Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 15:44:23 (4383)

1996-03-22 15:44:23# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[15:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég sé að það hlé sem hér var gert og sú ályktun sem hæstv. ráðherra fékk í hendur og ég hef hér er enn ein staðfestingin á því hversu mikið hyldýpi er á milli þess skilnings sem hæstv. ráðherra leggur í samráð og hins vegar verkalýðshreyfingin og aðrir þeir sem um þetta mál hafa fjallað. En hér er ályktun formannafundar ASÍ um það frv. sem við höfum hér til umræðu og ég tel sjálfsagt, virðulegi forseti, að lesa hana upp. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Formannafundur ASÍ haldinn á Hótel Sögu, föstudaginn 22. mars 1996, fordæmir harðlega þann yfirgang ríkisstjórnarinnar sem birtist í tilraun til að þröngva fram breytingum á vinnulöggjöfinni án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Með framlagningu frumvarpsins hafa stjórnvöld gefið yfirlýsingu um að þau óski ekki lengur eftir hefðbundnu þríhliða samstarfi og hafa þar með rofið áratuga sátt um þróun samskiptareglna á vinnumarkaði. Um slík vinnubrögð verður engin þjóðarsátt. Formannafundur ASÍ telur að fyrirliggjandi frumvarp sé árás á verkalýðshreyfinguna og hinn almenna félagsmann. Flestar hugmyndir í frumvarpinu rýra sjálfstæði stéttarfélaga og minnka völd einstaklinganna í verkalýðsfélögunum þvert á það sem tillöguhöfundar þykjast stefna að. Frumvarpið byggir á vanþekkingu á málefnum íslensks vinnumarkaðar eins og marka má m.a. af hugmyndum um vinnustaðarfélög sem forsvarsmenn bæði samtaka launafólks og atvinnurekenda hafa varað við.

Formannafundur ASÍ krefst þess að frumvarpið verði nú þegar dregið til baka og aðilum vinnumarkaðar verði gefinn möguleiki á að semja um samskiptareglur sín á milli án hótunar um lagasetningu eins og stefnt var að áður en félagsmálaráðherra lagði frumvarpið fram. Sama gildir um önnur frumvörp sem eru í meðferð Alþingis eða væntanleg þangað og fela í sér skerðingu á rétti stéttarfélaga og félagsmanna þeirra.

Formannafundur ASÍ felur miðstjórn að fylgja málinu nánar eftir og leita samstarfs við öll önnur samtök launafólks um allsherjaraðgerðir til þess að hrinda þessari árás. Þá telur fundurinn nauðsynlegt að á næstu dögum verði haldnir fundir á vegum ASÍ sem víðast um landið um þetta mál og aðrar árásir stjórnvalda á hendur launafólki og verkalýðshreyfingunni.``

Hæstv. ráðherra. Ætlar ráðherrann enn að halda því fram að fullt samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna um þetta mál? Ályktanir frá því í gær frá BHMR um sama mál, í sömu veru, ályktun BSRB frá því í gær um sama mál, í sömu veru. Allar þessar ályktanir sem komið hafa á undanförnum vikum um öll þessi mál ásamt þeim blaðagreinum sem ég vitnaði til hér áðan, allar, mínus viðtöl við hæstv. ráðherra og aðstoðarmann hans, á sama veg. Ekkert samráð, ekkert samráð. Búið að kasta stríðshanskanum inn á vinnumarkaðinn. Og hver gerir það? Hæstv. ráðherra. Ég ítreka spurningu mína vegna þeirra fullyrðinga sem koma fram um vinnubrögð verkalýðsforustunnar í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Pétri H. Blöndal. Hafa þeir tveir verið virkir félagar í verkalýðsfélagi, annað hvort innan ASÍ eða BSRB, þannig að þeir dæmi um vinnubrögð þessara félaga af eigin reynslu? Ég vil gjarnan fá svar við því.

Virðulegi forseti. Það er þó eitt sem aldrei má gleymast þegar við fjöllum um málefni verkalýðshreyfingarinnar og samskipti aðila vinnumarkaðarins. Mér finnst það hafa gleymst í þessari umræðu og algjörlega í málflutningi hæstv. ráðherra og hv. þm. Það er að skoða sögu verkalýðshreyfingarinnar. Á hverju byggjast réttindin? Hvernig náðust fram þau réttindi sem hér er verið að leggja til að verði afnumin? Það vill nefnilega oft verða þannig að við gleymum því hvernig réttindi sem við búum við eru tilkomin. Og við gerum ekki ráð fyrir því að þau verði af okkur tekin í einu vetfangi. Launafólk hefur öðlast það réttindaumhverfi sem það býr við í dag fyrir áratuga langa baráttu. En sú barátta fór ekki að skila árangri fyrr en launafólk tók að skipuleggja sig í stéttarfélögum og sækja kröfur sínar í nafni samtakamáttar. Áður en launafólk öðlaðist þennan rétt, ég ítreka að ég tala um rétt, var draumaland hv. þm. Péturs H. Blöndals og fleiri postula frjálshyggjunnar til staðar. Þá sömdu allir á einstaklingsgrunni. Þá gat atvinnurekandinn ráðskast með launafólk eins og það væri hans eign, lækkað laun þess ef honum sýndist svo eða gert vel við þá sem honum líkaði vel við. Og þá var það líka þannig að þeir sem vildu fara fram á réttarbætur fyrir sig og sitt fólk voru einfaldlega reknir. Þeir áttu engan rétt á að halda vinnunni ef atvinnurekandinn ákvað að nú skyldu þeir fara og það strax. Við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að rifja upp svona sögur. Það er ekki svo ýkja langt síðan.

