Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:50:50 (4460)

1996-03-22 22:50:50# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Umgjörð þessarar umræðu núna á ellefta tímanum er í raun mjög í stíl við það vonda frv. sem við fjöllum um. Hér er ríkisstjórnin að knýja í gegn þessa 1. umr. málsins í skjóli nætur við myrkvuð torg og hér situr hæstv. félmrh. einn og yfirgefinn. Samráðherrar hans hafa öðrum hnöppum að hneppa. Þeir hafa að sönnu haft lítið til þessara mála að leggja á þeim tveimur dögum sem umræðan hefur staðið yfir. Veit ég að sönnu að sumir þeirra eru að gegna opinberum skyldum úti á Bessastöðum og hef ég skilning á því, virðulegi forseti. En það breytir því þó ekki að það er enginn bragur á þessari umræðu og á þessu þinghaldi með þeim hætti að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn aðrir skuli þurfa að sinna skyldustörfum á sama tíma og þing er að störfum og er að fjalla um löggjöf sem gilt hefur í heil 50 ár. Það er auðvitað óásættanlegt. Ég hygg því að þingmenn og forsætisnefnd þurfi í kjölfarið á þessu að ræða það mjög til hlítar hvort við ætlum að venja okkur við vinnubrögð af þessum toga, hvort þetta eigi að vera lenska í þinginu til lengri tíma litið. Þetta eru vond vinnubrögð og ég ætla að vona að þau verði einstök í sinni röð, verði undantekning fremur en regla.

Það gefur auga leið að það er ekki eingöngu umgjörðin sem er slæm. Hæstv. ráðherra er líka farinn að missa fótanna. Hann er farinn að missa þráðinn og undrar svo sem engan. Hann hefur setið undir þessari umræðu á annan sólarhring og er svona að klóra sig í gegnum eigið frv. Hann lærir það hægt og bítandi hvað í því stendur. Nú er frv. orðið í augum hæstv. ráðherra eins og hann orðar það sjálfur lausar hugmyndir, orð á blaði. Eitthvað handfast handa hv. félmn. að sýsla með. (Félmrh.: Þetta er ekki orðið að lögum enn þá.) Nei, og á meðan eru þetta ,,orð á blaði``, ,,lausar hugmyndir``, frv. til laga um vinnulöggjöfina, 50 ára gamla löggjöf sem hefur staðist býsna vel tímans tönn. Hæstv. ráðherra kemur fram fyrir þingheim og þjóð með frv. upp á 55 blaðsíður og lýsir þessu núna sem lausum hugmyndum, orðum á blaði. Ég held að innihaldi þessa frv. verði ekki betur lýst, hæstv. ráðherra, en einmitt með þessum hætti, lausar hugmyndir, orð á blaði.

Þessar lausu hugmyndir og þessi orð á blaði átti auðvitað aldrei að prenta sem þingskjal. Þessar lausu hugmyndir og þessi orð á blaði átti auðvitað fyrst og síðast að fara með að samningaborðiðinu þar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að hittast á umliðnu hálfu öðru ári undir fundarstjórn starfsmanns félmrn. Það átti að þrautreyna hvort einhver samningsgrundvöllur væri á þessum nótum eða öðrum. Í ljósi þess er algerlega nauðsynlegt, virðulegi forseti, að það komi skýrt fram að hæstv. félmrh. hefur haft hrein og klár endaskipti á þeim markmiðum sem að var stefnt með stofnun þeirrar nefndar sem hittist 48 sinnum, en til hennar var stofnað 4. október 1994 í tíð minni sem félmrh. Það var tekið skýrt fram við alla aðila máls að ekki undir nokkrum kringumstæðum yrði beitt lagaboði, valdboði að ofan eða tíndar út úr þessu nefndarstarfi lausar og fastar hugmyndir, orð á blaði frá hinum og þessum og það kafkeyrt inn í formi nýrrar vinnulöggjafar. Til þess var leikurinn aldrei gerður og ég lýsi yfir fullri ábyrgð á hendur hæstv. félmrh. að eyðileggja svona gersamlega þá tilraun sem verið var að gera með því að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Aðilar komu til þess leiks með opnum huga og vilja til að gaumgæfa það og þrautreyna hvort unnt væri með samkomulagi, samningaviðræðum að ná þar bættum árangri, einfalda þessar leikreglur, gera þær skilvirkari en ella. Að sönnu er það alveg hárrétt og enginn hefur um það deilt að vinnulöggjöfina eins og öll mannanna verk á að endurmeta og skoða í ljósi reynslunnar, í ljósi breyttra tíma. Einmitt á þessum vettvangi ber að stíga varlega til jarðar.

