Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 10:39:15 (4363)

1996-03-22 10:39:15# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[10:39]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns rekja nokkuð aðdraganda þess að þetta frv. er hér komið til umræðu á Alþingi. Eins og ég reyndar gerði grein fyrir í andsvari við umræðuna í gær var skipuð nefnd hinn 4. okt. árið 1994 af hálfu þáv. félmrh., núv. hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, sem átti að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði. Þessum vinnuhópi var falið að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í nágrannalöndunum. Og eins og segir orðrétt í skipunarbréfinu, með leyfi forseta: ,,Hann skal taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Leiði hún í ljós nauðsyn breytinga á íslenskri löggjöf í þessu sambandi skal hópurinn setja fram tillögur um það efni.``

Innan þessa vinnuhóps náðist ekki samstaða þar að lútandi. Atvinnurekendur hafa hins vegar í ályktunum sínum að undanförnu hvatt stjórnvöld til að setja slíka löggjöf og eins og ég mun færa rök fyrir hér á eftir hefur ríkisstjórnin í mjög ríkum mæli hlustað á þeirra sjónarmið.

Nú hefur það verið fært fram sem röksemd í þessu máli hve oft þessi hópur hefur fundað. Ekki spurt um innihald heldur fundirnir taldir. Í tíð fyrrv. ríksstjórnar voru haldnir sjö fundir í þessum hópi. Síðan gerðust menn fundaglaðari eftir að þessi ríkisstjórn kom til valda og munu hafa verið haldnir hátt í 50 fundir í þessum hópi. Undir lok nóvember sendi hópurinn frá sér áfangaskýrslu. Sendi hana til ráðherra og um það varð samstaða í vinnuhópnum að enda þótt mikill ágreiningur væri þar um ýmis efni þá væri rétt að fá umræðu um þessi mál í hlutaðeigandi samtökum. Það á bæði við um samtök atvinnurekenda og einnig samtök launafólks á vinnumarkaði.

Innan Alþýðusambandsins var hafist handa um að kynna málið og hið sama gildir um Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Skýrslan var send til allra aðildarfélaganna. Haldnar voru ráðstefnur um málið og kom fljótlega í ljós að ekki var vilji til þess, hvorki innan Alþýðusambandsins né innan BSRB, að ekki sé minnst á önnur samtök sem ekki komu að málinu og voru því andvíg, að smíðuð yrðu lög á þessum grunni. Það gerist síðan í byrjun febrúar þessa árs að samtökin álykta í þessa veru. Mig langar til að lesa upp úr ályktun BSRB frá 2. febrúar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,BSRB telur brýnt að vinnubrögð við gerð kjarasamninga verði bætt en leggst alfarið gegn því að það verði gert með lögþvingunum þvert á vilja samtaka launafólks. Eins og samningalotur undanfarinna ára hafa sýnt hefjast viðræður samningsaðila iðulega allt of seint, yfirleitt ekki fyrr en kjarasamningar eru útrunnir. Stórir hópar launafólks koma ekki að samningsborðinu fyrr en kjarastefnan hefur verið mótuð.

Að undanförnu hefur vinnuhópur á vegum félagsmálaráðuneytisins, sem BSRB hefur átt aðild að, fjallað um samskiptareglur á vinnumarkaði. Vinnuhópurinn hefur sent frá sér áfangaskýrslu sem verið hefur til umfjöllunar innan samtaka launafólks, en engin niðurstaða hefur enn náðst um að lagt verði fram frumvarp byggt á henni.

Margt jákvætt er að finna í skýrslunni, einkum það sem varðar markvissari vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Þannig er æskilegt að hefja viðræður um kjarasamninga áður en gildandi samningar renna út, og stuðla að skipulagðari vinnubrögðum. BSRB er þannig meðmælt því að tekin verði upp viðræðuáætlun við gerð kjarasamninga og hvetur til þess að strax 1. semtember í ár, fjórum mánuðum áður en kjarasamningar renna út, verði gengið til viðræðna um hana.

Í frumvarpsdrögum sem unnin hafa verið upp úr skýrslunni að hluta til koma hins vegar fram alvarlegir gallar. Þannig er ljóst að þrengt yrði að verkfallsréttinum og þvinguð fram svo mikil miðstýring kjarasamninga með lögum að óviðunandi væri og hætt við að leitað verði annarra leiða.

