Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 18:11:32 (4182)

1996-03-21 18:11:32# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:11]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var enn eitt athyglisvert sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Hann talaði um að verkfall skyldi boðað með þeim hætti að svo og svo margir tækju þátt í atkvæðagreiðslunni. Hann talaði líka um það að svo og svo margir ættu að taka þátt í atkvæðagreiðslunni ef samningurinn yrði felldur. En hann gleymdi einu sem vinnuveitendur minnast heldur aldrei á. Ef samningur er samþykktur með örfáum atkvæðum, heyrist ekki múkk úr Garðastrætinu. Þeim þykir það eðlilegt og sjálfsagt þannig að lýðræðið nær ekki langt.

Varðandi vinnubrögð innan sjómannasamtakanna má líkja þeim við vinnustaðarsamninga. Hver og ein stétt fiskimanna greiðir atkvæði um boðun vinnustöðvunar eða samninga. Sama á við um farmannastéttina og þá sem starfa á hafrannsóknarskipum, í Landhelgisgæslunni eða á sanddæluskipum. Þegar boðað er til verkfalls fer atkvæðagreiðsla fram á meðal allra sjómanna, þ.e. atkvæðagreiðsla meðal þeirra sem starfa í viðkomandi starfsgrein. Menn vaða villu og reyk í sambandi við þetta frv. Það er gengið mun lengra en efni standa til. Og þá spyr maður: Hver gefur mönnum misvísandi og villandi upplýsingar um leikreglurnar í dag? Hvers vegna er haldið svona á þessu máli?

Það er ósk mín að náðst hefði samkomulag með vinnuveitendum og verkalýðshreyfingunni um leikreglur. Takist það ekki, þýðir ekkert fyrir okkur, hið háa Alþingi, að setja einhverjar leikreglur og binda þær í lög, það yrði ekki farið eftir þeim. Auðvitað er það fyrst og fremst aðila vinnumarkaðarins að koma sér saman um starfshætti og leikreglur.