Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:43:07 (4162)

1996-03-21 12:43:07# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:43]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram, sama hversu mikið hæstv. ráðherra þrætir fyrir það, að það var ekkert samkomulag í nefndinni um framgöngu þessara mála og allra síst um það að setja lög um efnið, herra forseti, eins og hér hefur verið ákveðið að gera. Þetta er grundvallaratriði varðandi þau mál sem við erum að tala um og það er beinlínis rangt að segja að frv. sé í samræmi við það sem rætt var í nefndinni. Það er beinlínis rangt.

Ég vil líka draga það fram hér að hæstv. ráðherra hefur oft talað um að frv. komi jafnt niður á atvinnurekendum og launafólki. Væntanlega er hann þá að vísa til atkvæðagreiðslureglna sem eiga að vera gagnkvæmar. Telur hæstv. ráðherra virkilega að það sé líku saman að jafna varðandi einstaka launamenn og atvinnurekendur? Af hverju í ósköpunum heldur hæstv. ráðherra þá að stéttarfélög hafi orðið til? Af hverju í ósköpunum heldur hæstv. ráðherra að stéttarfélög hafi þau réttindi og þær skyldur sem þau hafa í núgildandi lögum og fjölda alþjóðasamninga?