Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:47:19 (4458)

1996-03-22 22:47:19# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum augum er það ekki takmarkið. Ég vil hins vegar að hinn almenni maður, bæði meðal atvinnurekenda og félagsmanna í stéttarfélögunum, fái tækifæri til þess að taka þátt í meginákvörðun um starfskjör sín eða launagreiðslur.

Mér finnst hv. þm. vera óþarflega tortrygginn, reyndar allt of tortrygginn. Hann sér ljóta karlinn í hverju horni. Auðvitað vonast ég til þess að samningar takist. Ég tel að miðlunartillaga komi þá fyrst til greina þegar vonlaust er um að samningar takist með frjálsum hætti. Það getur gerst að samningar strandi. Við höfum horft upp á það að samningar hafa strandað. Þá þarf að vera til eitthvert úrræði og ég tel að miðlunartillaga sé heppilegri leið en lagasetning.

Það er líka hugsanlegt að miðlunartillaga beri ekki árangur og þá er lagasetningarleiðin eftir, en hún er ákaflega slæm að mínu mati. Ég ætla rétt að vona að ég þurfi ekki að mæla fyrir slíkri leið á meðan ég er í því starfi sem ég gegni núna. En ég mun ekki hlífa mér við að gera það ef ég met stöðuna svo að þetta sé eina úrræðið. Ég vil leita allra leiða fyrst og þess vegna tel ég að viðræður og frjálsir samningar eigi að vera hin ríkjandi aðferð.