Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 14:36:11 (4380)

1996-03-22 14:36:11# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[14:36]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum var dembt yfir okkur þingmenn með lágmarksfyrirvara án þess að hafa verið boðað á dagskrá í upphafi vikunnar eins og venja er til. Ég er ekki sú fyrsta sem gerir athugasemdir við þetta í þessari umræðu. Samt sem áður byrja ég á því að mótmæla þessum vinnubrögðum, ekki síst þar sem um mjög umfangsmikið, flókið, viðkvæmt og mikilvægt mál er að ræða. Ríkisstjórninni er greinilega svo annt um að skerða enn frekar möguleika launafólks til að verja kjör sín að öll önnur mikilvæg mál eru látin hrannast upp og víkja fyrir þessu, einu af frumvörpunum svokölluðu, frumvörpunum sem eru á hvers manns vörum vegna dæmalausrar aðfarar að launafólki og réttindum þess. Það er ekki eingöngu offorsið gagnvart okkur þingmönnum sem vekur athygli við framlagningu þessa frv. Það er ekki síður athyglisvert að ríkisstjórnin leggur frv. fram í óþökk verkalýðshreyfingarinnar og rýfur þar með þríhliða samningaviðræður sem voru í gangi um þessi mál. Þar með er áralangri hefð um sátt aðila um vinnulöggjöfina rofin. Hvaða tíðindi skyldi það boða? Hvað þýðir það að hægri stjórn með óhóflegan meiri hluta ákveður að flytja svona frv. í óþökk verkalýðshreyfingarinnar án þess að hreyfa við atvinnurekendum enda heyrist lítið kvartað úr þeirra horni? Eru þetta leiðir ríkisstjórnarinnar? Eru þetta þær leiðir sem hún ætlar að fara til að fækka töpuðum vinnustundum í landinu vegna vinnudeilna sem réttilega eru hlutfallslega óeðlilega margar og því eðlilegt að eitthvað sé gert? Hefði ekki verið eðlilegra að leyfa verkalýðshreyfingunni að semja um þetta mál við viðsemjendur sína, þ.e. ríkið og atvinnurekendur, fremur en að hefta starfsemi verkalýðshreyfingarinnar með lögum og stýra því í ótrúlegum smáatriðum hvernig t.d. einstök félög geta eða geta ekki samþykkt kjarasamninga eða boðað til vinnustöðvana?

Það er í raun athyglisvert að bera saman það lævi blendna andrúmsloft sem ríkir nú í kringum framlagningu þessa frv. og andrúmsloftið þegar vinnulöggjöfin var sett árið 1938. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að koma í gegn frv. um vinnulöggjöf árið 1936 og 1937 tókst loks að fá núgildandi lög um stéttarfélög og vinnudeilur samþykkt árið 1938. Um það segir svo í afmælisriti Vinnuveitendasambands Íslands frá árinu 1975, með leyfi forseta, og þetta er á bls. 21 í viðkomandi riti:

,,Fáeinum dögum áður en þetta er ritað höfðu sjónarmið vinnuveitenda unnið mikinn sigur. Einar Ásmundsson hrl. segir um þetta í Þjóðin, 1. árg. 2. tbl. 1938: ,,En það merkilega skeður að einmitt um svipaðar mundir sem áróðurinn gegn vinnulöggjöfinni er mestur gerir Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík þann 24. júlí samning við vinnuveitendur þar sem slegið er föstu því grundvallaratriði vinnulöggjafar að skylt sé að fresta verkföllum takmarkaðan tíma meðan á sáttaumleitunum stendur. Nánar tiltekið fól samningurinn við Dagsbrún í sér eftirfarandi atriði:

a) Að allan ágreining sem rís út af samningum skuli leggja fyrir sáttanefnd.

b) Í sáttanefnd skuli rannsaka ágreiningsatriðin og þrautreyna hvort ekki sé unnt að leysa viðkomandi deilu friðsamlega.

c) Að óheimil sé vinnustöðvun út af ágreiningi fyrr en vika er liðin frá því sáttaumleitanir hófust.

