta að samskiptareglur kunni að eiga þátt í mikilli verðmætasköpun og góðum kjörum. Þar hefur lengi tíðkast að gerð sé formleg áætlun um viðræður og samningagerð með tímasettum markmiðum fyrir einstökum þáttum í samningaferlinu. Sáttastörf hafa síðar byggst á samkomulagi sem heildarsamtökin hafa náð sín á milli um þetta efni.

Í upphaflegri gerð frv. var miðað við að heildarsamtökum á íslenskum vinnumarkaði væri ætlað að hafa frumkvæði að mótun formlegrar áætlunar um endurnýjun kjarasamninga. Veruleg andstaða kom hins vegar fram við það að tilteknum samtökum væri ætlaður stærri hlutur en öðrum við samningu viðræðuáætlunar. Því hefur verið fallið frá upphaflegri hugmynd um það að sáttasemjari gæfi út eina áætlun fyrir endurnýjun allra samninga á grundvelli samkomulags heildarsamtaka. Þess í stað er samtökum atvinnurekenda annars vegar og stéttarfélögum og samtökum þeirra að eigin vali ætlað að ganga frá gerð áætlunar um viðræður og endurnýjun samninga. Þessar áætlanir skulu liggja fyrir eigi síðar en 10 vikum áður en samningar verða lausir og geta eðli málsins samkvæmt verið mismunandi milli einstakra samningsaðila.

Efni framangreindra lagaákvæða er að leggja ríkari skyldur á félög sem taka að sér að fara með samningsforræði fyrir starfsfólk og fyrirtæki að undirbúa eins vel og kostur er kjaraviðræður. Markmiðið er að þær gangi vel fyrir sig og tímabil óvissu og óstöðugleika í tengslum við endurnýjun samninga verði sem styst. Vandaður undirbúningur geti dregið úr hættu á átökum á vinnumarkaðinum. Augljóslega verður forræði samningaviðræðna að vera á hendi samningaaðila sjálfra og því eðlilegt að þeir annist sjálfir gerð viðræðuáætlunar og annan undirbúning samningaviðræðnanna. Hins vegar er talið rétt að sáttasemjari aðstoði við skipulag viðræðna með því að gefa út viðræðuáætlun fyrir þá aðila sem ekki ná af einhverjum ástæðum að ljúka því verkefni sjálfir. Er þá gert ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af þeirri stefnumörkun um form og framgang viðræðna sem ráða má af þegar gerðum viðræðuáætlunum. Að því leyti fá þeir sem sjálfir ljúka gerð viðræðuáætlunar miklu ráðið um það hvernig háttað verður viðræðum annarra sem ekki hafa sinnt undirbúningi sem skyldi.

Rétt er að árétta að í þessu frv. er ekki um miðstýringu að ræða með þeim hætti sem var í frumvarpsdrögunum frá janúar.

Samkvæmt gildandi lögum hefur sáttasemjari mjög ríkulegar heimildir til þess að setja fram miðlunartillögur í kjaradeilum og næsta frjálst mat á því hvort hann lætur sömu tillögu taka til fleiri félaga sem samtímis eiga í kjaradeilum. Þessar reglur eru skýrðar og sett skarpari skilyrði fyrir því hvenær sáttasemjari getur lagt fram miðlunartillögu til lausnar á kjaradeilum. Jafnframt eru sett mun ítarlegri ákvæði um það hvern veg skuli standa að kynningu á efni miðlunartillagna og atkvæðagreiðslu um þær. Samkvæmt gildandi lögum telst miðlunartillaga samþykkt án tillits til þess hvernig atkvæði falla ef þátttaka í atkvæðagreiðslu er undir 20%. Aukins meiri hluta er krafist til að fella miðlunartillögu sáttasemjara ef þátttaka er undir 35%. Frv. miðar við hliðstæða reglu og lengi hefur verið við lýði í Danmörku þannig að minnst þriðjung atkvæða þurfi til að fella tillögu. Þetta er heldur lægra hlutfall en samkvæmt dönskum lögum þar sem miðað er við 35% atkvæða.