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega ekkert annað en munurinn á því þegar Alþfl. gætir skrifstofu ráðherra í félmrn. og hins vegar þegar Framsfl. stígur þar inn fyrir dyr. Svo að ég tali ekki um sjálft íhaldið.

Það er ekkert launungarmál að þessi breyting á vinnulöggjöfinni, sem hægt er að kroppa í til og frá, hefur opinberlega lengi verið á dagskrá hjá íhaldinu. Vafalaust hefur hæstv. ráðherra fengið dyggan og góðan stuðning, þegar hann kom með þetta plagg upp á vasann á ríkisstjórnarfund. Hann hefur væntanlega fengið klapp á bakið hjá fjmrh. og forsrh. Alþfl. hefur aldrei undir nokkrum kringumstæðum í tíð sinni í félmrn. léð máls á því að fara fram með þessum hætti. Það sýnir muninn á því þegar Alþfl. hefur þar húsbóndavald og þegar Framsfl. er þar innan dyra.

Ég nefndi aðdraganda málsins og vil rifja upp að í skipunarbréfi þessarar nefndar frá 4. október 1994, sem ekki hefur verið breytt og var í fullu gildi allt til þess dags að hæstv. félmrh. rak hana heim, stendur, með leyfi forseta:

,,Vinnuhópnum er falið að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðu mála hérlendis. Fyrir hópinn er lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna á athugun sinni. Ef í ljós kemur að breyta þurfi íslenskri löggjöf er hópnum falið að setja fram tillögur um það efni.``

Hinn 22. nóvember skilar vinnuhópurinn áfangaskýrslu sem ber heitið ,,Samskiptareglur á vinnumarkaði`` og hana er að finna sem fylgiskjal með þessu frv. Þar kemur mjög skýrt og afdráttarlaust fram að um áfangaskýrslu er að ræða og í niðurlagsorðum um hina sameiginlegu niðurstöðu segir hópurinn allur að það skuli áréttað að hugmyndir í áfangaskýrslu vinnuhópsins þurfi að ræða frekar áður en þær séu útfærðar nánar, enda þurfi víðtæk umræða að eiga sér stað um þetta efni. ,,Ýmis atriði sem tengjast þessum hugmyndum`` segir þar enn fremur, með leyfi forseta, ,,hafa auk þess ekki enn verð rædd til hlítar og má þar nefna miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.``

[23:00]