Þrátt fyrir allar æsingar í blöðum og á mannfundum færðist þó verkalýðurinn árið 1937 nær vinnulöggjöfinni sem kemur fram í því að stærsta verkalýðsfélagið viðurkennir þau atriði sem að framan eru talin og eru grundvallaratriði allrar löggjafar um vinnudeilur og eru nákvæmlega það sama að stefnu til og þær leiðir sem gert er ráð fyrir í vinnulöggjöf sjálfstæðismanna. Samningurinn við Dagsbrún í júlí 1937 mun verða þannig þýðingarmikill áfangi á leiðinni til vinnulöggjafar og er hann glöggt dæmi þess hvernig knýjandi þjóðfélagsástæður ryðja málum braut, hvað sem líður öllu þrasi og æsingum stjórnmálaflokka gegn málinu.````

Tilvitnun í Einar er lokið en áfram ætla ég að vitna í nefnt rit Vinnuveitendasambandsins frá árinu 1975 en þar segir á bls. 21:

,,Thor Thors og Garðar Þorsteinsson endurfluttu frumvarp sitt á haustþingi 1937 og þinginu 1938 án málaloka. En í febrúar 1938 birti milliþinganefnd Alþýðuflokksins og Framsóknarflokks, sem á sínum tíma klofnaði, tillögur um vinnulöggjöf. Þær voru sendar Vinnuveitendafélagi Íslands til umsagnar. Félagið gerði 40 athugasemdir við frumvarpið en aðeins ein var tekin til greina. Alþingi samþykkti síðan lög um stéttarfélög og vinnudeilur 10. maí 1938 og lögin tóku gildi 11. júní sama ár.

Þótt vinnuveitendur teldu og telji enn að löggjöf þessi sé meingölluð og sumpart málamiðlun þar sem fullt eins mikið tillit var tekið til flokkspólitískra sjónarmiða og hagsmuna vinnumarkaðarins, þá var löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur samt mikill sigur fyrir þá. Öðru hvoru hafa á Alþingi komið fram tillögur til breytinga á þessum lögum, einkum frá róttækasta armi verkalýðshreyfingarinnar sem ef þær hefðu orðið að lögum, hefðu gert ýmis þýðingarmestu ákvæði laganna lítils virði. Slíkar tillögur hafa nánast engan hljómgrunn fengið.``

Það er því alveg ljóst að þegar þessi lög voru sett þá voru þau sett þannig að vinnuveitendur sjálfir túlka þau sem þau hafi verið þeim sjálfum í hag. Enn einu sinni á að þvinga í gegn löggjöf sem vinnuveitendur styðja en er í óþökk verkalýðshreyfingarinnar. Það er ekki nú að ósk róttækasta arms verkalýðshreyfingarinnar sem á að fara að breyta þessum lögum heldur ef eitthvað þá er það ríkisstjórnin og vinnuveitendur sem vilja breyta þeim. Núna er hægri stjórn við völd því að félagshyggjuarmur Framsfl. virðist fyrir löngu vera búinn að gleyma öllum kosningaloforðum og virðist genginn í björg með Sjálfstfl. og vinnuveitendum. Nú á að þrengja að verkfallsréttinum og þvinga fram enn frekari og óviðunandi miðstýringu kjarasamninga. Þessi vinnubrögð munu að mínu mati alls ekki liðka fyrir gerð kjarasamninga, þvert á móti munu þau ýta undir ófrið á vinnumarkaði, ekki síst vegna þeirra gerræðislegu vinnubragða sem hafa verið viðhöfð.

[14:45]

Þó að nokkrir fleiri hafi farið í einstök atriði frv. langar mig að nefna nokkur nýmæli frv. Í fyrsta lagi vekur athygli mína að á nokkrum stöðum er fjallað um ófélagsbundna einstaklinga. Hvers vegna skyldi það vera gert? Er verið að undirbúa einhvers konar neðanjarðaratvinnukerfi eins og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar og maður heyrir að sé orðinn vísir að til hér? Er verið að styrkja slíkt kerfi í sessi? Við hvað er átt með þessu, hæstv. félmrh., sem ég sé að situr hér í hliðarsal? Eða er verið að höfða til þess frelsis sem er í stjórnarskránni um rétt manna til þess að standa utan félaga?

