Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:17:51 (4410)

1996-03-22 17:17:51# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:17]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hvorki sagt að þessi yfirlýsing sé léttvæg né heldur hef ég sagt að það að þó ný ríkisstjórn sé í landinu, þá sé hún ekki bundin af því sem aðrar stjórnir hafa gert í ríkisins nafni. Það hef ég ekki sagt. Ég hef eingöngu sagt að ég fæ ekki séð að frv. sem fyrir þinginu liggur raski því jafnvægi á milli aðila á vinnumarkaði sem hér er nefnt sérstaklega. Ég geri ekkert lítið úr þessu máli, þýðingu þess efnislega. Það flögrar ekki að mér að segja að við ríkisstjórnarskipti í einu landi hverfi skuldbindingar, það sem ríkisstjórn sem áður sat hafi gert. Jafnvel þó enginn ráðherra sem sat þá væri í ríkisstjórn sem nú situr, þá erum við jafnbundnir engu að síður. Það breytir engu. Ég nefni það ekki. Ég segi eingöngu: Ég hef lesið þenna texta. Ég sé ekki að jafnvægið milli aðila vinnumarkaðarins hafi raskast með því frv. sem hæstv. félmrh. hefur flutt.