Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 20:53:27 (4430)

1996-03-22 20:53:27# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[20:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það var margt mjög vel sagt í síðustu ræðu og ég get verið svo hjartanlega sammála hv. þm. að það er öllum til tjóns og skaða ef verkalýðshreyfingin veikist. Ein mikilvæg forsenda fyrir stöðugleika og skynsamlegum ákvörðunum á vinnumarkaði er sterk og vel skipulögð verkalýðshreyfing sem getur valdað þær ákvarðanir sem hún tekur, stundum erfiðar eins og kunnugt er. Þetta þekkir hv. þm. mætavel. Það var einmitt á þeim grundvelli sem ég varaði alveg sérstaklega við þessu máli vegna þess að það stofnar stöðugleikanum í hættu. Hann er auðvitað kominn út í hafsauga núna eins og andrúmsloftið er í þjóðfélaginu í dag. Það eru því tæpast til meiri öfugmæli en þau að þetta frv. og vinnubrögðin sem á bak við það standa séu eitthvert framlag til stöðugleika í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi er ég sammála hv. þm. að það var meira en ákaflega óheppilegt að ekki skyldi takast að semja um þessi mál vegna þess að það er eina leiðin til þess að leysa þau og ganga skynsamlega frá þeim. Þegar tveir eða fleiri eigast við verða þeir fyrst að ganga frá leikreglunum og svo hefja leikinn. Það þýðir ekkert að byrja fótboltaleik ef það á eftir að semja um það, hverjar eru leikreglurnar né yfirleitt nokkurn annan leik hvort sem hann er í gamni eða alvöru.

Herra forseti. Í reynd vantaði ekkert nema botninn í ræðu hv. þm. Ég er alveg handviss um að hv. þm. með reynslu sinni veit að þetta gengur ekki svona. Það verður að kalla þessi frumvörp til baka og byrja á nýjan leik með hreint borð. Þetta gerist ekki öðruvísi. Það liggur alveg fyrir að verkalýðshreyfingin mun ekki koma til viðræðna og samninga um þessa hluti á nýjan leik fyrr en þessi frumvörp hafa verið kölluð til baka og henni hefur þannig verið rétt sáttarhönd. Ég spyr hv. þm. ef þetta reynist vera staðreynd, sem ég held að liggi reyndar algerlega á borðinu, er þá hv. þm. tilbúinn til þess í krafti orða sinna og sannfæringar að beita sér fyrir því að þetta verði gert?