Undanfarin missiri hefur orðið vaxandi umræða um nauðsyn þess að starfsmenn á stórum vinnustöðum geti skipulagt sig í eitt félag sem fari með samninga um kaup þeirra og kjör óháð starfsgreinamörkum almennra verkalýðsfélaga. Ekki varð samstaða um að heimila stofnun vinnustaðarfélaga í margnefndum starfshóp um samskiptareglur á vinnumarkaði. Þrátt fyrir það þykir æskilegt að heimila stofnun slíkra félaga. Er þess að vænta að það geti heldur dregið úr launamun innan fyrirtækja og aukið skilning á samstöðu milli mismunandi faghópa starfsmanna og þeirra og fyrirtækisins. Í þessu felst mikil nýlunda og því þykir rétt að binda þessa heimild fyrst í stað við allra stærstu fyrirtækin, enda tæpast við því að búast að starfsmenn annarra fyrirtækja geti haldið uppi sterku og árangursríku stéttarfélagsstarfi einu sér.

Af framansögðu má vera ljóst að allir meginþættir þeirra tillagna um breytingu á vinnulöggjöfinni sem koma fram í frv. því sem hér er lagt fyrir Alþingi höfðu verið ræddir í nefnd um samskiptareglur á vinnumarkaði. Nokkrar af tillögum byggja á beinum tillögum nefndarinnar, annað á hugmyndum og viðhorfum sem fram komu í nefndinni og eins eru nokkrir efnisþættir sem ekki reyndist unnt að ræða í nefndinni sökum þess að ASÍ og BSRB höfnuðu því að vinna málið til enda. Það var bagaleg niðurstaða en eigi að síður hefur við samningu frv. verið lögð mikil áhersla á að koma til móts við gagnrýni sem kom fram við fyrstu hugmyndir um löggjöf.

Fyrir liggur að bæði samtök launþega og atvinnurekenda hafa sett fram kröfur um atriði sem ekki hefur verið unnt að verða við. Raunar er tæpast við því að búast að unnt verði að setja lög um afar mikilvæg samskipti þessara aðila svo að öllum líki. Það hlutskipti verður löggjafinn þá að axla því að grundvallarreglur um réttindi og skyldur hlýtur að verða að festa í lög, svo sömu grundvallarreglur gildi fyrir alla, bæði launamenn og atvinnurekendur.

Herra forseti. Helstu nýmæli sem koma fram í frv. þessu eru eftirfarandi:

Vinnustaðarfélag starfsmanna í fyrirtækjum með a.m.k. 250 starfsmenn að jafnaði öðlast réttarstöðu stéttarfélags, enda eigi a.m.k. 3/4 starfsmanna aðild að því. Fer vinnustaðarfélag þá eitt með samningsumboð fyrir starfsmenn þar. --- Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er hér um að ræða 60 lögaðila og 33 opinberar stofnanir að undanskildum lífeyrissjóðum eða þess háttar aðilum.

Settar eru skýrar reglur um samningsumboð atvinnurekenda og stéttarfélaga. Tekin eru af öll tvímæli um að heimilt er að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri samningsaðila samningsumboð. Er það í sumum tilvikum nauðsynlegt vegna samstarfsins á Evrópska efnahagssvæðinu. Samninganefnd verður heimilt að ákveða sameiginlega atkvæðagreiðslu. Undirritaðir kjarasamningar öðlast gildi frá undirskriftardegi, nema þeir séu felldir með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða alls. Fari póstatkvæðagreiðsla fram ræður einfaldur meiri hluti greiddra atkvæða. Um kjarasamninga, sem taka einungis til tiltekins hluta félagsmanna eða starfsmanna tiltekins fyrirtækis, gildir önnur regla. Þar er áskilið að hlutfall mótatkvæða sé jafnan þriðjungur atkvæða alls.

Skylda er lögð á samningsaðila að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða samninga. Kveðið er á um ábyrgð ófélagsbundinna og einstakra félagsmanna þegar ekki er sýnt fram á aðild samningsaðila að ólögmætum aðgerðum.

