Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:17:08 (4497)

1996-04-10 14:17:08# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er beinlínis rangt hjá hæstv. ráðherra að ég stjórnist af einhverri taumlausri andúð á einkarekstri eða því að breyta í vissum tilvikum rekstrarformi opinberra stofnana. Ég tók það einmitt skýrt fram þegar Póstur og sími var til umræðu að það eitt og sér, ef ekkert annað héngi á spýtunni, gæti vel komið til sjálfstæðrar skoðunar. Ástæðan fyrir því að menn eru tortryggnir er reynslan af framgöngu fyrrv. ríkisstjórnar og þessarar ríkisstjórnar í þessum málum. Sporin hræða og það þýðir ekkert að koma hér og segja: Ríkið á að eiga þetta 100% og það á bara að vera eitt hlutabréf, eins og það sé gulltrygging fyrir því að ekki sé hægt að breyta neinu. Og hæstv. ráðherra tyggur þetta aftur og aftur með eina hlutabréfið. Menn hljóti að átta sig á því af því að þetta er eitt bréf, eitt blað en ekki mörg, þá sé þetta allt í lagi, eins og þetta blað sé óumbreytanlegt eða úr stáli. Auðvitað er þetta fjarstæða og það hefur gerst trekk í trekk að menn hafa reynt að læða hér í gegn lagabreytingum um einkavæðingu stofnana. Menn hafa fullyrt að það stæði ekki til að selja þær en rokið til um leið og þær heimildir voru komnar og afhent þær eða selt á hálfvirði. Þetta sýnir reynslan; endurtryggingin, lyfjaverslunin, síldarmjölið, allt þetta. Og er nema von að menn séu að verða dálítið tortryggnir á það hvernig að þessum hlutum er staðið auk alls sem tengist framgangsmátanum gagnvart starfsfólki o.s.frv. Það hefur líka legið fyrir að á bak við tjöldin eru þeir menn sem miklu ráða um framkvæmd málanna, ekki hæstv. ráðherra sem er kannski skár sinnaður í þessu heldur en ýmsir aðrir, sem viðurkenna það, segja það opinberlega að það þjóni engum tilgangi að vera að ,,háeffa`` bankana eða Póst og síma nema það eigi að selja þá. Formaður einkavæðingarnefndarinnar eða reyndar tveir formenn úr einkavæðingarnefndum hafa misst þetta út úr sér. Þeir hafa talað frá hjartanu og þess vegna er von að maður taki það ekki gilt þó að einn hæstv. ráðherra, mikill sem hann er, komi hér og segi: Þetta er allt í lagi af því að það er bara eitt hlutabréf og ríkið á að eiga 100%. Það bara dugar ekki í ljósi reynslunnar hvernig með þessi mál hefur verið farið. Þess vegna þarf að skoða þetta mikið betur, herra forseti, og það er alveg ótækt að afgreiða þessi mál nú á vorþingi.