[10:45]

Enda þótt BSRB sé tilbúið til áframhaldandi viðræðna um bætt vinnubrögð og leikreglur við gerð kjarasamninga leggst bandalagið alfarið gegn því að áfangaskýrsla þessi verði gerð að uppistöðu í lagafrumvarpi. Standi hugur manna til víðtæks samflots til samninga verður það að gerast af fúsum og frjálsum vilja. BSRB mun aldrei sætta sig við að verkalýðshreyfingin verði handjárnuð. Lögþvingun, þvert gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar, eins og félmrh. hefur lýst yfir í fjölmiðlum, kyndir hins vegar undir ófriði á vinnumarkaðinum.``

Þetta var úr ályktun BSRB frá 2. febr. 1996. Þann 9. febrúar álykta formenn landssambanda innan ASÍ um réttarstöðu launafólks og samskipti á vinnumarkaði, um þetta frv. og um þessi vinnubrögð. Í ályktun formanna landssambanda innan ASÍ segir m.a., með leyfi forseta:

,,Formenn landssambanda innan ASÍ telja nauðsynlegt að réttarstaða launafólks hér á landi verði bætt til muna. Sé litið til nálægra landa er greinilegt að ýmsir þættir, svo sem ráðningaröryggi launafólks og staða trúnaðarmanna, eru mun lakari hér á landi en almennt gerist. Mikilvægt skref í þessa átt er að nú þegar verði staðfestar af íslenskum stjórnvöldum mikilvægar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þetta efni.

Formenn landssambanda innan ASÍ hafna alfarið þeim drögum að breytingum á vinnulöggjöf sem nú er í vinnslu í félmrn. Samkvæmt áliti virtustu fræðumanna í vinnurétti fela þessi drög í sér verulega takmörkun á sjálfsögðum réttindum launafólks og stangast á við stjórnarskrána, íslensk lög og ýmsar alþjóðasamþykktir sem Íslendingar eiga aðild að.``

Síðar í þessari ályktun frá formönnum landssambanda innan ASÍ, frá 9. febrúar segir, með leyfi forseta:

,,Formenn landssambanda innan ASÍ leggja eftirfarandi til:

Að aðilar vinnumarkaðarins geri með sér rammasamning um gerð áætlunar þar sem kveðið verði á um hvernig standa skuli að viðræðum um gerð kjarasamninga. Landssambönd innan ASÍ færu með málið að fengnu umboði aðildarfélaga sinna. Eðlilegt er að starfsgreinasamtök atvinnurekenda komi fram fyrir þeirra hönd með fullt samningsumboð.

Í slíkum rammasamningi verði settar reglur um verkföll þar sem kveðið yrði á um að þau megi ekki boða fyrr en viðræðuáætlun hafi verið gerð og kjarakröfur lagðar fyrir viðsemjendur og kynntar ríkissáttasemjara.

Formenn landssambanda innan ASÍ munu enn fremur beita sér fyrir því að settar verði samræmdar reglur innan samtakanna um boðun verkfalla og afgreiðslu kjarasamninga. Jafnframt er eðlilegt að samtök atvinnurekenda endurskoði reglur um hliðstæðar ákvarðanir innan sinna raða og geri þær skýrari og gegnsærri.``

Það sem kemur greinilega í ljós í þessum ályktunum bæði frá BSRB og frá ASÍ er að um þau efni sem vakið er máls á í áfangaskýrslunni eru menn reiðubúnir að semja og skoða. Margt af því sem þar kemur fram telja menn vera til bóta. Það hefði hins vegar verið nauðsynlegt fyrir þingið eða þá sem um frv. eiga að fjalla að fá birtar með áfangaskýrslunni þessar greinargerðir frá BSRB, frá Alþýðusambandinu og frá öðrum samtökum sem hafa ályktað um þessi efni. Áfangaskýrslan var send til umræðu úti í samtökunum. Það urðu ákveðnar niðurstöður eftir þá umræðu og það hefði verið eðlilegt, þar sem ákvörðun var tekin um að birta áfangaskýrsluna með frv., að þessar niðurstöður hefðu einnig fylgt þar með.