Allur hópurinn, þar á meðal væntanlega ágætur fulltrúi ráðuneytisins, Gylfi Kristinsson, er þeirrar skoðunar í nóvember fyrir fjórum mánuðum að þessar hugmyndir séu enn þá á umræðustigi, um áfangaskýrslu sé að ræða, lausar hugmyndir sem þarf að ræða til hlítar í samfélaginu. En hvað gerir blessaður hæstv. ráðherra? Hann hleypur til, prentar þetta upp sem þingskjal og ætlar að keyra það í gegn í Alþingi. Ég vek líka athygli á því að í skipunarbréfinu var sérstaklega kallað eftir því að hópurinn kæmi fram með tillögur. Hópnum gafst aldrei tækifæri til þess að koma fram með neinar tillögur fyrir írafárinu og fljótræðinu í hæstv. ráðherrum. Umboðið var tekið af þessum hópi í raun og sanni um síðustu áramót eða þar um bil vegna þess að hann fékk ekki vinnufrið fyrir hæstv. ráðherra, fékk ekki til þess tækifæri og tök að láta eðlilega umræðu fara fram bæði innan nefndar og úti í þjóðfélaginu um þessa áfangaskýrslu. Hann fékk ekki til þess tækifæri og frið fyrir hæstv. ráðherranum að koma fram með þær tillögur sem var beðið um í skipunarbréfi. Ég spyr ráðherra beint: Hvernig stóð á því að þessum hópi um bættar samskiptareglur á vinnumarkaði var ekki gefinn vinnufriður og tækifæri til að koma fram með tillögur sínar? Þarna er ekki eingöngu um það að ræða, virðulegi forseti, og er rétt að undirstrika það og árétta, að það séu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og launafólks í nefndinni sem hafa þetta viðhorf. Það eru ekki síður viðhorf fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa félmrn., fundarstjórans, sem þarna lýsa sér. Fæðing málsins í ljósi þessarar meðgöngu er því alveg með fádæmum og í raun óskiljanlegt hvernig merkri og ágætri tilraun til þess að skoða þessi mál með víðsýni og hleypidómalaust er fullkomlega forklúðrað. Þetta vonda frv. hæstv. félmrh. Páls Péturssonar gerir það eitt að verkum að við stöndum í stóra stoppi næstu fimm til sjö árin. Hann er búinn að kveikja slíka elda tortryggni milli ríkisvaldsins annars vegar og verkafólks hins vegar, milli atvinnurekenda annars og verkalýðshreyfingarinnar hins vegar að það tekur langan tíma að ná réttum kúrs á nýjan leik.

Hvað var í raun sem gerði það að verkum að svona mikið lá á? Er það eitthvað í andartakinu eða á morgun eða næsta mánuði eða á vordögum sem gerir það að verkum að það þarf að fara fram með þessum hætti og knýja í gegn nýja vinnulöggjöf gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar í landinu, væntanlega gegn vilja 6.600 vinnandi manna? Hvers vegna þurfti að rjúfa þennan frið? Var eitthvað í andartakinu sem gerði það að verkum að það þurfti að fara fram með þessum hætti? Hvað er það sem stýrir eiginlega hæstv. ríkisstjórn og ráðherra í þessum efnum? Hvað hefur eiginlega gerst? Hvar misstu menn fótanna? Þessi blessaða hæstv. ríkisstjórn hefur verið til lítils megnug og lítið haft fram að færa á Alþingi í allan vetur. Svo bregður skyndilega svo við í þessum mánuði að það er eins og menn hafi hreinlega tapað glórunni. Hér hrynja kjaraskerðingarfrumvörpin inn eitt af öðru, lífeyrissjóðamálin, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, vinnulöggjöfin. Svo er boðað að enn einn glaðningurinn eigi eftir að birtast á allra næstu dögum og það er stórskerðing á rétti fólks til atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs. Hvað er eiginlega að gerast, virðulegi forseti? Hafa menn dottið á höfuðið? Er undra þó maður spyrji? Ég hlýt bara að varpa þeirri spurningu beint ráðherrans. Hefur einhver dottið á höfuðið eða hafa þeir allir dottið á höfuðið?

