Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 21:09:08 (4437)

1996-03-22 21:09:08# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[21:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er mín síðari ræða í þessari löngu og miklu umræðu sem hér hefur átt sér stað og það er ekki að ástæðulausu því að hér hefur ýmislegt það fram komið í umræðunni sem rétt er að taka betur fyrir.

Við höfum orðið vitni að því í dag að Alþýðusamband Íslands kallaði saman formenn allra aðildarfélaga sinna og niðurstaða þess fundar varð að sjálfsögðu hörð mótmæli gegn frv. sem hér er til umræðu. Það er alveg ljóst að það er mikið fram undan ef ríkisstjórnin hefur ekki vit á því að draga frv. til baka. Hæstv. félmrh., enn er tími til stefnu. Það er vissulega tími til stefnu að ræða þetta mál ítarlega við Alþýðusambandið, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og bankamanna og annarra þeirra sem þetta mál viðkemur því að þetta kemur öllum íslenska vinnumarkaðnum við. Við erum að tala um breytingar á löggjöf sem gildir um allan íslenska vinnumarkaðinn, sama hvert við lítum. Ég vil minna á það enn og aftur að það er ekki viðunandi þegar ráðherrar skipa nefndir, að það skuli aðeins hluti stéttarfélaganna fá aðild að þeim, það skuli ekki öllum hleypt að því starfi sem er svo mikilvægt fyrir stéttarfélögin öll. En það er auðvitað ekki verið að útiloka neina vinnuveitendur, það er nú ekki aldeilis.

Enn þá er tími til stefnu og mér segir svo hugur að það eigi býsna margt eftir að gerast í þessu máli. Ég trúi því ekki á hæstv. félmrh. að hann ætli að knýja málið óbreytt í gegn enda hefur verið bent í dag í umræðunni á býsna alvarlegar brotalamir á frv., eins og reyndar í gær líka. Það var dregið upp fyrr í dag bréf sem þáv. hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir ritaði, bréf sem var innlegg í dómsmál og tengist þeirri stóru spurningu sem hefur verið velt upp í allri þessari umræðu hvernig frv. og breytingar sem verið er að gera á lögunum standast alþjóðlega samninga sem við erum aðilar að. Og það er nú svo, eins og ég reyndar kom inn á í ræðu minni í gær, að í Evrópu, hvað sem við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segjum nú um Evrópusambandið, gilda býsna strangar reglur um samskipti á vinnumarkaði hvað varðar réttindi starfsfólks og allt umhverfi. Það er svo merkilegt, hæstv. félmrh., að í greinargerð þessa frv. er einmmitt vikið að ýmsum tilskipunum Evrópusambandsins. Það er því ástæða til þess að spyrja hæstv. félmrh. hvað lögfestingu þeirra tilskipana sem ótvírætt boða réttarbót á íslenskum vinnumarkaði líður. Og það er líka ástæða til að spyrja um hvað líður því að staðfesta þær fjölmörgu samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem við Íslendingar höfum ekki staðfest og verka líka í þá átt að skilgreina samskiptareglur á vinnumarkaði og bæta réttindi vinnandi fólks. Við höfum ekki staðfest þessar samþykktir og ég vil halda því blákalt fram eins og ég gerði reyndar í gær, að VSÍ hafi þar staðið mjög þvert fyrir. Ég get einfaldlega vitnað til þeirra mála sem nú liggja fyrir félmn. Í greinargerðum mála sem þar eru um staðfestingar á nokkrum þessara samþykktum, kemur fram í umsögnum að VSÍ leggst alltaf þvert gegn þessu. Þarna er á ferð hugarfar sem er að mínum dómi löngu úrelt. En ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu aftur.

Meginástæðan fyrir því að ég kem aftur upp í pontu er ekki síst sú umræða sem varð hér fyrr í dag og snertir vinnustaðarfélög sem að mínum dómi eru ein af hinum stóru spurningum þessa frv. Ég veit það vel að hér á Alþingi eru margir spenntir fyrir því að breyta algerlega því fyrirkomulagi sem ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Eftir því sem ég best fæ séð þýðir það að taka upp vinnustaðarfélög alveg gjörbreytt skipulag. Menn verða að breyta félagssvæðunum. Menn verða að breyta reglunum vegna þess að það er gengið út frá því að hvert vinnustaðarfélag fari með samningsrétt fyrir alla sem þar starfa. Reyndar er hugsunin sem kemur fram í því sem ég hef verið að lesa um vinnustaðarfélög, að menn geti jafnframt verið félagar í eins konar fagfélagi. Við skulum segja að þeir sem vinna hjá Flugleiðum eða álfélaginu mynda eitt félag en síðan geta þeir líka verið félagar í sínu fagfélagi. En þrátt fyrir það fara vinnustaðarfélögin með samningsréttinn.

