Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:28:49 (4419)

1996-03-22 17:28:49# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með þá niðurstöðu hæstv. forseta að halda umræðum áfram við þessar aðstæður þó að ég sé raunar þeirrar skoðunar að frestun málsins sé ekki nægileg. Hæstv. félmrh. ætti heldur að sjá sóma sinn í að taka þetta mál út af borðinu og treysta aðilum vinnumarkaðarins til þess að fá niðurstöðu í það. En hér virðast menn ekki tilbúnir til að taka rökum í þessu efni enda virðist mikill meiri hluti hv. Alþingis þess fýsandi að keyra frv. í gegn í fullkominni andstöðu við samtök launafólks og það er miður.

Herra forseti. Eftir tveggja vikna fjarvist frá þinginu kom ég aftur til starfa í gærmorgun og það var nokkuð sérkennileg reynsla. Ég vissi eiginlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Það var svo makalaust létt yfir öllum sjálfstæðismönnum sem ég hitti en eins og menn vita er dálítið mikið um sjálfstæðismenn hér á Alþingi, óþarflega mikið finnst okkur nú sumum. En það var sem sagt alveg sérstaklega létt yfir þeim. Þeir voru satt að segja alveg himinlifandi og komu tæpast við gólfið í fögnuði sínum. Og það sem gerði þá svona svífandi glaða var ánægjan með hæstv. félmrh. sem stæði sig svo frábærlega vel í glímunni um vinnulöggjöfina. Fögnuður sjálfstæðismanna að viðbættri ánægju atvinnurekanda með frv. hæstv. félmrh. hefði svo sem nægt eitt og sér til þess að fylla mann tortryggni gagnvart málinu jafnvel þótt ekki hefðu komið fram hörð viðbrögð frá samtökum launafólks sem hafa ekki farið fram hjá neinum manni.

[17:30]

Reyndar eru ekki allir sjálfstæðismenn jafn yfir sig hrifnir og ég verð að segja að mér létti nokkuð við að heyra afstöðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Hann er andvígur þessu frv. og lýsti því yfir í útvarpsviðtali, sem ég heyrði, að það yrði ekki afgreitt á þessu þingi og þeir aðilar sem málið varðaði mundu að hans dómi koma sér saman um breytingar á þessum lögum ef þeir fengju þann tíma sem til þess þyrfti og við skulum vona að hv. þm. þekki til þessara mála. Ég veit fullvel að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ræður ekki einn í þessu máli í Sjálfstfl. en sá flokkur stærir sig af að vera flokkur allra stétta og þingmenn hans hljóta að verða að taka tillit til þess sem eini verkalýðssinninn í þingflokknum hefur um þetta mál að segja. Ég ætla því rétt að vona að álit hans sé rétt og að spá hans rætist. Ég vona að þetta mál verði ekki keyrt í gegn á Alþingi með afli og offorsi meiri hlutans í trássi við vilja að því er virðist flestra eða allra verkalýðsfélaga í landinu. Það væri einstaklega óviturlegt og ég tek undir það sem hefur áður komið fram að það væri auðvitað best að hæstv. forsrh. kæmi í þennan stól og segði af alkunnri röggsemi sinni: Svona gera menn ekki, hæstv. félmrh. Eða það sem væri ekki síðra að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., tæki þá hirtingu að sér.

Eins og hv. þingmönnum er væntanlega kunnugt og muna eftir talaði hæstv. utanrrh. á sl. hausti af miklum skilningi og sáttfýsi um óróann í samtökum launafólks vegna launahækkana þingmanna og ýmissa embættismanna ríkisins. Hann talaði þar um nauðsyn samráðs og varpaði fram þeirri hugmynd að fulltrúar ríkisvaldsins settust að viðræðuborði með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda og samtaka launafólks og ræddu möguleika á víðtæku samráði um bætt kjör. Tæplega verður þetta frv. sem við ræðum hér talið heppilegt innlegg í slíkt samráð.

Nú er alls ekki svo að skilja að ég telji ekki þörf á því að endurskoða lögin um stéttarfélög og vinnudeilur og gera einhverjar breytingar á þeim eða með öðru móti að stuðla að breyttum samskiptareglum á vinnumarkaði. Þvert á móti tel ég það mjög nauðsynlegt og var reyndar þeirrar skoðunar að það mál væri í ágætum farvegi þar til sigldi í einhverja kyrrstöðu málsins um miðjan þennan vetur. Það hefur hvarflað að mér að hæstv. félmrh. sé með samningu og framlagningu þessa frv. að ýta svona hressilega við málsaðilum til þess að laða fram eða réttara sagt að þvinga fram niðurstöðu og fá þá til að koma sér saman um lausn. En það kann að reynast torsótt úr því að honum hefur tekist að gleðja svo mjög vinnukaupendur þessa lands og fá samtök launafólk svo rækilega upp á móti sér í málinu.