Virðulegi forseti. Kannski þarf þetta ekki að koma svo mjög á óvart þegar menn skoða reynsluna af helmingaskiptastjórnum, reynsluna af hjónabandi íhalds og framsóknar. Sannleikurinn er sá að í pólitík eins og mörgu öðru endurtekur sagan sig gjarnan. Það rifjast upp fyrir mér að í íhaldsstjórninni 1974--1978 datt mönnum þessi della líka í hug. Þá var hæstv. félmrh. Gunnar Thoroddsen að bauka við að búa til nýja vinnulöggjöf. Hann hafði þó vit á því að stinga henni ofan í skúffu þegar hann varð var við að engin sátt var um þær tillögur sem hann var að veifa og kynna. Hann hlustaði, lagði eyrun við jörðina. Betur hefði verið að hæstv. núverandi félmrh. hefði gert slíkt hið sama. Hann á enn þá tök á því. En von mín til þess að hann sjái ljósið minnkar með hverri mínútunni. Mikið skelfing væri samt sem áður gagnlegt fyrir hæstv. ráðherra að hann færi í skúffur ráðuneytisins og rifjaði upp hvernig málin gengu til, árið 1975 held ég hafi verið frekar en 1976, hvernig menn höfðu þá vit þrátt fyrir allt á því að draga þær hugmyndir til baka áður en stærri skaði hlytist af.

En hugmyndin var nákvæmlega sú sama og hér um ræðir. Hugmyndir helmingaskiptastjórnarinnar um það að ráðskast með rétt verkafólks og verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Það var einkenni stjórnanna 1974--1978 og 1983--1987 að þær lentu alltaf í stríði við fólkið í landinu og samtök þess. Og ég þarf heldur ekkert að rifja það upp, virðulegi forseti, að við munum auðvitað öll hverjar afleiðingar þetta hefur haft fyrir viðkomandi stjórnarflokka. Framsfl. hefur hrunið í þeim kosningum sem hafa farið í hönd. Ég þarf væntanlega ekki, virðulegi forseti, að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra hér hvernig útkoman var hjá Framsfl. á vordögum 1978. Ég hugsa að hann muni það allt of vel. Hins vegar skýt ég því að honum ef hann skyldi ekki muna það að hann ætti að fletta því upp og hugsa síðan um það hvað tekur við að þremur árum liðnum eða þar um bil, 1999. Það skyldi þó aldrei verða svo, virðulegi forseti, að vorið 1999 í apríl yrði eitthvað svipað fyrir Framsfl. og vordagarnir 1978. Að minnsta kosti eru ýmis einmitt kennileiti kunnugleg í því sambandi. Að vísu tók sú ríkisstjórn þennan slag við fólkið í landinu síðla á því kjörtímabili. Þessi ríkisstjórn ætlar að byrja strax. Hún telur væntanlega ekki eftir nokkru að bíða og ætlar að vera í slagsmálum þau þrjú ár sem eftir lifa af kjörtímabilinu.

Virðulegi forseti. Væntanlega verður svo með þessa ríkisstjórn eins og aðrar svipaðar sem geta ekki hætt og sitja meðan sætt er. Hún situr líklega út kjörtímabilið en þá fellur líka dómurinn og ég held að hæstv. ráðherra ætti nú þegar að fara að hugleiða þann stóradóm ef svo fer fram sem horfir og ef hann fer ekki að sjá til sólar og sjá ljósið í myrkrinu.

Hæstv. ráðherra hefur sagt sem svo: Hvað eru menn að kvarta yfir því þó aðeins sé kroppað í þessa vinnulöggjöf? Voru þetta ekki kölluð þrælalög á sínum tíma? Þetta er auðvitað algjör misskilningur, hæstv. ráðherra. Vinnulöggjöfin á sínum tíma var mestan part sameinuð af Alþfl. sem þá var Alþýðusamband Íslands. Þar komu tveir merkir framsóknarmenn líka nærri í milliþinganefnd sem samdi að stærstum hluta til þá vinnulöggjöf sem hæstv. félmrh., framsóknarmaðurinn Páll Pétursson, ætlar núna að rústa. Hún var náttúrlega gerbreyting á þeim hugmyndum sem íhaldið var þá með og voru hrein og klár þrælalög. En milliþinganefnd Alþfl., skipuð fulltrúum Alþfl. og Framsfl. meðan hann var, stóð undir því nafni að hugleiða kjör fólksins í landinu. Sú löggjöf var mjög til bóta og hún hefur einnig staðið tímans tönn og reynslu tímans. En það ætla að verða örlög framsóknarmanna núna að eyðileggja fyrri verk sín. Ég er hræddur um að sagan fari ekki fögrum orðum um þá gjörð ef af verður sem ég er nú ekkert viss um og kem nánar að hér á eftir.

