Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 12:14:24 (4372)

1996-03-22 12:14:24# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[12:14]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umræður sem hér hafa farið fram síðustu mínúturnar að öðru leyti en því að benda á að það hefur verið veruleg tregða hjá Vinnuveitendasambandinu oft og tíðum við að koma á svokölluðum vinnustaðarsamningum vegna þess að þar með hefðu yfirborganirnar orðið að koma upp á borðið og þeir eru á móti því. Það hefur verið aðalástæðan. Þar er því ekki fyrst og fremst við tregðu verkalýðsfélaganna að sakast, heldur engu að síðu tregðu Vinnuveitendasambandsins.

[12:15]

Ég þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir ýmislegt sem hann benti á í ræðu sinni sem mér finnst umhugsunarvert, aðallega það sem lýtur að því að setja sambærilegar reglur og gilt hafa hér á vinnumarkaði um stéttarfélögin um atvinnurekendahliðina. Ég held að það sé afar mikilvægt að menn velti því alvarlega fyrir sér, t.d. þessu atkvæðagreiðslufyrirkomulagi sem er í Vinnuveitendasambandinu. Er hugsanlegt að setja reglur um að þar séu að einhverju leyti sambærilegar reglur við það sem gerist hjá verkalýðsfélögunum, t.d. þannig að einstakir hluthafar séu kallaðir til en ekki bara forstjórar fyrirtækjanna eins og þetta er í dag? Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm. Ágúst Einarsson að því í þessu andsvari hvort hann þekki til slíks fyrirkomulags þar sem um er að ræða meira dreifræði á valdi í atvinnurekendasamtökum en menn virðast hafa hugarflug til að velta upp hér. Vandinn í þessu máli er auðvitað sá að kapítalið hefur tilhneigingu til að þjappa sér alltaf saman í einn punkt til að geta beitt sem mestu valdi gegn samtökum launafólks. En látum það vera, ég spyr hann að þessu. Mér fannst líka merkilegt það sem hann nefndi varðandi það í þessu samhengi að það yrði sett í lög að starfsmenn ættu aðild að stjórn fyrirtækja, líka hlutafélaga. Spurningin er hvort það sé ekki mál sem þurfi líka að skoða í tengslum við almennar breytingar á vinnulöggjöfinni, sérstaklega ef menn væru nú að gera það í eðlilegri sátt og samningum við verkalýðshreyfinguna í landinu.