Sú leið sem hér hefur verið valin, að leggja fram frv. um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, er ekki endilega rétta leiðin til þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Mér finnst raunar öll viðbrögð og atburðir síðustu daga staðfesta að það er ekki rétta leiðin. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða sem varðar okkur öll afar miklu og það er aldeilis fáránlegt að ætla að neyta lagalegs aflsmunar í þessu máli. Það var starf í gangi, merkileg og að mínu mati vænleg tilraun til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um lausn. Það er ekki nægileg ástæða fyrir framlagningu þessa frv. að félmrh. væri orðinn þreyttur á að bíða eins og hann orðaði það í umræðum í gær. Maður getur orðið þreyttur, sagði hæstv. félmrh.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki valið rétta leið til þess að takast á við þreytu sína og þvinga fram lausn. Rétta leiðin er að gefa aðilum vinnumarkaðarins tíma og svigrúm til þess að ná saman um friðsamlega lausn. Það er ekki endilega nauðsynlegt að breyta lögunum. Skynsamlegast væri að draga þetta frv. til baka, hvetja og styrkja samtök launafólks og atvinnurekenda til viðræðna og samkomulags án lagasetningar, samkomulags sem nýttist þá við næstu samningagerð því allir eru sammála um að breytinga sé þörf.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um reynsluna af vinnudeilum og samningaferli sem kemur manni stundum fyrir sjónir eins og einhvers konar leikrit með nokkuð fastri hlutverkaskipan og efnistöku. Því miður er reynslan of oft sú að raunverulegar viðræður fara allt of seint af stað, oft löngu eftir að samningar eru lausir. Iðulega gerist ekki nokkur skapaður hlutur langtímum saman, jafnvel vikum saman og allt virðist í óleysanlegum rembihnút. Fjöldi fólks virðist hanga verklaus í karphúsinu dögum og nóttum saman og stundum er mannskapurinn sendur heim eins og til að kæla sig. Svo gerist allt í einu eitthvað sem fáir vita raunverulega hvað er og endirinn er eitthvað sem allir fagna en enginn telst sáttur við. Sjálfsagt verður afar erfitt að breyta þessu en flestir eru sammála um að það sé einmitt brýnasta viðfangsefnið. Að danskri fyrirmynd hafa menn orðið ásáttir um að freista þess að móta ramma um þetta ferli og koma sér saman um reglur sem leiði til þess að samningaferlið hefjist fyrr og vinnubrögð verði markvissari. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á gerð áætlunar um viðræður í upphafi ferlis þar sem aðilar vinnudeilu koma sér saman um skipulag viðræðna og tímasetningar fyrir einstaka efnisþætti, svo og jafnvel um lok viðræðnanna. Þetta er eitt af nýmælunum í frv. og um þetta hefði átt að geta orðið sátt þótt margir telji óþarft að lögfesta það, heldur ætti að nægja samkomulag á milli aðila á vinnumarkaði. Þannig mun þetta vera í Danmörku. Viðræðuáætlun er ekki lögbundinn heldur hefðbundinn þáttur í samningsgerð sem hefur þróast á löngum tíma.

Því miður virðast frumvarpshöfundar engan veginn treysta aðilum vinnumarkaðarins og tekst því miður að klúðra þessu atriði með því að fela sáttasemjara alræðisvald til mótunar viðræðuáætlunar ef deiluaðilar koma sér ekki saman um málið á hálfum mánuði. Þetta gengur auðvitað ekki og verður að hafa annan framgangsmáta með áherslu á samráð og gagnkvæmt tillit og ábyrgð allra aðila.

Það eykur ekki tiltrú á frv. og málið í heild sinni að þannig hafi tiltekist með það atriði sem allir voru í raun sammála um að leggja bæri áherslu á til þess að koma viðræðunum í fastara og árangursríkara form. Hér er um nýjung að ræða en auðvitað enga töfralausn og allra síst ef henni er beitt á þann veg sem frumvarpsgreinin sýnist leiða til.