Svo við stöldrum aðeins við deiluna 1938 líka þá snerist hún m.a. um hvort yfirleitt væri nokkur þörf á vinnulöggjöf og að sumu leyti er menn að ræða það enn þann dag í dag. Árið 1938 var hins vegar brýn þörf á því þar sem helblátt íhaldið eirði engu á þeim tíma og réttur verkafólks var með þeim hætti að það þurfti skjól og vörn til þess að tryggja þau réttindi. Sem betur fer hefur okkur miðað fram á veg í þeim efnum þannig að hefðin er rík og réttur verkalýðsfélaga og verkafólks, bæði lögvarinn og hefðbundinn, hefur tryggt ákveðin grundvallaratriði í þessum samskiptareglum og er það gott. Auðvitað er ekki þessi brýna þörf á því að kroppa í þetta og setja einhver orð eða lausar hugmyndir á blað og prenta upp sem þingskjal.

Virðulegi forseti. Ég vek sérstaka athygli á því og við skulum ekki gleyma því að ríkisvaldið er ekki síður í hlutverki atvinnurekandans þegar við fjöllum um þessi mál. Ég minni sérstaklega á í því sambandi að einn nefndarmanna í þeirri margfrægu nefnd, sem hæstv. félmrh. eyðilagði, er fulltrúi fjmrn. og er í hópi atvinnurekenda í þessum efnum. Hin hlutlæga staða ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldsins, í þessum efnum er því á vafasömum nótum og miklar efasemdir uppi um það hvort og með hvaða hætti framkvæmdarvaldið getur með viti bornum hætti komið að þessu máli án þess að draga um of taum þeirra atvinnurekendasjónarmiða sem eru uppi enda kemur það náttúrlega fram í þessum 55 blaðsíðum að andi atvinnurekenda; VSÍ, Vinnumálasambandsins og ríkisvaldsins, atvinnurekendanna í hópnum, vomir yfir vötnum og er hinn rauði þráður. Ég þarf auðvitað ekki að fara með þá þulu enn og aftur, virðulegi forseti, það er búið að gera það rækilega í umræðum í dag og kvöld. Vinnuveitendasambandið hefur engar áhyggjur af þessu, telur þetta allt í býsna góðum farvegi og hæstv. situr einn og dregur þennan vagn fyrir íhaldið í landinu, það sama íhald og hann hefur í gegnum tíðina haft stundum uppi stór orð og ekki viljað sjá né heyra en margt breytist á skömmum tíma.

Síðan standa menn í ræðustól á hinu háa Alþingi og hæstv. forsrh. annars vegar og hæstv. félmrh. taka undir þann samkór og telja að hér sé engu jafnvægi verið að raska. Hvers konar veruleikafirring er þetta, virðulegi forseti? Er bara allt í góðu lagi? Er jafnvægi, kyrrð og friður þegar öll verkalýðshreyfingin í heild sinni rekur upp ramakvein og mótmælir þessum aðförum? Er það merki þess að það sé jafnvægi, kyrrð og friður í landinu? Nei, öðru nær. Það er sko langur vegur frá því.

