Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:24:10 (4415)

1996-03-22 17:24:10# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:24]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það minnti mig á að hv. þm. sagði að það væri eins og hann væri að fara sem grautur í kringum heitan kött í málflutningi sínum hér áðan. (SJS: Hefur forsrh. séð það gerast?) Þetta er afar fræg tilvitnun sem ég hugsa að hv. þm. þekki því að hann er margfróður vel eins og ég hef séð í spurningaþáttum, sem rifjuð var upp vegna ævisögu Hannesar Hafsteins á sínum tíma. Ég get bent hv. þm. á þetta og hann getur þá notað það í næsta spurningaþætti ef hann þekkir ekki þessa frægu tilvitnun. (SJS: Þakka.)

En vegna þess sem hv. þm. sagði, þá er ekki nein ástæða til þess að draga þá ályktun af því að ríkisstjórnin vilji ljúka máli á þinginu um verklag á vinnumarkaði, að ríkisvaldið vilji ekki á sama tíma hafa samráð og samvinnu við Alþýðusamband Íslands og einstök aðildarfélög þess og sambönd. Auðvitað vill ríkisstjórnin gera það og er sannfærð um að það leiði fremur til þess að frv. fari hér í gegn farsællega að enginn aðili hafni því að slíkt samstarf megi eiga sér stað. Við viljum slíkt samstarf og munum leita eftir slíku samstarfi. En jafnframt eins og ég hef sagt, þá er það vilji ríkisstjórnarinnar að hér verði afgreiddar verklagsreglur á vinnumarkaði í þeim búningi sem hæstv. félmrh. hefur kynnt. En við erum auðvitað ekki búnir að hafna einu eða neinu samráði um meðferð málsins á vettvangi hins háa Alþingis.