Ýmislegt fleira í þessu frv. horfir til breytinga en ekki endilega til bóta og sumu er reyndar afar erfitt að átta sig á nema fyrir innvígða. Í aðalatriðum virðist þó vera reynt að draga tennurnar úr launafólki fyrst og fremst og færa aukin völd til sáttasemjara, t.d. í sambandi við miðlunartillögur. Þar er t.d. kveðið á um heimild til sáttasemjara að láta sameiginlega miðlunartillögu ná til allra hópa sem eru með lausa samninga, sumra eða allra og þá án tillits til þess hvort viðkomandi hópar eiga í vinnudeilu eða ekki. Þetta er hið undarlegasta mál og eins og fram hefur komið áður í umræðunum munu Danir hafa fengið á sig kærur frá Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna sambærilegs atriðis enda er um að ræða afskipti og ráðríki, inngrip sem manni virðist gersamlega fráleitt. Þetta er enn eitt atriðið um tilraun til þess að auka vald sáttasemjara á kostnað samningsréttar launafólks.

Það verður líka að teljast afar einkennilegt að í frv. er gert ráð fyrir sex mismunandi tegundum atkvæðagreiðslna og er hreint ekki auðvelt að skilja tilganginn með slíku nema hann sé kannski fyrst og fremst til þess að flækja málið og gera það óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að í 5. gr. laganna komi ákvæði þess efnis að kjarasamningur gildi frá undirskriftardegi nema hann sé felldur innan fjögurra vikna með meiri hluta greiddra atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu þar sem minnst fimmtungur félagsmanna greiði atkvæði gegn samningnum. Reglan um fjögurra vikna frestinn er þó ekki fortakaslaus samanber orðalagið ,,sé ekki á annan veg samið``. En þetta er fyrsta tegund atkvæðagreiðslu sem gert er ráð fyrir í frv.

Í sömu grein er einnig gert ráð fyrir að unnt verði að viðhafa almenna leynilega póstkosningu og þá á höfnun fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna ekki við heldur aðeins einfaldur meiri hluti. Hér er sem sagt annað afbrigði af atkvæðagreiðslu í þessu frv. Ef fram fer póstkosning nægir einfaldur meiri hluti.

Enn er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því að í 5. gr. laganna verði lögfest heimild til þess að hluti félagsmanna sem samningurinn tekur til séu einir atkvæðisbærir um hann að því tilskildu að það komi skýrt fram í samningnum hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu. Slíkur samningur teldist þá aðeins felldur að meiri hluti þátttakenda og minnst einn þriðji hluti atkvæðisbærra manna greiði atkvæði gegn samningnum. Hér er þá komið þriðja afbrigðið um atkvæðagreiðslu ef þetta frv. verður að lögum. Þetta þýðir í rauninni það að því nær sem málin eru félagsmönnum og því minni hópa sem um er að ræða, þeim mun meiri kröfur eru gerðar til atkvæðagreiðslunnar.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um breytingu á 15. gr. laganna, þ.e. um það hvernig staðið skuli að ákvörðun um vinnustöðvun. Þar kemur fram fjórða útgáfan af því hvernig menn eigi að greiða atkvæði því að þar er kveðið á um þátttöku fimmtungs félagsmanna í leynilegri atkvæðagreiðslu og meiri hlutinn ræður þar að sjálfsögðu. Ég legg engan dóm á réttmæti þessa ákvæðis, bendi aðeins á að hér er komin fjórða tegund atkvæðagreiðslu sem kveðið er á um í þessu frv.

Fimmta afbrigðið er svo ef fyrirhuguð vinnustöðvun tekur aðeins til hluta félagsmanna þá er heimilt að þeir einir ráði för sem er náttúrlega eðlilegt en þá er sett það skilyrði að a.m.k. helmingur atkvæðisbærra manna sem vinnustöðvunin taki til taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Aftur er ég ekki að dæma um réttmæti þessara þröskulda en bendi aðeins á að hér er komin fimmta tegund atkvæðagreiðslu í frv.

[17:45]

Loks er svo sjötta tegund atkvæðagreiðslu sem fram kemur í l-lið 6. gr. frv. þar sem kveðið er á um atkvæðagreiðslu miðlunartillögu. Ákvæðið felur það í sér að miðlunartillaga telst felld ef meiri hluti greiddra atkvæða er mótatkvæði en jafnframt að þessi mótatkvæði séu minnst þriðjungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku til stuðnings tillögunni.

Herra forseti. Hér hlýt ég, með góðfúslegu leyfi hæstv. forseta, að vitna til viðtals við Magnús L. Sveinsson, formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem birt er í dreifiriti Alþýðusambands Íslands sem fjallar einmitt um þetta atriði. Það hljóðar svo:

,,Ráðherra hefur sagt að með þessu frv. eigi að auka vald hins almenna félaga í stéttarfélagi. Þessu er þveröfugt farið að mínu mati. Vald stjórna og samninganefnda er stóraukið. Ég nefni sem dæmi að samningur, gerður af samninganefnd sem í sitja kannski þrír einstaklingar, gæti öðlast gildi þótt ekki einn einasti félagi utan samninganefndarinnar greiddi honum atkvæði sitt ef mótatkvæðin ná því ekki að vera nógu mörg, segir Magnús og bætir við dæmi frá VR:

Þótt 4.000 félagsmenn í VR greiddu atkvæði á móti miðlunartillögu frá sáttasemjara og ekki einn einasti greiddi henni atkvæði sitt þá mundi hún samt sem áður skoðast samþykkt því mótatkvæðin ná því ekki að vera 1/3 félagsmanna. Þeir sem ekki taka afstöðu og taka ekki þátt ráða þannig meiru en þeir sem taka virkan þátt og það finnst mér skrýtið lýðræði.