Í sjálfri áfangaskýrslunni kemur hins vegar fram undir lok hennar að um ýmis veigamikil atriði var ekki sátt. Um þau átti eftir að ræða betur eða menn voru ekki á eitt sáttir í grundvallaratriðum. Hér segir undir lok skýrslunnar, með leyfi forseta, þar sem verið er ræða þau efni sem menn voru ekki á einu máli um, ,,... má þar nefna miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.`` Um þessi atriði hafði ekki náðst sátt. En það má færa að því rök að frv. byggir einkum og sér í lagi á þeim atriðum sem voru óútrædd eða menn voru ekki á eitt sáttir um. Á þessu vil ég vekja athygli.

En megininntakið í því sem ég hef verið að segja er þetta. Deilan snýst ekki um það hvort gera eigi viðræðuáætlun. Deilan snýst ekki um það hvort efla eigi virkni og lýðræðislega þátttöku innan verkalýðshreyfingarinnar. Hún snýst ekki um það. Hún stendur um það eitt með hvaða móti þessir hlutir skuli gerðir, hvort farið skuli fram með lögþvingunum eða hvort hlutirnir séu gerðir af fúsum og frjálsum vilja. Og eins og fram hefur komið í þeim ályktunum sem ég hef vísað í, þá hafa menn eindregið verið á þeim buxunum innan verkalýðshreyfingingarinnar að þessa hluti eigi að framkvæma af fúsum og frjálsum vilja eftir lýðræðislega umfjöllun en hafna lögþvingun af því tagi sem hér er uppi á borði.

Nú hins vegar, síðustu dagana eftir að frv. kemur fram, rignir yfir nýjum ályktunum. Þannig hefur borist ályktun frá stjórn Bandalags háskólamanna, BHMR, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Stjórn Bandalags háskólamanna mótmælir nýframkomnu frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á samningsrétti launamanna. Frv. felur í sér aukna miðstýringu og verulega skerðingu á samningsrétti einstakra stéttarfélaga.

Bandalagið skorar á ríkisstjórnina að draga frv. þetta til baka og heitir á samtök launafólks að fylkja sér saman til varnar samningsréttinum.``

Þessi ályktun er frá í gær. En í fyrradag ályktaði miðstjórn ASÍ um þetta frv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Miðstjórn ASÍ fordæmir að stjórnvöld skuli einhliða hafa lagt fram frv. til breytinga á vinnulöggjöfinni. Frv. er lagt fram á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins voru í samningaviðræðum um samskiptamál sín á milli. Í þeim viðræðum lágu hugmyndir og tillögur ASÍ að nauðsynlegum breytingum fyrir. Með kynningu á væntanlegu lagafrv. sleit félmrh. þeim viðræðum.

Áratugum saman hafa aðilar reynt að vinna að málefnum vinnulöggjafar í sátt og samlyndi. ASÍ hefur stöðugt haldið því fram að nauðsynlegt sé að víðtæk sátt ríki um breytingar á svo viðkvæmum lagabálki og vinnulöggjöfin er. Um þetta mál ríkir engin sátt nú vegna þess að ríkisstjórnin hefur rofið grið í málinu. Með framlagningu frv. hafa stjórnvöld gefið yfirlýsingu um að þau óski ekki lengur eftir hefðbundnu þríhliða samstarfi um þróun vinnulöggjafarinnar. Ríkisstjórnin hefur tekið undir málflutning atvinnurekenda um breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði í stað þess að hlusta á sjónarmið beggja aðila.

Fyrirliggjandi frv. er árás á verkalýðshreyfinguna. Flestar hugmyndir í frv. eru til þess fallnar að rýra sjálfstæði stéttarfélaga. Tillögurnar minnka völd einstaklinganna í verkalýðsfélögunum, algerlega þvert á það sem tillöguhöfundar þykjast stefna að.``

Enn segir í ályktun miðstjórnar ASÍ, með leyfi forseta:

,,Ekkert í frv. er til þess fallið að auka á nokkurn hátt réttindi launafólks eða bæta réttarstöðu þess, fyrir þá hliðina er einungis um hertar reglur og skerðingar að ræða. Að sama skapi er ekkert í frv. sem hefur í för með sér þrengingar á heimildum atvinnurekenda, þrátt fyrir að því sé haldið fram að breytingarnar eigi að gilda jafnt fyrir alla. Í frv. er heldur ekkert sem líklegt er til þess að liðka til eða flýta fyrir vinnu við gerð kjarasamninga.``

Þetta segir m.a. í ályktun miðstjórnar ASÍ frá 20. mars um það frv. til laga sem hér er til umræðu.