Virðulegi forseti. Ég staldraði aðeins við það áðan að það er eins og eitthvað hafi gerst hjá ríkisstjórninni á þessum síðustu vikum. Hún hefur hlaupið upp til handa og fóta og sennilega fengið högg á höfuðið. Ég hef líka haft af því áhyggjur hvernig þróun mála hefur verið í Framsfl. á umliðnum mánuðum, raunar frá síðustu kosningum. Menn hafa auðvitað farið mjög rækilega yfir það einatt og oft í umræðum hér í þinginu hvernig sá flokkur hefur gjörsamlega haft hamskipti frá því sem var fyrir síðustu kosningar og það sem gerst hefur síðan. Nægilegt að nefna nokkur stikkorð í því sambandi og staldra til að mynda við frammistöðuleysi hæstv. heilbrrh. í þeim efnum sem hefur hér lent í hverjum skandalnum á fætur öðrum og töltir fram og aftur blindgötuna án þess að vita nokkuð í hvaða átt hún er að fara, hefur gjörsamlega haft hamskipti frá því sem var á síðasta kjörtímabili þegar hún hélt uppi mjög öflugri stjórnarandstöðu og bar hag fólksins í landinu mjög fyrir brjósti og aftur núna þegar hún hefur gleymt þessu sama fólki. Það er ástæðulaust að rekja þau tilvik. Ég mundi ekki hafa tíma til þess.

Svo er það hæstv. iðn.- og viðskrh. sem gengur einnig erinda íhaldsins og ætlar að koma bönkunum í hendur kolkrabbans, einn, tveir og þrír, því fyrr því betra og eirir engu í því sambandi. Formaður flokksins er náttúrlega týndur og tröllum gefinn og hefur ekki sést hér í þinginu nema rétt í mýflugumynd annað slagið og hefur ekkert til málanna að leggja, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut til hinnar pólitísku umræðu. Hann varar sig náttúrlega mjög á því að lenda ekki í þeirri aðstöðu að reyna að verja þessa ráðherra sína sem í eldlínunni hafa staðið svo sem hæstv. heilbrrh. Það hefur auðvitað vakið sérstaka athygli þingmanna hvað hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., hefur gætt þess alveg sérstaklega að koma aldrei til varnar ráðherrum sínum, hæstv. heilbrrh. þegar hún lendir í þrengingum sínum né heldur hæstv. félmrh. þegar spjótin standa á honum. Hann vill reyna að þvo hendur sínar af þessu sem hann getur auðvitað ekki. Sama gerir hæstv. umhvrh., varaformaður Framsfl., hann lætur lítið til sín taka. Hann vill ekki blandast þessum málum allt of mikið og maður hefur eðlilegan skilning á því að hann vilji forðast að lenda í þessum vondu flækjum og skilur stundum hæstv. félmrh. og heilbrrh. aleina eftir með skömmina og erfiðleikana.

Þetta er náttúrlega bara svona en það sem veldur mér hins vegar dálitlum áhyggjum er það hvar almennir hv. þm. Framsfl., þekktir að því að styðja ýmiss konar félagslegar skoðanir og eru félagslega meðvitaðir menn eins og sitjandi hæstv. forseti, eru í þessari orrahríð. Það er hrópandi, æpandi þögn í þessari tveggja daga umræðu. Ekki einn einasti þingmaður Framsfl. vill setja fingrafar sitt á þetta feigðarflan hæstv. félmrh. Það er eftirtektarvert, virðulegi forseti, en það skyldi náttúrlega engan undra. Á hinn bóginn neita ég að trúa því að menn á borð við Guðna Ágústsson, menn á borð við Jón Kristjánsson og Stefán Guðmundsson sem hafa gjarnan lýst ýmsum félagslegum viðhorfum og stutt félagslegar úrlausnir þjóðfélagsmála séu líka gengnir í þessi íhaldsbjörg. Að það sé búið að stinga upp í þá einhverjum þeim gúrkum sem gerir það að verkum að þeir eru hættir að hafa sjálfstæða hugsun eða skoðun og láta þetta bara yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Ég neita að trúa því.