Í öðru lagi finnst mér mjög athyglisvert það ákvæði sem hér hefur nokkuð verið til umræðu um að heimila fyrirtækjum að stofna stéttarfélög ef þau hafa 250 starfsmenn eða fleiri. Auðvitað er augljóst mál að þetta getur komið höggi á núverandi skipulag verkalýðshreyfingarinnar eins og hér hefur verið vakin athygli á en aðalatriðið hlýtur að vera hvort þetta hentar viðkomandi fyrirtæki eða viðkomandi starfsmönnum. Aðaláhyggjuefni mitt er kannski hvað gerist ef viðkomandi fyrirtæki minnkar allt í einu, t.d. vegna fjöldauppsagna, og fer undir 250 manna vinnustað. Hvað gerist þá og hvað með réttindaflutning gagnvart slíkum félögum?

Þá vil ég vekja athygli á breytingunni á núverandi 15. gr. laganna frá 1938 um það hvernig skuli staðið að því að hefja vinnustöðvun. Það er greinilegt að þar er gert ráð fyrir aukinni kröfu um þátttöku þegar ákveðið er hvort af vinnustöðvun getur orðið. Í raun og veru er verið að breyta verkfallsréttinum í átt að verkfallsrétti opinberra starfsmanna. Það er mitt mat að þarna sé í raun fyrirhuguð mjög alvarleg þrenging að verkfallsréttinum og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar halda því fram að þetta muni leiða til þess að verkföll verði bæði tíðari og langvinnari en þau eru samkvæmt núgildandi lögum sem væntanlega er þó alls ekki markmið hæstv. félmrh.

Í 23. gr. er gert ráð fyrir viðræðuáætlunum og það tel ég eina af mjög jákvæðum hliðum á þessu máli. Þar er einstökum félögum, sem geta þó falið það landssamtökum eða heildarsamtökum, gert að skila viðræðuáætlun 10 vikum áður en samningar verða lausir. Þetta tel ég mjög gott mál og æskilegt ákvæði og ég er ekki sannfærð um réttmæti þeirrar gagnrýni að þetta sé bundið við félög. Mér finnst þetta í fljótu bragði alls ekki vitlaust fyrirkomulag.

En eitt umdeilt atriði er í 28. gr. sem er svokölluð tengingarregla eða útvíkkun á henni og þýðir um leið aukin völd sáttasemjara. Þetta ákvæði tel ég mjög hættulegt og ólýðræðislegt þar sem það getur valdið því að félagsmenn geti t.d. alls ekki ákveðið sjálfir hvort þeir hafna miðlunartillögu, heldur yrðu það félagsmenn í öðrum félögum sem tækju þá ákvörðun.

Að síðustu má nefna 31. gr. þar sem kröfur um að fella miðlunartillögu eru auknar. Þetta tel ég stóra aðför að völdum verkalýðshreyfingarinnar. Svona reglur hafa tíðkast t.d. í Danmörku en nú er rætt um að breyta þeim þar sem þær þykja mjög ólýðræðislegar. Því skýtur mjög skökku við þegar hæstv. félmrh., sem segist vilja auka lýðræðið í verkalýðshreyfingunni, stendur að svona tillögu.

Ég vil taka það skýrt fram að ég lít alls ekki á mig sem talsmann verkalýðshreyfingarinnar, hvorki í þessu máli né nokkru öðru. Enda hef ég oft gagnrýnt verkalýðshreyfinguna, ekki síst fyrir slælega frammistöðu hennar við að setja fram ýtrustu kröfur til að ná fram launajafnrétti kynjanna og reyna svo að fylgja þeim vel eftir. Því var ein fyrsta spurningin sem ég hafði í huga við yfirferð málsins: Hvernig koma þessar breytingar við konur? Eru þær líklegar til þess að minnka launamun kynjanna og styrkja stöðu kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar?

Ég vil vekja athygli á því að framsögumenn allra stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli í gær voru konur. Margar voru reyndar úr hv. félmn. Þessar konur ræddu málefnalega um þetta flókna mál án þess að nota of mikil gífuryrði. Þetta var mjög sérstakur viðburður og athyglisverður. En þótt konum vaxi ásmegin innan þingsins, er ljóst að það vantar gífurlega á að launamisrétti kynjanna sé að leysast úti í þjóðfélaginu. Því hlýt ég að spyrja þegar ég sé þetta frv.: Hvernig kemur það við konur? Mun þetta auðvelda að ráðast á launamismun kynjanna?