Svo enn sé vitnað í ályktanir frá samtökum launafólks þá samþykkti stjórn BSRB ályktun í gær þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn BSRB mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar að leggja fram frv. um breytingar á vinnulöggjöfinni í andstöðu við verkalýðshreyfinguna í landinu og knýja þannig fram með lögþvingunum nýjar reglur um samskipti á vinnumarkaðinum.

BSRB ítrekar fyrri afstöðu sína að brýnt sé að vinnubrögð við gerð kjarasamninga verði bætt en skipan þeirra mála verður að vera í fullu samráði. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru ekki til þess fallin að liðka fyrir kjarasamningum, heldur munu þau kynda undir ófriði á vinnumarkaðinum.

Fingraför atvinnurekenda eru áberandi á frv. Þannig er þrengt að verkfallsréttinum og þvinguð fram svo mikil miðstýring kjarasamninga að óviðunandi er.

Stjórn BSRB skorar á ríkisstjórnina að draga frv. þegar til baka og setjast að alvöruviðræðum við alla aðila vinnumarkaðarins til að ná fram sátt um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.``

Hér eru sögð nokkuð stór orð, að á frv. ríkisstjórnarinnar séu fingraför atvinnurekenda áberandi. Ég vil biðja hæstv. forseta um að kalla hæstv. félmrh. hingað í þingsalinn vegna þess að ég ætlast til þess að hann hlýði á mál mitt.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. félmrh. verði í salnum.)

Mun ég gera hlé á máli mínu þangað til hann er aftur kominn í salinn.

Þar sem hæstv. félmrh. er kominn í þingsalinn að nýju þá mun ég halda áfram mínu máli. En það sem ég vil að hæstv. félmrh. heyri er að ég er nýbúinn að vitna hér í ályktanir sem borist hafa frá öllum stærstu samtökum launafólks í landinu. (Félmrh.: Ég fylgdist með.) Það er gott að heyra að hæstv. félmrh. hafi fylgst með því annars staðar í húsinu. En það segir meðal annars í einni slíkri ályktun að fingraför atvinnurekenda séu áberandi á frv. Ég vil nú færa nokkur rök fyrir þessari fullyrðingu. Ég er henni innilega sammála.

Í ályktun sem framkvæmdastjórn VSÍ gerði um þetta mál 13. febrúar í ár er fjallað um ýmsa þætti frv. Í ályktun Vinnuveitendasambandsins verður mönnum nokkuð tíðrætt um stöðugleika og nauðsyn þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu. Það er nokkuð sem ég held að við hljótum öll að taka undir. Okkur er hins vegar ekki sama um það á hverju slíkur stöðugleiki grundvallast, hvort hann grundvallast á víðtækri þjóðfélagslegri sátt og hvort hann grundvallast á réttlæti eða ranglæti.

[11:00]

Nú er búið að sýna fram á í margvíslegri skýrslugerð sem hefur verið birt á vegum verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka að launamunur er mjög mikill á milli landa og kemur Ísland t.d. mjög illa út úr samanburðarkönnunum sem gerðar hafa verið við Norðurlöndin. Ég held að við hljótum flest að vera sammála um að það þurfi að ráða bót á því, það þarf að reyna að bæta kaupmátt lágra launa á Íslandi. Ég hef oft heyrt hæstv. félmrh. ræða þau mál og segja hve nauðsynlegt honum þyki að gera þar bragarbót á. Stöðugleiki sem bindur launafólkið eða bindur þessar stéttir getur varla verið til góðs. Í sinni ályktun leiðir Vinnuveitendasambandið hugann ekki mikið að þessu, en þeim mun meira að því hvernig hægt er að koma böndum og fjötrum á þetta fólk með löggjöf. Hér segir m.a. í ályktun framkvæmdastjórnar VSÍ frá 13. febrúar, með leyfi forseta:

,,Vinnulöggjöfin er mikilvægur þáttur í starfsumhverfi fyrirtækjanna og hefur áhrif á það hversu áhugavert er að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Erlenda fjárfesta þarf að laða til Íslands og til þess þarf að skapa hliðstætt rekstraröryggi og annars staðar býðst, m.a. með sanngjörnum reglum um samskipti á vinnumarkaði. Sömu þörf fyrir stöðugleika hafa öll innlend fyrirtæki sem búa við vaxandi alþjóðlega samkeppni og því hefur VSÍ lagt höfuðáherslu á samstarf við verkalýðshreyfingu um úrbætur. En úr því að verkalýðshreyfingin hafnar samkomulagi um nauðsynlegustu breytingar á þeim lögum sem gilda um samskipti launþega og vinnuveitenda hljóta stjórnvöld ein að axla ábyrgð á því að skapa eðlilegan ramma um þessi mikilvægu samskipti.``

Þar sem verkalýðshreyfingunni hefur þótt gengið of langt, að vinnuveitendur hafi gengið of langt í að setja fram tillögur um að skerða réttindi hennar, er ríkisstjórnin hvött til að ganga fram fyrir skjöldu og setja lög þar að lútandi.

En það eru fleiri sem hafa ályktað. Þannig ályktaði stjórn Vinnumálasambandsins 22. febrúar í sömu veru. Hér segir m.a. í ályktun stjórnar Vinnumálasambandsins, með leyfi forseta:

,,Þótt rétt og sjálfsagt hafi verið að gefa heildarsamtökum á vinnumarkaðinum kost á því að hafa áhrif á breytingar á samskiptareglunum, er það Alþingi sem ber að setja samfélaginu samskiptareglur og ríkisstjórninni ber að hafa frumkvæði samkvæmt stjórnarsáttmála.`` Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasambandið gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um að lög verði sett sem verkalýðshreyfingin er ekki tilbúin til að sætta sig við.

Reyndar segir meira í þessari ályktun stjórnar Vinnumálasambandsins. Þar segir m.a.: ,,Stjórn Vinnumálasambandsins fagnar fram komnum drögum að breytingum á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er löngu tímabært að afnema sérréttindi þeirra.`` Síðan eru þau talin upp, t.d. orlofsrétturinn, sérréttindi varðandi sumarfrí. Og hér segir að lokum:

,,Stjórnin væntir þess að ríkisstjórnin og Alþingi standi fast á að ná þessum breytingum fram.`` Það er um að stytta sumarfríið hjá opinberum starfsmönnum. Er verið að tala fyrir hönd kaupfélaganna í landinu? Er verið að álykta fyrir hönd kaupfélaganna í landinu? Reyndar er meira sem þarna er sagt, með leyfi forseta:

,,Hækkun launa opinberra starfsmanna umfram aðra og umfram bættan árangur í starfi bitnar á öðrum landsmönnum í meiri skattheimtu og er því öllum viðkomandi.``

Póstmenn munu hafa náð nokkrum árangri í síðustu kjarasamningum. Er verið að vísa sérstaklega til þeirra? Okkur er spurn. Er þarna verið að álykta fyrir hönd kaupfélaganna í landinu? Þetta eru mjög undarlegar aðfarir og mjög undarlegur málflutningur af hálfu Vinnumálasambandsins að þessu leyti.

En það er margt í þessum frumvörpum sem gefur tilefni til að ætla að það sé annað og meira sem vakir fyrir Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasamandinu og ríkisstjórninni þótt ég hafi alltaf haft miklar efasemdir um að það hafi sérstaklega vakað fyrir hæstv. félmrh. Ég er hins vegar hræddur um að hann sé að setja fram tillögur að lagabreytingum sem þjóni þeim sem vilja ganga lengra og í aðrar áttir en hann hefur löngum viljað gera. Í ályktun framkvæmdastjórnar VSÍ um vinnulöggjöfina frá 13. febrúar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Loks kann að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega. Einkaréttur stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga verði þannig takmarkaður.``

Nú er það ekki svo að Vinnuveitendasambandið hafi beinlínis verið að hvetja til þessa í gerð áfangaskýrslunnar eða svona almennt í sínum málflutningi í tengslum við þetta mál, þótt þetta hafi alltaf kraumað undir. Við höfum heyrt menn halda þessum sjónarmiðum fram, m.a. hv. þm. Pétur Blöndal í umræðunni í gær um rétt hins sjálfstæða manns til að semja einn og óstuddur utan stéttarfélaga. En þarna getur að líta sjónarmið sem ganga í þá átt að það eigi að láta verkalýðshreyfinguna víkja, félagslega samninga víkja, fyrir einstaklingsbundnum samningum.

