Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 14:33:24 (4378)

1996-03-22 14:33:24# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það er fremur erfitt að beina því til forseta að það er óánægja í okkar röðum með að það eru að koma upp fleiri og fleiri fundir eftir helgina í því svokallaða fundarhléi eða páskahléi þingmanna sem svo er orðað vegna þess að forseti hefur lagt áherslu á það að áætlun hans nái til þingfunda og e.t.v. til reglulegra nefndarfunda. Nú hefur það gerst sem hér hefur verið reifað að það er mikil óánægja og kominn þungi í þingmenn yfir því að hér er verið að boða til funda í næstu viku. Við sem hér erum vitum að þetta er ekki páskahlé eða páskafrí þar sem þingmenn fara heim eða leggjast í einhverja leti. Þetta er sá tími sem þingmenn nota til annarra starfa tengt þingstarfinu. Margir eru búnir að undirbúa fundi í kjördæmi sínu og vinnustaðafundi og ýmsa fundi sem þeir komast ekki til að halda fyrr en þetta hlé kemur og það er mjög óviðunandi að verið sé að setja á fundi fram eftir vikunni. Það er t.d. ekki búið að boða neinn fund í félmn. en það er búist við því að óskað verði eftir því ef umræðu lýkur í dag að sú nefnd komi eitthvað saman.

Virðulegi forseti. Þetta er óviðunandi staða fyrir þingmenn í lok síðustu viku fyrir páskahlé vegna þess að eins og bent hefur verið á er búið að skapa mjög mikla ósátt meðal þingmanna með því að setja á dagskrá það frv. sem er til umræðu í dag. Ég spyr eins og sá sem hér hóf þetta mál: Getur forseti haft einhver áhrif eða er þetta eingöngu eitthvað sem þarf að eiga við gagnvart formönnum nefndanna? Mér finnst það mjög mikilvægt að fá úr því skorið.