[21:15]

Eins og kom fram í gær --- maður er því miður alltaf að endurtaka sig í þessari umræðu -- þá eru á því fyrirkomulagi eins öllum öðrum, bæði kostir og gallar. Annars vegar getur myndast mikil og sterk samstaða þar sem vinnustaðurinn sem heild gerir kjarasamninga en það getur líka skapast innri togstreita á slíkum vinnustöðum en við hljótum líka að spyrja hvað verður um heildarhagsmuni. Hvað verður um faglega hagsmuni? Hvað verður um sérkröfur? Allt þetta eru ákaflega mikilvægar spurningar.

Nú er hv. þm. Ágúst Einarsson ekki í salnum og mætti hæstv. forseti gjarnan gera honum viðvart því að hann var svo almennilegur að gefa mér ljósrit af frv. Vilmundar Gylfasonar og Árna Gunnarssonar sem þeir fluttu fyrir allmörgum árum. Það kemur reyndar ekki fram hvenær það var sem þeir fluttu þetta frv. um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem þeir gera ráð fyrir því að tekið verði upp þetta vinnustaðafyrirkomulag. En mergurinn málsins er einmitt sá sem ég hef nefnt í þessari umræðu að þeir gera ráð fyrir kerfisbreytingu. Þeir gera ráð fyrir þeirri kerfisbreytingu að í stað þeirra fagfélaga sem einkenna íslenskan vinnumarkað verði tekið upp vinnustaðafyrirkomulag og þetta er ákveðin kerfisbreyting. Það sem mér þykir hvað merkilegast við að lesa greinargerð þeirra er einmitt þessi stóra spurning sem ég var að velta upp í gær: Hver er réttur löggjafans til að taka valdið af verkalýðshreyfingunni og setja starfsháttum hennar og skipulagi skorður? Það er sú meginspurning sem þeir koma að í greinargerðinni hvað eftir annað og komast reyndar að þeirri furðulegu niðurstöðu að það sé hefð á Íslandi að löggjafinn setji reglurnar. Þar vísa þeir til laganna frá 1938 þegar verið var að taka á ástandi sem var gífurlega erfitt. Þá ríkti kreppa á Íslandi. Þá var landið í djúpri efnahagslægð og gífurleg átök á vinnumarkaði og Vinnuveitendasambandið knúði á um lagasetningu hvað varðar vinnumarkaðinn. Stjórnvöld á þeim tíma ákváðu að beita sér fyrir því að það yrðu settar reglur. Enda þótt bæði verkalýðshreyfingin og Kommúnistaflokkurinn á þeim tíma, sem var þá um það bil að breytast í Sósíalistaflokkinn, hafi beitt sér nokkuð hart gegn þessum breytingum var auðvitað um ákveðna réttarbót fyrir verkalýðshreyfinguna að ræða.

Menn vísa líka til laganna sem voru sett um sáttastörf í vinnudeilum en ég get ekki viðurkennt það að þó að menn hafi gripið til lagasetningar á sínum tíma og skapað þarna ramma sé hægt að segja að það sé orðin einhver hefð hér á landi og hvað þá viðurkenna að það sé hefð að löggjafinn taki af skarið og setji vinnumarkaðnum reglur. Þetta sjónarmið get ég ekki fallist á og ég vísa þar til þeirra alþjóðasamþykkta sem við höfum skrifað undir hvað varðar félagafrelsi og ég vísa þar líka til stjórnarskrár íslenska lýðveldisins sem tryggir það að menn geti stofnað hvaða félög sem er í löglegum tilgangi, félög sem starfa í löglegum tilgangi. Þar af leiðandi er ég þeirrar skoðunar að kerfisbreyting af því tagi sem þetta frv. gerir ráð fyrir sé einfaldlega ekki í verkahring ríkisvaldsins. Það er ekkert sem bannar það í núgildandi lögum að fólk fari þá leið að stofna slík félög á vinnustöðum sínum.

Hins vegar er líka ljóst og kemur mjög vel fram í fróðlegri greinargerð með frv. að verkalýðshreyfingin var að ræða það á tímabilinu 1958--1960 að breyta skipulagsformi sínu og taka upp vinnustaðafyrirkomulagið. Ég undirstrika að þeir hafa talað um að taka upp vinnustaðafyrirkomulag sem fól í sér að þá yrði öllu kerfinu breytt. Vinnumarkaðnum yrði skipt upp í vinnustaðarfélög. Það er svo allt, allt annað en það sem verið er að boða í þessu frv. sem í rauninni heimilar að fólk stofni slík félög. Þá kemur spurningin: Er einhver hvatning til þess að stofna slík félög? Er einhver ávinningur í því? Eins og ég hef minnst á áður get ég ekki séð að gangi upp að hafa tvöfalt kerfi með vinnustaðarfélög annars vegar og fagfélög hins vegar. Ég fæ ekki séð að það gangi upp við núverandi aðstæður og við núverandi skipulag en vilji verkalýðshreyfingin breyta því er það auðvitað hennar mál, það er hún sem á að stjórna því. Að mínum dómi er það ekki löggjafinn sem á að segja verkalýðsfélögunum, ungmennafélagshreyfingunni, íþróttahreyfingunni eða hvaða hreyfingu sem er fyrir verkum um skipulag sitt.

