Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:53:20 (4420)

1996-03-22 17:53:20# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:53]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir talaði um kæti og fögnuð sjálfstæðismanna út af þessu máli og fann helst að því hvað við værum margir. Vinnulöggjöfina þarf að endurskoða, allir eða flestir eru sammála um það. Það eru breyttir tímar en hér er um að ræða frv. sem ekki er fullkomið og ekki er fullbúið eins og oft hefur komið fram í máli þeirra hæstv. ráðherra, félmrh. og forsrh. Frv. er komið fram í þinginu og þar með hefur þingið forræði á málinu. Nú þarf að gefa sér tóm til að fullvinna það þannig að það geti orðið að lögum sem almenn sátt verði um. Lýðræði getur verið seinlegt. Við þekkjum það hér, þessa dagana og marga daga, en lögmál þess þarf að sjálfsögðu að virða og þau eru virt.

Verkalýðshreyfingin hefur átt sinn góða þátt í svonefndri þjóðarsátt á undanförnum árum og ég legg upp úr því að við hlustum vel eftir röddum úr röðum hennar og athugasemdum. Ekkert hefur hins vegar getað rétt hlut þeirra sem hafa lægst laun í þjóðfélaginu sem eru allt of lág. Það vitum við öll. Væntanleg lög um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þurfa að auðvelda það að hagur þeirra sem minnst bera úr býtum batni. Þess þarf auðvitað að gæta að annar aðilinn hagnist ekki umfram hinn á miðlunartillögum sáttasemjara og það að lokum að ekki má neyta aflsmunar og knýja fram úrslit í háværri andstöðu við annan aðilann.