Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:02:31 (4440)

1996-03-22 22:02:31# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vík þá fyrst að starfsfólki í stjórnum fyrirtækja. Ég þekki mörg fyrirtæki þar sem starfsmennirnir eiga fulltrúa í stjórnum og það sem mér stendur næst er Kaupfélag Húnvetninga. Þar hefur starfsfólkið lengi átt fulltrúa í stjórn og er reynslan af því góð. Ég veit ekki hvort þetta er löggjafaratriði og þori ekki að fullyrða neitt um slíkt. Ég er líka feiminn við að blanda mér í innri mál fyrirtækja.

Varðandi lögmæti frv., eins og hv. þm. orðaði það, reikna ég með að hann eigi við bréfið sem fyrrv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir sendi fyrir hönd fyrrv. ríkisstjórnar. Ég sé ekki að það geti skekkt þetta. Ég er alveg sömu skoðunar og hæstv. forsrh., það er ekki verið að raska jafnvægi, það er ekki verið að styrkja VSÍ og veikja ASÍ. Það er verið að leggja hliðstæðar skyldur eða samræma réttindi öllu heldur á báða bóga.

Varðandi það að málið sé ekki fullþroskað, er ekkert lagafrv. fullþroskað fyrr en það hefur gengið í gegnum þrjár umræður á Alþingi. Ég tel að það sé í réttum farvegi og líklegt að það verði unnið af dugnaði og samviskusemi að því að senda það til hv. félmn. til frekari vinnslu.