Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:09:55 (4404)

1996-03-22 17:09:55# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi talað afar skýrt í svari mínu hér áðan. Ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að lagfæra þær verklagsreglur sem á vinnumarkaðnum gilda. Við teljum að með frv. séu menn einmitt að því. Á frv. eins og öðrum mannanna verkum kunna að vera hnökrar, kunna að vera gallar. Og auðvitað mun hv. nefnd hlusta á athugasemdir Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins eftir því sem þær kunna að berast og eftir því sem þær réttlæta, taka mið af því. Það hefur enginn útilokað að hlusta á þessar raddir og eiga samráð við þessa aðila nema síður sé.