Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 19:44:16 (4191)

1996-03-21 19:44:16# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[19:44]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrr í dag flutti hv. þm. Árni M. Mathiesen skoplitla ræðu í tvennum skilingi þess orðs. Nú flytur hann hana aftur. Ég gleðst þó yfir því að hann náði betri skilningi á afstöðu minni, a.m.k. út úr þessari ræðu en hann náði fyrr í dag. Ég náði síðan ekki hvaða sögulega fyrirlestur hann ætlaði að fara að flytja fyrir mig. Hann getur kannski haldið honum áfram á eftir. En ég vil segja eitt. Ég legg mikla áherslu á samráð. Málið sjálft er þess eðlis að þeir sem eiga að njóta þess eru aðilar vinnumarkaðarins og þeir þurfa að búa að sæmilegri sátt um það.

[19:45]

Hv. þm. sér hvernig verkalýðshreyfingin hefur tekið þessu. Hún logar stafna á milli af illindum út af þessu máli, illindum í garð hæstv. ríkisstjórnar. Það eru ýmsir tindar í þessu frv. Ég viðurkenni að ég hef ekki getað náð því til hlítar að fara í gegnum eins og ég mun e.t.v. vera búinn að gera fyrir 2. umr. En það er t.d. þessi heimild til þess að stofna stéttarfélög á vinnustöðum. Ég tel að þessi heimild sé fyrir hendi en mér finnst allt í lagi að skoða þetta ákvæði. Ég er þó ekki viss um að það nái tilgangi hæstv. félmrh. Ég segi það strax að ég er á móti þeim ákvæðum sem hér eru um vinnustöðvun og skýrði það. Ég er hlynntur tengingarreglunni sem hér kemur fram vegna þess að ég tel að það sé hægt að beita henni skynsamlega eins og í Danmörku til þess að koma í veg fyrir að fámennir hópar lami atvinnulíf heilla svæða, heilla atvinnugreina og vegi gegn almannahagsmunum. Mig greinir á um þetta við marga innan stjórnarandstöðunnar. Þetta er eigi að síður mín skoðun.

Varðandi miðlunartillöguna tel ég aldrei hægt að samþykkja þann umbúnað sem um hana er fyrir ýmissa hluta sakir. Það sem upp úr stendur er að það er hægt að láta rösklega 66% félagsmanna taka þátt í atkvæðagreiðslu, meiri hlutinn getur verið á móti henni en samt er hún samþykkt. Það er skrumskæling á lýðræðinu og nú getur hv. þm. Árni M. Mathiesen haldið áfram sínum fræðandi sögufyrirlestrum um Harald Guðmundsson og Alþfl.