Við þurfum heldur ekki að fara langt aftur í tímann til að rifja upp baráttu launafólks fyrir því að fá atvinnuleysistryggingar. Það væri kannski hollt fyrir hv. þm. Pétur Blöndal og aðra frjálshyggjumenn í ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. að rifja upp hvernig standi á því að lengi vel var það svo að launafólk í stéttarfélögum átti eitt rétt á að fá atvinnuleysisbæturnar. Það var einmitt vegna þess að launafólk í stéttarfélögum stillti saman strengi sína á sjötta áratugnum og krafðist þess að slíkt kerfi kæmist á. Til þess þurfti langt verkfall sem lauk með yfirlýsingu um það að settur yrði á stofn atvinnuleysistryggingasjóður. Og það var líka þannig að þetta sama launafólk keypti þennan rétt fyrir 1% af launum sínum. Það keypti réttinn, hv. þm. Pétur Blöndal, fyrir 1% af launum sínum. Það er þess vegna einkennilegt að hlusta á hv. þm. titrandi af hneykslan út í yfirgang stéttarfélaganna, gefandi í skyn að verkalýðshreyfingin hafi ekkert gert fyrir sitt fólk í gegnum tíðina. Atvinnuleysisbæturnar voru einmitt teknar hér í gær sem dæmi um þennan yfirgang. En við höfum fleiri bjargvætti litla mannsins, almenna félagsmannsins í stéttarfélögunum sem eru svona kúgaðir af ofurvaldi samtaka sinna. Hæstv. ráðherra atvinnumála, framsóknarmaðurinn Páll Pétursson, telur sig líka að vera að gera gott fyrir einstaklingana í stéttarfélögunum, fyrir hinn almenna launamann í landinu. Hvernig stendur þá á því að ályktun eins og sú sem hér er og var verið að afhenda hæstv. ráðherra verður til? Hvers lags vitleysa er þetta? Og hvernig dettur hæstv. ráðherra í hug að halda fram slíkum málflutningi þegar gervöll verkalýðshreyfingin í landinu hefur risið upp vegna aðfara hans? Hver einasti heilvita maður sér að forsvarsmenn atvinnurekenda eru hæstánægðir með þessi vinnubrögð. Þeir hafa ekki fjölmennt hér hvorki á palla eða fyrir utan húsdyr Alþingis. Þeir eru annars staðar að ráða ráðum sínum og koma með sínar ábendingar.

Í þessari umræðu og reyndar í umræðunum um ríkisfjármálin og kjaramálin á undanförnum vikum hefur verið minnst á Nýja-Sjáland og það hvernig verkalýðshreyfingin þar hefur verið drepin niður með einföldum lagabreytingum. Þess vegna er ótti launafólks og þeirra sem eru í forustu stéttarfélaganna alls ekki ástæðulaus. Nýja-Sjáland er e.t.v. draumaland fjárfestanna í dag en launafólk þar hefur það skítt eftir þær breytingar sem gerðar voru á löggjöfinni. Og formaður Vinnuveitendasambands Íslands hefur lýst því yfir að hann vilji helst koma henni á hér. Laun fólks lækkuðu um 40% á fyrsta árinu eftir breytingarnar og ýmis réttindi hafa verið skert. Sem betur fer hefur hæstv. ríkisstjórn ekki ákveðið að stíga jafnstórt skref og gert var í Nýja-Sjálandi en við skulum ekki gleyma að það þarf ekki mikið til. Þrátt fyrir ítrekuð mótmæli á undanförnum vikum hefur ríkisstjórnin haldið áfram á sömu braut allt frá því að þing kom saman í október og fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Við eigum að forðast mistök eins og þau sem gerð voru á Nýja-Sjálandi gagnvart verkafólkinu. Við eigum ekki að leyfa neins konar íhlutun stjórnvalda í innri málefni stéttarfélaga. Við eigum ekki að stíga þau skref sem ætlunin er að stíga með þessum frv. sem hér hafa verið lögð fram. Vera má að okkur takist í nefndarstarfi eða hér á þingi að stöðva framgang þessara mála ef hæstv. ríkisstjórn verður ekki við þeirri beiðni frá samtökum launafólks að draga þau til baka. Vera má að það takist og það sé rétt sem fram kom í ræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í gær. Hann sagðist ekki trúa því að þarna væri innra eðli ráðherrans hæstv. á ferðinni heldur væri þetta fyrst og fremst gert að óskum einhverra annarra og væri hann nánast píndur til þess. Það getur farið svo að aðrir frjálshyggjupostular sem hér hafa líka stigið í ræðustól verði einhvern tíma ráðherrar atvinnumála og þess vegna eigum við að stoppa hér og nú. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson telur það af og frá og ég vildi að rétt væri. Alþfl. mun þá a.m.k. ekki ýta undir að það gerist á næstu árum.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, nefna þau grundvallarréttindi sem verkalýðshreyfingin byggir grundvöll sinn á. Það er sami grundvöllurinn og hefur fært launafólki í Norður-Evrópu besta umhverfið réttindalega séð, það besta sem þekkist. Þessi atriði eru ekki mörg en við getum aldrei látið þau af hendi. Það er rétturinn til að stofna stéttarfélög og ganga í þau, það er rétturinn til að semja sameiginlega til að nýta samtakamátt launafólks gegn ofurvaldi atvinnurekenda, það er bann við íhlutun stjórnvalda og atvinnurekenda í innri málefni stéttarfélaga og það er frjáls samningsréttur. Þessi atriði eru grundvöllur þess að launafólk hefur ekki verið svipt þeim réttindum sem það þó býr við hér á landi. Þessu megum við ekki gleyma, við verðum að hafa þetta í huga og ég tek heils hugar undir þá ályktun sem hæstv. ráðherra var afhent áðan.

[15:45]