Í frv. eru ákvæði sem eru svolítið sérstök og gefa tilefni til að tengja við þessar hugrenningar. Hér segir t.d. í 3. gr. frv. um að við 8. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein:

,,Ófélagsbundnir atvinnurekendur og launamenn utan stéttarfélaga bera einir ábyrgð á samningsrofum af sinni hálfu. Nú er ekki sýnt fram á aðild samningsaðila að aðgerðum sem jafna má til vinnustöðvunar og ber félagsmaður þá sjálfur ábyrgð á þátttöku sinni í þeim.``

Hér er rætt sérstaklega um ófélagsbundið fólk, hvernig staðið skuli að málum gagnvart því. Þá erum við komin inn í allar þessar tengingar. Við höfum haldið því fram, mörg okkar sem höfum fjallað um frumvörp ríkisstjórnarinnar, að það sem er að gerast núna sé tilraun af hálfu stjórnvalda til að veikja verkalýðshreyfinguna, til að flytja völdin til í þjóðfélaginu, til að draga úr mikilvægi félagslegra samninga og auðvelda fólki að standa utan félaga. Það á að njóta afraksturs og árangurs af starfi verkalýðshreyfingarinnar, en standa fyrir utan félögin. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson spyr: Eiga þeir ekki að geta staðið utan verkalýðsfélaganna sem vilja? Þannig hefur málið iðulega verið lagt upp, þ.e. að þetta sé spurning um mannréttindi, að menn eigi að geta valið um það hvort þeir standa innan félags eða utan. Þannig leggja margir upp í för með þessa hugsun sem mannréttindakröfu. En gera þeir sér grein fyrir því að það sem lagt er upp með sem mannréttindi getur auðveldlega snúist í andhverfu sína? Það hefur gerst víða um heim, í Bretlandi og í Bandaríkjunum, sérstaklega í miklu atvinnuleysi. Atvinnurekandinn sem stendur gagnvart einstaklingnum segir þegar leitað er til hans um vinnu: Ég skal ráða þig í vinnu með einu skilyrði þó. Að þú standir utan verkalýðsfélaga. Það sem lagt er upp með sem mannréttindakröfu getur með öðrum orðum hæglega snúist upp í fjötra gagnvart launamönnunum. Þetta er það kerfi sem frjálshyggjumenn hafa reynt að koma á. Þetta er Nýja-Sjálandsleiðin, þetta er breska Thatcher-leiðin, en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að þetta sé Páls Péturssonar-leiðin, hæstv. ráðherra

Í þessum lagafrumvörpum eru ákvæði sem því miður gefa tilefni til að ætla að það sé verið að fara út á þessa braut.

Menn hafa í þessari umræðu farið út í einstaka efnisþætti frv. og mun ég að sjálfsögðu gera það þegar þessi mál koma til umræðu í haust eftir ítarlegar viðræður innan verkalýðshreyfingar og á milli viðkomandi aðila. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra muni taka þetta mál út úr þeim farvegi sem það er nú og freista þess að ná betri og víðtækari sátt um þessi efni. Það eru og hafa verið í gangi viðræður milli aðila á vinnumarkaði. Vilji er fyrir hendi, það kemur fram í þeim ályktunum sem ég hef lesið upp, vilji af hálfu Alþýðusambandsins og vilji af hálfu annarra samtaka til að ganga til slíkra viðræðna og ræða jafnframt ýmsa þætti sem ég held að við mörg gætum fallist á að séu til bóta. Eigi að reyna að finna leiðir til að gera kjarasamningaviðræður markvissari en nú er á að gera það á öðrum grunni og af fúsum og frjálsum vilja.

