Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 17:02:05 (4173)

1996-03-21 17:02:05# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:02]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að fjörutíu mínútna löng ræða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, formanns þingflokks Alþfl., kemur mér verulega á óvart. Og þó ekki. Eftir fjörutíu mínútur er ég engu nær um skoðanir Alþfl. eða hv. þm. á frv. til laga um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Eftir fjörutíu mínútur er ég engu nær um skoðanir Alþfl. eða skoðanir hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur á málinu.

Ég sagði ,,og þó``. Ég hef einmitt rekið mig á þetta að undanförnu að í hverju málinu á fætur öðru hefur Alþfl. enga skoðun. Hann hafði enga skoðun á því hvernig ætti að fara með málefni Pósts og síma á dögunum. Hann hafði enga skoðun á því hvernig ætti að fara með málefni um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Og um lög um stéttarfélög og vinnudeilur hefur Alþfl. enn einu sinni enga skoðun. Eða þorir hann ekki að segja sína skoðun? Þorir hann ekki að segja að hann sé meðmæltur frv. eða þorir hann ekki að segja að hann sé á móti því? Ég vildi gjarnan biðja hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að svara þessu: Hefur flokkurinn enga skoðun eða þorir hann ekki að segja skoðunina?