Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:55:19 (4421)

1996-03-22 17:55:19# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:55]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Hjálmar Jónsson skyldi koma upp og láta aðeins til sín taka. Ég hefði heldur kosið að hann nýtti ekki þann nauma tíma sem gefst til andsvara til þess að láta í ljósi afstöðu sína til þessa máls. Það hefði verið betra að fá frá honum fyllri ræðu, kannski er hann búinn að setja sig á mælendaskrá þannig að það kæmi betur í ljós hvað honum finnst um meginatriði þessa frv. Ég skildi hann svo að hann teldi að það þyrfti ýmissa breytinga við og það er ágætt ef hann telur það en það væri miklu betra að heyra afstöðu hans til þeirra krafna sem hafa komið fram aftur og aftur frá stjórnarandstöðunni um það að þetta frv. verði dregið til baka svo að aðilum vinnumarkaðarins gefist tími og tækifæri til þess að ná samkomulagi um lausn þessa máls.