Það er tvennt í þessu engu að síður af efnisþáttum sem mig langar til að víkja lítillega að. Það er annars vegar spurningin um atkvæðagreiðslur og hins vegar spurningin um miðstýringu og völd sáttasemjara. Nú er það svo að sáttasemjari hefur samkvæmt gildandi lögum umtalsverð völd. Hann getur t.d. látið fara fram atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu og hann getur látið telja upp úr einum potti þannig að sumt af þessu í frv. er ekki nýtt. En það sem er nýtt er að sáttasemjari getur núna með lögþvingaðri viðræðuáætlun kallað alla að samningaborðinu. Hann getur kallað allan vinnumarkaðinn að samningaborðinu í einu, líka þá sem ekki hyggjast ganga til samninga eða vilja ekki ganga til samninga eða eru að ráða sínum ráðum. Eftir að búið er að lögbinda viðræðuáætlun, það eiga allir að gera viðræðuáætlun áður en samningar renna út, getur hann kallað allan vinnumarkaðinn að borði sínu og þar með er hann kominn með völd í hendur til að láta eina og sömu tillöguna ganga yfir allan markaðinn. Þótt það geti verið kostur í sumum tilvikum að menn semji allir saman í stórum samflotum, t.d. ef menn ætla að ná fram tilteknum markmiðum og um þau er sátt, þá gengur ekki að það sé lögþvingað með þessum hætti. Þetta verður að gerast af fúsum og frjálsum vilja. Stóra breytingin núna er að það er hægt að kalla alla launamenn jafnvel gegn vilja þeirra að samningaborðinu og láta þá síðan greiða atkvæði um eina og sömu tillöguna. Nú eru það tveir pottar sem talið er upp úr, ekki eins og var í fyrri hugmyndum að telja upp úr einum potti, en engu að síður er hægt að láta allan vinnumarkaðinn greiða atkvæði um eina tillögu og það gæti verið mjög erfitt að fella slíka tillögu. Þetta er of mikil lögþvingun, of mikil miðstýring og það kemur fram í öllum ályktununum sem ég var að vitna í áðan að menn telja þetta óaðgengilegt.

[11:15]

Víkjum þá lítillega að atkvæðagreiðslum. Nú er ég því að sjálfsögðu fylgjandi að lýðræðið sé eflt og virkni sé sem mest í öllum félagsskap. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að svo sé. Það finnst verkalýðsfélögunum að sjálfsögðu líka. Ég vitnaði áðan í ályktanir frá Alþýðusambandinu sem ganga í þá veru að menn vilji setja sérreglur um þessi efni. En þarna á löggjafinn ekki að koma inn í, ekki fremur en að löggjafinn eigi að hlutast til um það nákvæmlega hvernig t.d. Framsfl. skipar sínum málum á flokksþingi sínu. Það á ekki að þvinga þessa hluti fram með einhverri miðstýrðri skipun eins og hér er verið að gera.

Síðan er annað. Við skulum hugleiða að þessir hlutir byggja líka á hefðum. Við skulum taka dæmi um það þegar Verkamannafélagið Dagsbrún aflar verkfallsheimildar sem verður núna samkvæmt þessum lögum mjög takmörkuð. Ekki yrði um verkfallsheimild að ræða. Það yrði greitt atkvæði um verkfall, ekki verkfallsheimild, sem unnt yrði að fresta að tæki gildi í 14 daga eða 14 sólarhringa samfleytt. Sá máti sem Verkamannafélagið Dagsbrún hefur haft á að kalla saman fjölmenna fundi í Bíóborginni, eins og við þekkjum öll, yrði úr sögunni. Það er verið að taka úr þessu allt blóð og tilfinningar og setja þetta inn í dauðari farveg en verið hefur. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvað er það sem vakir fyrir ríkisstjórninni og hvað er það sem vakir fyrir atvinnurekendum sem vilja breyta þessum hlutum? Er það umhyggja fyrir verkalýðshreyfingunni? Er það umhyggja fyrir launafólki? Er það umhyggja fyrir Dagsbrúnarmanninum? Að sjálfsögðu vitum við öll að það er ekki það. Það er verið að setja lög og reglur sem takmarka möguleika fólks og þetta er mjög svipað því sem gerðist á sínum tíma þegar Margrét Thatcher komst til valda í Bretlandi undir lok 8. áratugarins, þá voru þetta hennar fyrstu verk, ríkisstjórnar hennar. Og fyrsta verk Ný-sjálensku frjálshyggjumannanna þegar þeir tóku til hendinni á sínum tíma var að leita leiða til að veikja lýðræðislega réttindabaráttu.

Hæstv. forseti. Ég verð að ljúka máli mínu. Ég get sem betur fer komið aftur í ræðustól síðar í dag og mun að sjálfsögðu nýta mér það. Þessi mál eru engan veginn útrædd af minni hálfu.