Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 18:17:03 (4186)

1996-03-21 18:17:03# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Það er að vísu svo, herra forseti, að þær tillögur sem Vilmundur Gylfason heitinn lagði fram um þetta náðu ekki fram að ganga innan Alþfl. hvort sem það var gott eða slæmt.

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. segir. Það er ýmislegt sem er til bóta í þessu frv. Til að mynda sá þáttur sem hann nefndi um gerð samningsáætlana, en eigi að síður er það svo að viðbótin við frv. frá drögunum síðan í janúar er þess eðlis að hún meira og minna slátrar þeirri góðu fyrirætlan sem er að finna í hugmyndinni um samningsáætlanir. En ég er viss um að þó að hv. þm. Pétur Blöndal sé þeirrar skoðunar að e.t.v. sé lýðræði fjármagnsins best er hann í hjarta sínu lýðræðissinni. Hann er ekki einræðissinni, ég er sannfærður um það. Og hvað segir hann um lýðræði sem tengist miðlunartillögunni sem hann ræddi áðan? Til þess að fella miðlunartillögu þurfa 33,3% atkvæðisbærra að greiða atkvæði gegn henni og að sjálfsögu meiri hluti þeirra sem taka þátt. Það er hægt að setja upp dæmi sem er þannig ef það eru 2.000 atkvæðisbærir menn, 644 greiða atkvæði gegn en 642 með er hún samt sem áður samþykkt. Með öðrum orðum, yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna tekur þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hlutinn er á móti en hún er samt samþykkt. Ég spyr þig, hv. þm.: Er þetta lýðræði?