Þegar kemur að ákvæðum um vinnustaðarfélög bendir Magnús sérstaklega á að þar sé verið að mismuna stéttarfélögum eftir stærð því að í frv. sé gert ráð fyrir minni kosningaþátttöku í minni félögunum en þeim stærri: 250 manna félag stofnað á vinnustað má viðhafa póstkosningu um afgreiðslu kjarasamninga og þá gilda engar reglur um lágmarksþátttöku. En ef VR semur fyrir 250 manna hóp sinna félaga á vinnustað þá er skilyrt að þátttaka sé yfir 50%. Þetta er mismunun og hvati að því að hér verði til fleiri og smærri stéttarfélög sem gengur þvert á þróun undanfarinna ára þar sem félög hafa verið að sameinast til að auka hagræðingu og bæta þjónustuna.

Svo spyr maður sig: Hví eiga önnur lögmál að gilda um afgreiðslu mála hjá stéttarfélögum en almennt í þjóðfélaginu? Ef upp kemur eitthvað það stórmál í landinu sem ákveðið er að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu þá gildir þar einfaldur meiri hluti. Hvers vegna ekki hjá félögum í stéttarfélögum? Þótt auðvitað séu í þessu hlutir sem kannski gætu verið til bóta þá eru öll þessi atriði til þess fallin að gera hreyfingunni erfiðara fyrir við að vinna að bættum kjörum.``

Herra forseti. Hér hef ég aðeins drepið á nokkur atriði í þessu frv. og játa það hreinskilninslega að mig vantar töluvert á að hafa gert mér grein fyrir öllum þáttum þess. Það er margt sem krefst nánari athugunar og íhugunar en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um einstök efnisatriði. Aðalatriði þessa máls er hvernig staðið er að verki í sambandi við þetta frv. eins og ég rakti fyrr í máli mínu. Það eru mikil mistök. Sú leið að leggja fram frv. um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki rétta leiðin að því markmiði að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Það er mergurinn málsins eins og landsþekktur heimspekingur segir vikulega.

Ég er sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sem ræddi málið í gær, bæði í útvarpsviðtali og á hv. Alþingi og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta, og ég vitna í andsvar hv. þm.:

,,Það er mín ósk og ég trúi því að það hefði náðst samkomulag með vinnuveitendum og verkalýðshreyfingunni, að þeir hefðu getað komið sér saman um leikreglur. Ef þeir gera það ekki, þá þýðir ekkert fyrir okkur, hið háa Alþingi, að setja einhverjar leikreglur sem ekki verður farið eftir og binda það í lögum. Það eru auðvitað aðilar vinnumarkaðarins númer eitt, tvö og þrjú sem eiga að koma sér saman um hvernig eigi að starfa, hvernig leikreglurnar eigi að vera.``

Ég tek undir þessi orð, herra forseti, og vil ítreka það sem ég sagði fyrr í máli mínu að þetta frv. má ekki keyra í gegn með ofurvaldi meiri hluta Alþingis. Það eru allir sammála um að það er æskilegt og nauðsynlegt að endurskoða og bæta samskiptareglur á vinnumarkaði og til þess er mikill vilji allra aðila. Það var öllum ljóst nema e.t.v. hæstv. félmrh. að það er ekkert áhlaupaverk. Minni og einfaldari verk geta tekið miklu meiri tíma en þetta verk hefur fengið en það er aldeilis óskiljanlegt að hæstv. félmrh. skyldi með framkomu sinni splundra þeim viðræðum og þeirri vinnu sem var sannanlega í gangi. Hér hefði að sjálfsögðu hæstv. forsrh. átt að taka þeirri áskorun sem hann fékk áðan um að taka til sinna gamalkunnu ráða og segja við hæstv. félmrh. sem er vonandi einhvers staðar nálægt, að svona gera menn ekki.

Ég skora á hæstv. félmrh. að taka þetta frv. til baka og treysta aðilum vinnumarkarins til þess að ná samstöðu um þetta mál án lagasetningar. Það er eina vænlega leiðin til að fá farsæla lausn og niðurstöðu í málinu.