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði áðan, að verkalýðshreyfingin hafi brugðist konum að þessu leyti og ekki síst kemur þar skipulagið til, þ.e. þau stóru samflot sem hafa verið reynd í kjarasamningum að undanförnu. Ef topparnir í verkalýðshreyfingunni setja þessi mál ekki á oddinn verða þau undir. Þetta frv. á að efla stóru samflotin og gera einstökum félögum erfiðara en áður að ráða ráðum sínum í kjarabaráttu sinni.

Mín niðurstaða er því sú að þetta frv. muni ekki stuðla að því að útrýma hinu alræmda launamisrétti kynjanna. Það verður erfiðara fyrir sérfélög að fella miðlunartillögu ef hún er tengd við stærri samflot og engin teikn eru á lofti um það að valdahlutföll kynjanna á píramítatoppi verkalýðshreyfingarinnar séu að breytast.

Því vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort hann finni ekki fyrir mótsögn í eigin athöfnum. Annars vegar vinnur hann að ókynbundnu starfsmati sem jafnréttisráðherra, vonandi í þeim tilgangi að minnka þennan mun. Hins vegar er hann að múlbinda verkalýðshreyfinguna og hefta möguleika einstakra hópa og félaga sem eru vanmetin til launa til að fella óviðunandi samninga. Það gerir hann sem félmrh. Finnur hæstv. félmrh. ekki fyrir mótsögn í þessum athöfnum sínum? Það er mitt mat að þetta frv. sé ekki líklegt til að ná því markmiði að skapa meiri frið á vinnumarkaði eða draga úr launamun kynjanna. Því er ég mótfallin því og mun ekki greiða götu þess hér í þinginu.

Ég fór vandlega yfir ræðu hæstv. félmrh. og vildi gefa því sérstaklegan gaum hvað það væri sem ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. telur svo brýnt og svo mikilvægt í þessu frv. að það réttlæti að lýsa yfir stríði við verkalýðshreyfinguna í landinu og rjúfa þá þríhliða samvinnu sem hér hefur tíðkast í kjaraviðræðum.

Ef litið er til framsöguræðu hæstv. félmrh. í málinu þá benti hann þar á nokkrar staðreyndir um íslenska vinnumarkaðinn. Hann benti á að fjöldi tapaðra verkfallsdaga er hlutfallslega mjög mikill miðað við nágrannalönd okkar og þar með heildarfjöldi tapaðra vinnudaga. Fjöldi vinnustöðvana er einnig mjög mikill eða 1 til 292 á ári frá árinu 1977. Einnig hefur vakið alþjóðlega athygli hversu oft stjórnvöld, því miður oft í gegnum bráðabirgðarlög, hafa haft afskipti af vinnudeilum og kjarasamningum eða 12 sinnum sl. 12 ár. Ég get því vel tekið undir það sjónarmið sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að þessar staðreyndir bendi til þess að vandkvæði ríki í samskiptum aðila vinnumarkaðarins hér á landi. Ef þetta sjónarmið er viðurkennt, svo og það að laun almennra launþega hér eru með því lægsta sem þekkist miðað við lönd með sambærilegar þjóðartekjur og jafnframt að hér tíðkast meiri kynjamunur í launum en nokkurs staðar sem ég þekki til þrátt fyrir 20 ára gömul jafnréttislög, verður að álykta sem svo að ekki sé allt eins og það á að vera hér á landi. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að í janúar sl. gerði nefnd Sameinuðu þjóðanna athugasemdir við framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á fundi í Genf. Athugasemdirnar voru í níu liðum en einn liðurinn var athugasemd um að það verði að gera viðeigandi ráðstafanir til að vinna gegn launamisrétti milli karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum sem einstæðar mæður veita forstöðu.