[23:15]

Vissulega er rétt að halda því til haga sem vel er gert í því sambandi og sá þingmaður, sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni, Guðni Ágústsson, hefur tekið mjög hressilega til varnar í þessu óráðshjali hæstv. viðsk.- og iðnrh. um að gefa ríkisbankana köllum með pípuhatta og hafi hann þökk fyrir það. En hvar er hann í þessu máli? Af hverju þegir hann? Af hverju þegja þeir hinir, framsóknarmennirnir, sem enn þá hafa einhvern snefil af samvinnuhugsjóninni í sér en hafa ekki selt hana fyrir ráðherrastól og faðmlagið við íhaldið. Ég kalla sérstaklega eftir hv. þm. Framsfl. og vil að þeir geri þingheimi og þjóð ljósa afstöðu sína til þeirra vondu verka sem hér er verið að vinna. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á því að þeir séu þessari málsmeðferð, þessu efnisinnihaldi sammála. Ég harðneita að trúa því fyrr en ég sé það og get tekið á því. Og hvað með nýliða Framsfl.? Hina vösku sveit þingmanna sem kom með blik í augum og ætlaði öllu að breyta og allt að laga. Hún er týnd og tröllum gefin við þessa umræðu, vitaskuld. Ekki aukatekið orð, ekki andvarp, bara æpandi þögn. Og enn situr hann aleinn, hæstv. félmrh. Enginn snýst honum til varnar, ekki nokkur maður. Íhaldið er hér aðeins að reyna enda rennur þeim blóðið til skyldunnar. Þetta er baráttumál íhaldsins til áratuga. Það á nú að kroppa dálítið í vinnulöggjöfina. Það á dálítið að stýra því hvernig verkalýðshreyfingin ætlar að haga sínum innri málum. Þetta var líka markmið íhaldsins á öndverðri öldinni og er það enn í dag þótt minna fari fyrir því og fínna sé farið í málin en fyrr á dögum. En Framsókn er gengin í björg, um það er engum blöðum að fletta.

Virðulegi forseti. Satt að segja tel ég ekki mikla ástæðu til þess að vera að fara yfir einstakar greinar frv. Þær breytingar sem er að finna í frv. og þær breytingar sem gerðar eru á gildandi vinnulöggjöf eru allar því sama marki brenndar að þar er verið að þrengja hag verkalýðshreyfingarinnar í landinu, grípa inn í innri mál verkalýðshreyfingarinnar í landinu, segja nákvæmlega fyrir um það hvernig hún á að haga innri málum sínum hvað varðar félagsaðild, samningamálin og hvernig eigi að standa að því að greiða atkvæði. Hvað kemur næst, virðulegi forseti? Skyldi þeim detta í hug í ríkisstjórninni að setja lög á stjórnmálaflokkana og hefja um það nokkra umræðu hér og setja lög í þá veruna að tiltekinn fjöldi félagsmanna í stjórnmálaflokkunum þurfi að vera viðstaddur þegar stórar ákvarðanir eru teknar sem síðan hugsanlega ganga aftur í ríkisstjórninni, lög um miðstjórn Framsfl. Af hverju ekki? Eigum við ekki að hafa þetta allt í þessum anda? Er ekki rétt að hæstv. ráðherra gaumgæfi og gæti að því hvort að það sé ekki nauðsynlegt, þegar Framsfl. er í sínum stofnunum eða miðstjórn eða hvað það nú heitir að taka grundvallarákvarðanir og afstöðu til ákveðinna gjörða í ríkisstjórninni, að þar séu skýrir og klárir skilmálar, ákveðnar klárar leikreglur um það hvað þurfi margir að segja já og hversu margir nei til þess að málið sé samþykkt eða fellt og kannski hversu margir þurfi að mæta, einhver lágmarkstala í því? Hvers vegna ekki? Væri það ekki alveg í stíl við þetta? Af hverju á þessi löggjöf eingöngu að gilda um hina frjálsu verkalýðshreyfingu? Ég spyr og velti því fyrir mér.