Settar eru skýrari reglur um hvað þurfi að koma fram í tillögu um vinnustöðvun. Jafnframt skulu kröfur liggja fyrir, viðræðna þarf að hafa verið leitað og sáttasemjari þarf að hafa leitað sátta milli aðila.

Ákvörðun um vinnustöðvun skal tekin af félagsmönnum við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. 20% atkvæðisbærra félagsmanna. Samkvæmt þessu er í raun nauðsynlegt að 10% atkvæða séu greidd með tillögu um vinnustöðvun enda ræður meiri hlutinn. Þetta skilyrði gildir þó ekki ef póstatkvæðagreiðsla fer fram. Ef um er að ræða vinnustöðvun af hálfu tiltekins hluta félagsmanna eða í tilteknu fyrirtæki þarf þó jafnan þátttöku helmings atkvæðisbærra þannig að fjórðungur atkvæðisbærra þarf að greiða tillögu atkvæði. Félagsmenn taka ákvörðun um vinnustöðvun í beinni atkvæðagreiðslu. Heimildir samninganefndar og félagsstjórnar eða trúnaðarmannaráðs samtaka atvinnurekenda eða stéttarfélaga eiga því ekki lengur við. Þá er tekin upp í lögin skilgreining á hugtakinu vinnustöðvun.

Heimiluð er póstatkvæðagreiðsla um gerða kjarasamninga og um ákvörðun um vinnustöðvun. Ef sú heimild er nýtt þarf að jafnaði ekki að ná tilteknu hlutfalli mótatkvæða gegn samningsniðurstöðu eða tiltekinni þátttöku við almenna ákvörðun um vinnustöðvun. Ríkissáttasemjara er veitt heimild til að ákveða í samráði við aðila að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með pósti.

Samkvæmt gildandi reglum er ekki tryggður réttur aðila til viðræðna við gagnaðilann. Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gera viðræðuáætlun um skipulag viðræðna og gerð kjarasamnings. Er það gert að danskri fyrirmynd, þar sem samið hefur verið um slíkt fyrirkomulag.

Lagaskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru gerð mun skýrari. Réttarstaða þeirra aðila sem sameiginleg miðlunartillaga getur náð til er bætt, sérstaklega miðað við gildandi lagaheimildir. Réttaráhrif sameiginlegrar miðlunartillögu eru óbreytt.

Ríkissáttasemjara eru fengnar heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ávallt skal haft samráð við aðila vinnudeilu áður en slíkar ákvarðanir eru teknar.

Miðlunartillaga er felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða og jafnframt að minnsta kosti þriðjungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá er mótatkvæði. Er sú breyting gerð með vísan til heimilda ríkissáttasemjara til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ef þær heimildir verða nýttar mun þátttaka aukast. Skilyrðið um lágmarkshlutfall mótatkvæða á við óháð tilhögun atkvæðagreiðslu.

[12:30]

Eins og áður er komið fram falla úr gildi lög nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum ef þetta frv. nær fram að ganga. Í því sambandi vil ég sérstaklega taka fram að sú breyting hefur sem slík engin áhrif á stöðu og valdsvið ríkissáttasemjara eða starfsmanna hans.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til félmn. Frv. er nú í höndum löggjafarþingsins. Ég vænti þess að það verði að lögum fyrir þinglok. Mér er það ljóst að víða er um álitamál að ræða, t.d. hvað varðar þröskulda í atkvæðagreiðslum. Ég legg hins vegar þunga áherslu á að viðræður fari fram í tíma, kröfur liggi fyrir áður en samningar eru lausir, valdsvið sáttasemjara og skyldur hans séu rækilega skilgreindar og lýðræðislegur réttur félagsmanna til að hafa úrslitaáhrif á kaup og launagreiðslur sé virtur. Ég bið hv. alþingismenn og málsaðila alla að kynna sér frv. nákvæmlega og án fordóma og þá munu menn komast að því að hér er um sanngjarna og skynsamlega vinnulöggjöf að ræða sem á að verða launþegum og atvinnulífi og þar með þjóðinni allri til farsældar.