Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:42:55 (4456)

1996-03-22 22:42:55# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég notaði ekki orðið ,,nota`` eins og hv. þm. leiðrétti sig reyndar með. Ef ég man rétt talaði ég um að greiða fyrir kjarasamningum á næsta vetri og þar á ég í fyrsta lagi við viðræðuáætlunina sem ég held að sé mjög mikilvæg til að koma því svo fyrir að menn fari formlega að tala saman í tíma og leggi fram sínar kröfur áður en kjarasamningar eru lausir.

Í öðru lagi að gefa almennum félagsmönnum í verkalýðshreyfingunni, ekki bara þessum sem voru á pöllunum í dag heldur líka þeim sem að baki þeim standa, þessum 66 þúsundum eða þeim sem af þessum 66 þúsundum sem vilja blanda sér í málið, tækifæri til þess að hafa áhrif á meginákvarðanir og jafnframt almennum félagsmönnum í Vinnuveitendasambandinu til þess að hafa áhrif en láta ekki miðstýra sér úr Garðastrætinu.

Í þriðja lagi vil ég leggja auknar skyldur á sáttasemjara. Hann fær ekki auknar heimildir. Hann hefur þessar heimildir um sáttastörf í vinnudeilum sem eru í frv. en það er þrengt að honum með auknum skyldum áður en hann grípur til miðlunartillögu. Ég lít svo á að miðlunartillaga komi ekki til álita fyrr en algerlega er útséð um að samningar takist með öðrum hætti. En miðlunartillaga er þó langtum betri en lagasetning í kjaradeilum.