Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:41:25 (4455)

1996-03-22 22:41:25# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að væna menn um óheiðarleika. Ég er að tala um að menn fylgi tiltekinni stefnu og ég vitna í samþykktir þar að lútandi. Ég vitna í samþykktir þar sem sagt er að það sé eðlilegt og kunni að vera kominn tími til að takmarka réttindi stéttarfélaga við gerð kjarasamninga.

Við höfum einnig við þessa umræðu vakið máls á því að helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar, sem hafa verið fluttir erlendis frá, alla leið frá Nýja-Sjálandi, hafa ráðlagt í þessa veru einnig um að launakerfið verði brotð upp og það verði komið á einstaklingsbundnum samningum þannig að menn eru ekkert að tala út í loftið. Menn eru að tala um pólitíska stefnu sem verið er að reyna að þröngva ofan í þessa þjóð. Ég er að færa rök fyrir máli mínu, ég er að vitna í ályktanir, ég er að vitna í lagagreinar sem styðja þetta.