Mín niðurstaða er að það verði að horfast í augu við staðreyndir. Hér eru óeðlileg samskipti á milli aðila vinnumarkaðarins miðað við nágrannalönd okkar. Hér tíðkast lægri laun en hjá launþegum annarra landa sem við berum okkur saman við. Hér er meiri kynjamunur í launum en tíðkast annars staðar og hér eru fleiri einstæðar mæður en þekkist í nágrannalöndunum. Hér er framleiðni í fyrirtækjum mjög lítil og vinnutími óheyrilega langur. Þessar staðreyndir sýna að það þarf að endurskoða þessa stöðu í heild. Vinnulöggjöfin hlýtur að vera hluti af þeirri endurskoðun svo og verkalýðshreyfingin, starfshættir hennar og skipulag, ásamt launakerfi, starfsmati, vinnutíma og inngripi ríkisins í kjarasamninga. Það má því vel vera að einhver efnisatriði í þessu frv. séu spor í rétta átt, t.d. ákvæðið um viðræðuáætlun. En ég er sannfærð um að framlagning þessa frv. í trássi við verkalýðshreyfinguna er skref í öfuga átt. Það þarf að styrkja kjör verkalýðsins í landinu samkvæmt framangreindu. Þótt ég segi að verkalýðshreyfingin þurfi að vinna mun betur í þágu launþega og til að jafna launamun kynjanna, hlýtur það samt að fara saman að styrkja verkalýðshreyfinguna og að bæta kjör launafólks. Verkalýðshreyfingin verður sjálf að meta stöðu sína og starfshætti og hvernig hún getur breytt þeim staðreyndum sem við blasa og ég gat um hér að framan. Mat mitt er að verkalýðshreyfingin geti ekki verið fullkomin og nú sé ástæða til endurskoðunar í ljósi stöðu hennar og staðreyndanna að framan. En það er verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að hefja slíka endurskoðun. Frv. veikir möguleika einstakra hópa sem eru illa settir, t.d. ýmissa kvennastétta, til að fella samninga og frv. styrkir stór samflot og um leið líkurnar á því að sá gífurlegi launamunur sem nú tíðkast í þjóðfélaginu, m.a. launamunur kynjanna, verði festur í sessi. Frv. krefst mikillar umræðu en er fyrst og fremst aðför að vinnandi fólki í landinu. Því ber að fella það en nota umræðurnar til að þróa réttlátari hugmyndir um samskipti á íslenskum vinnumarkaði.

[15:00]

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni hér fyrr í umræðunni að það er ýmislegt fleira en vinnulöggjöfin í okkar hagkerfi sem skýrir hvað launin hér á landi eru lág miðað við þjóðarframleiðslu. Eitt af því sem þarf að breyta að mínu mati eru samskipti aðila vinnumarkaðarins og því er tímabært að taka þau mál upp með ferskum hætti án þess að fara í vörn fyrir ríkjandi ástand. Það þarf að gera bæði verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda lýðræðislegri að mínu mati. Nú er staðan þannig að vart er hægt að koma á eðlilegri samvirkni á milli framleiðni fyrirtækja og launagreiðslna til starfsfólks. Það má ekki gerast enn einu sinni að það verði hróflað við þessum lögum atvinnurekendum í hag á kostnað launafólks.

Ég fagna því að umræða um þessi mál er komin af stað en fordæmi enn og aftur það offors sem ríkisstjórnin sýnir með því að leggja frv. fram núna og slíta þar með viðræðum sem voru í góðu gengi við verkalýðshreyfinguna um þessi mál. Þessi mál þarf að skoða opnum huga í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna og því er frv. frumhlaup. Vonandi verður því vísað frá en notað til þess að opna uppbyggilegri umræðu um málin. Það verður að gera allt til að breyta þeim öflum sem halda launum launþega óeðlilega lágum. Löggjafinn er einn aðili sem þarf að koma að því máli, m.a. með því að hefta stjórnvöld við að setja bráðabirgðalög og grípa inn í kjarasamninga svo og til að endurskoða vinnulöggjöfina. En verkalýðshreyfingin sjálf verður að sjá um þá endurskoðun sem hún telur æskilega á eigin skipulagi og starfsháttum til að ná betur því markmiði sínu að styrkja stöðu launafólks, þar á meðal kvenna sem því miður hafa dregist aftur úr í launum sl. tíu ár þrátt fyrir jafnréttislög. Gott væri að atvinnurekendur tækju þennan boðskap einnig til greina því ekki virðist vanþörf á skilningi á þessu sjónarmiði og jafnréttissjónarmiðum innan þeirrar hreyfingar. Þetta ástand launamála og kjaramála í landinu er óviðunandi og allir viðeigandi aðilar verða að gera sitt til að breyta því.