Ein spurning varðandi vinnustaðarfélögin. Nú hefur hæstv. félmrh. brugðið sér frá og tími minn styttist óðum. Ég hefði viljað beina til hans þeirri spurningu ef hann heyrir til mín hvort hann hafi hugleitt hvað gerist með starfsmenn þeirra fyrirtækja þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn. Gefum okkur að þeir stofni vinnustaðarfélag. Hvað gerist svo ef starfsmönnunum fækkar vegna þrenginga eða samdráttar niður fyrir 150 starfsmenn? Hvað verður um réttindi þeirra? Í hvaða lífeyrissjóði eru þeir? Hvar er orlofsréttur þeirra? Hvar er veikindaréttur þeirra? (Gripið fram í: Má félagið áfram vera til?) Já, það er spurningin, má félagið vera áfram til? Hvernig stenst þetta?

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara aftur í gegnum þær spurningar sem hér hefur verið velt upp varðandi það hvernig frv. stenst alþjóðasáttmála en mig langar rétt í lokin að draga saman þá helstu gagnrýni sem ég hef á frv. en það lýtur í fyrsta lagi að þessu vinnustaðarfélagafyrirkomulagi. Ég vil taka skýrt fram að í grundvallaratriðum er ég alls ekki andvíg því að taka upp slíkt fyrirkomulag. Það er langt í frá og ég get vissulega séð kosti þess en eins og ég segi enn og aftur, það er verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að taka ákvörðun um skipulagsbreytingu eins og hún ræddi á sínum tíma en því miður hefur sú umræða algerlega dottið niður og kannski verður það hið jákvæða við þetta frv. að verkalýðshreyfingin fari aftur að huga að skipulagi sínu. Vonandi gerist það.

Í öðru lagi gagnrýni ég þá samflotshugsun sem einkennir þetta frv. og þar sem í rauninni er verið að vísa til ýmiss konar sameiginlegra heildarsamninga sem koma m.a. fram í því sem lýtur að auknu valdi sáttasemjara sem getur knúið fram atkvæðagreiðslu margra félaga sem eru með lausa samninga bara vegna þess að eitt félag hefur náð samningum. Þetta finnst mér stórkostlega gagnrýnivert og þýðir að það er einfaldlega verið að taka samningsréttinn af félögum. Ég gagnrýni líka það form á atkvæðagreiðslum sem verið er að taka upp og er í einum sex tilbrigðum. Þetta mun gera verkfallsboðun miklu erfiðari og kemur mér þá í hug það sem hæstv. forsrh. sagði í dag að ekki væri verið að raska jafnvægi á vinnumarkaðnum. Með þessum aðgerðum er í rauninni verið að raska því stórkostlega hvernig verkalýðshreyfingin fær vörnum við komið. Það er verið að setja miklar hömlur á það hvernig verkalýðsfélög geta gripið til aðgerða, hvort sem það eru einhverjar skyndiaðgerðir eða meiri háttar aðgerðir.

Síðan er sú spurning, sem ég velti upp áðan, sem varðar rétt löggjafans til að grípa inn í með þeim hætti sem hér er gert og hefur vakið upp gríðarleg mótmæli verkalýðshreyfingarinnar og ég dreg þann rétt stórlega í efa. Hér erum við einfaldlega að ræða um mál sem sátt þarf að ríkja um. Það verður að ríkja sátt um það hvernig leikreglur á vinnumarkaði skuli vera og við höfum séð að launastefna og margt það sem snýr að vinnumarkaðnum hefur verið ágreiningsefni, Alþýðusambandið annars vegar og opinberir starfsmenn hins vegar og innan raða opinberra starfsmanna hefur líka verið ágreiningur.

Síðan eru þau vinnubrögð ámælisverð sem hafa komið fram í þessu máli og ekki til þess fallin að skapa sátt um þetta mál.

Rétt áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á breytingum sem mér var bent á sem varðar þá borgaralegu skyldu að taka sér aðstoðarsáttasemjarastarf. Í þeim plöggum sem ég hef undir höndum er vakin athygli á því að í gildandi lögum eru ráðherrar og dómarar undanþegnir því að undirgangast þessa skyldu en hér er ekkert slíkt tekið fram. Ekki veit ég hvort þetta er einhver handvömm eða hvað og þetta munum við að sjálfsögðu athuga í nefndinni. En lokaniðurstaða mín er sú, hæstv. forseti, að hér er um inngrip í félagsleg réttindi að ræða sem verður alls ekki við unað og ekkert það sem hefur komið fram í umræðunni breytir þeirri skoðun minni að ríkisstjórnin á að draga þetta frv. til baka. Hún á að vísa málinu aftur til aðila vinnumarkaðarins og fara þess á leit að þeir finni lausnina að þessu máli og allir eiga að fá að koma að. Það er aðila vinnumarkaðarins að skapa þær reglur sem þeir vilja hafa og síðan er löggjafans að staðfesta þær ef þörf er á.