Annar meginandi frv. er sá að það er ekki stafkrókur í því sem mun á nokkurn hátt auka réttindi launafólks. Það er ekkert ívilnandi atriði í þessu fyrir launafólk í landinu né samtök þess. Það er alveg sama hversu lengi þetta frv. er lesið. Það er ekki með nokkru móti hægt að finna það. Hér er þetta allt á hinn veginn.

Menn hafa rætt það eilítið að þetta inngrip í innri mál verkalýðshreyfingarinnar sé eingöngu á þeim vængnum og menn hafa með réttu bent á það hvers vegna sambærileg ákvæði er ekki að finna jafnítarleg um innviði Vinnuveitendasambandsins. Ég er ekki að mæla með því. Það er langt í frá. Ég tel hins vegar að þessi nákvæmu fyrirmæli um innra starf verkalýðshreyfingarinnar í landinu eigi ekki að binda í lög og alþingismenn og hæstv. ráðherrar eigi ekki að ganga fram á þann hátt að setja lög um frjáls félög fólks í þessu landi. Það var víða gert austan járntjalds á sinni tíð og er ekki til eftirbreytni.

Virðulegi forseti. Ég gæti haft um þetta langt mál. Ég ætla að fara að stytta ræðu mína enda tíminn senn liðinn. Ég segi hins vegar að lyktum að mér segir svo hugur að þessi ríkisstjórn hafi ekkert þrek og engan mátt eða döngun til þess að ljúka þessu máli. Þessi ríkisstjórn mun ekki hafa það af að keyra í gegn jafnumdeilda og vitlausa löggjöf og hér um ræðir gegn vilja allrar verkalýðshreyfingarinnar í landinu, gegn vilja sameinaðrar stjórnarandstöðu. Hún mun guggna og hún mun gefa eftir. Það er mín spásögn. Kannski ekki í kvöld, kannski ekki í nótt, kannski fyrir páska en í öllu falli mun hún guggna. Þetta frv. verður ekki að lögum á yfirstandandi þingi, það er mín spásögn. Ríkisstjórnin mun guggna í þessari baráttu. Hún er náttúrlega veik hið innra þegar allt kemur til alls, þrátt fyrir mjög mikinn þingmeirihluta. Ég trúi því og treysti að félagslega sinnaðir menn á borð við Guðna Ágústsson muni koma vitinu fyrir ráðherra sína hæstv. og koma þeim niður á jörðina og koma þeim í samband við fólk, gera þeim glögga grein fyrir því hvers konar veruleikafirring hér er á ferðinni. Ég trúi því enn að félagslega sinnaðir menn á borð við hann muni vinna sitt verk með hægðinni og gera það á næstu vikum.

Ég skal segja það, virðulegi forseti, að auðvitað er langaffarasælast að ruslafatan geymi þann pappír sem hér er að finna, þessar lausu hugmyndir, þessi orð á blaði og hæstv. ráðherra átti sig á því að um frumhlaup, um gönuhlaup var að ræða og segi okkur hér á þessum næturfundi að hann hafi gert mistök og að hann sjái eftir öllu saman og vilji taka þessi mál upp með nýjum hætti. Að hann vilji fara í opnar og frjálsar viðræður við verkalýðshreyfinguna og við aðila vinnumarkaðarins og fari aftur til upphafsins, fari aftur til þeirra markmiða sem lagt var af stað með í október 1994. Dettur nokkrum manni í hug eitt andartak að markmið nefndarstarfsins, að bæta samskipti á vinnumarkaði, skili sér í þessu frv. hér? Nei, þetta frv. er alls ekki til að bæta samskipti á vinnumarkaði. Og enn og aftur segi ég og það verða mín lokaorð, virðulegi forseti: Hér hefur hæstv. ráðherra haft fullkomin endaskipti á hlutunum. Hann hefur sennilega fengið högg á höfuðið. Ég er þeirrar trúar enn þá.