Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:13:59 (4447)

1996-03-22 22:13:59# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:13]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagðist ekki sjá brotið á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í þessu frv. og nefndi þar einkum samþykkt nr. 87. Ég vil benda á atriði sem hafa reyndar margoft komið fram í umræðunum og hafa ekki verið hrakin enn. Í raun og veru snýst málið um það hver innri málefni stéttarfélaga eru. Samþykkt nr. 87 leggur bann við opinberri íhlutun í innri málefni stéttarfélaga. Þar vil ég nefna sérstaklega tvennt. Í fyrsta lagi atkvæðagreiðslurnar sem hafa hingað til talist vera innri málefni stéttarfélaga og í öðru lagi félagssvæðin. Og þá erum við komin að vinnustaðarfélögunum.

Það má vel vera að þetta sé allt saman gott og gilt ef að þessari niðurstöðu er komist í samningum. Þar liggur grundvallarmunurinn, hæstv. ráðherra. Ég hélt að það hefði reyndar komið nægilega oft fram í dag og í gær.

Enn og aftur vil ég nefna tengingarregluna. Hæstv. ráðherra sagði áðan að hann hefði með sér okkar færasta sérfræðing í málefnum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Vissulega er það rétt að Gylfi Kristinsson þekkir vel til málefna þeirrar stofnunar, en hvernig stendur á því að sá ágæti maður hefur ekki bent hæstv. ráðherra á það að Danir hafa verið undir smásjá stofnunarinnar vegna tengingarreglunnar? Þetta var bent á í nefndinni á sínum tíma.

[22:15]

Í lokin varðandi fjöldauppsagnirnir erum við líka skuldbundin samningi sem heitir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Þar eru tilteknar reglur sem hafa verið settar um hópuppsagnir og hvernig með þær skuli fara. Það er engin tilviljun að þar er ekki sagt að það skuli fara með þær eins og um vinnustöðvanir eins og er sagt í þessu frv. Það er vegna þess að þetta eru tvö gerólík úrræði, annars vegar uppsögn og hins vegar vinnustöðvun. Ég trúi því ekki að nokkur lögfræðingur, sem þekkir eitthvað örlítið til í vinnurétti, hafi ráðlagt hæstv. ráðherra að setja slíkt ákvæði inn í frv.