Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:19:33 (4498)

1996-04-10 14:19:33# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Frv. sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir er í raun eitt þriggja sem lúta að breytingum á breyttu umhverfi póst- og símamála og fjarskiptamála í landinu öllu. Í annars stuttri og snaggaralegri ræðu ráðherra sem að sönnu upplýsti ekki neitt sérstaklega mikið og heyrðist illa út í sal heyrði ég það þó að hér er sannarlega um að ræða fylgifisk og fylgifrumvarp með frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Það eitt heyrði ég. Raunar gildir það sama um frv. til laga um breytingar á póstlögum. Á hinn bóginn átti framsöguræða hæstv. ráðherra það sammerkt ræðu hans hér fyrir nokkrum vikum þegar hann mælti fyrir frv. um rekstur Pósts og síma og ,,háeffingu`` þess fyrirtækis að það vantar algerlega alla framtíðarsýn, alla stefnumörkun og öll svör við þeim gildu spurningum um það hvers konar framtíðarsýn ráðherrann hefur í þessum efnum, bæði varðandi ytri umgjörð og efnisinnihald. Þetta frv. um fjarskipti svarar þessu í engu. Það eru tvær skýringar á því. Annaðhvort hefur ríkisstjórnin alls enga stefnu í þessum efnum ellegar, sem er þó sennilegra, að ríkisstjórnin forðast það að segja hlutina eins og hún hugsar þá. Með öðrum orðum, þau sjónarmið eru gild sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti áðan í þá veruna að þegar 1. gr. frv. sem hér er til umræðu er lesin saman með 2. gr. frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, þá gerir hún í raun ráð fyrir því að allt megi gerast, allt sé unnt ef ráðherranum dettur það í hug. Þá er ég, virðulegi forseti, að vísa til frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Pósts og síma þar sem kveðið er á um að hinu væntanlega hlutafélagi Pósts og síma sé heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum og engar hömlur á það settar. Það er eingöngu eigandi þessa eina bréfs, samgrh., sem um það getur tekið ákvörðun. Í samgn. hafa menn einmitt verið að ræða afleiðingar af þessu, þ.e. menn hafa með réttu bent á það hver sé réttur starfsmanna í nýju hlutafélagi Pósts og síma. Menn hafa reynt að finna svör við því. Á sama hátt hafa engin svör fengist við því hver sé réttur starfsmanna í dótturfyrirtæki Pósts og síma hf. Og einnig, ef menn halda áfram þessari röksemdafærslu, er ákvæði í frv. til laga um Póst og síma hf. þar sem tekið er skýrt fram að sala þess skuli óheimil án atbeina Alþingis. Gildir það líka um þau dótturfyrirtæki sem hæstv. ráðherra er heimilt að stofna ef honum sýnist svo? Lögfræðingar eru alls ekkert á eitt sáttir um það. Þess vegna er það hárrétt sem sagt hefur verið um 1. gr. þessa frv. um fjarskipti, að þar er þessi heimild opnuð. Tékkinn er algjörlega óútfylltur. Ráðherra getur eins og honum sýnist framselt þetta einkaleyfi til þeirra sem honum kemur til hugar. Þetta vekur grunsemdir um hvort verið sé að lauma einkavæðingunni inn bakdyramegin án þess að segja það. Sá sem hér stendur hefur alls engar fastmótaðar skoðanir á því að þessi rekstur skuli allur vera undir ríki um ókomna tíð, alls ekki. Þvert á móti er hann tilbúinn að ræða það á málefnalegum grunni hvers konar fyrirkomulag er heppilegt í því sambandi. Honum er líka ljóst eins og fram kemur í frv. að þessi víðtæki einkaréttur á fjarskiptum fellur niður 1. janúar 1998 að stórum hluta, þó ekki að öllu leyti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra í því sambandi til að gera okkur hv. þm. grein fyrir því í hverju þessi breyting muni felast fyrst og síðast. Hvernig birtist þessi breyting okkur 1. janúar 1998 þegar reglur Evrópusambandsins taka gildi? Á hvaða sviðum mun einkarétturinn falla niður og á hvaða sviðum ekki? Það er deilt um það, þ.e. verður heimilt að ríkið eigi grunnnetið áfram og selji aðgang að því? Eða er það svo að ríkinu sé jafnvel óheimilt að eiga það og þurfa að selja það eða ráðstafa því til félaga í sinni eigu? Það væri fróðlegt ef ráðherrann gæti í ítarlegu máli, ekki andsvari, farið yfir það og lýst því fyrir okkur hv. þm. hvernig þessi mynd komi til með að birtast okkur.

Virðulegi forseti. Ég benti á það hér í upphafi að frv. til laga um fjarskipti og raunar frv. til laga um breytingar á póstlögum eru auðvitað nauðsynleg frv. til hliðar við frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Pósts- og símamálastofnunar. Ég spyr því enn og aftur hvers vegna í veröldinni fylgdu þau frv. ekki þessu frv. til breytinga á Pósti og síma hf.? Hvers vegna er verið að koma með þetta inn í þingið um það bil fimm vikum eftir að það frv. var kynnt og farið í ítarlega umræðu um það mál? Hvers konar handarbakavinnubrögð voru það? Var þessi vinna ekki innt af hendi þegar menn lögðu stóru línurnar í ,,háeffingu`` Pósts og síma? Var þetta vinna sem menn voru að vinna nú á síðustu dögum og vikum til samræmingar við móðurfrv.? Þetta eru vinnubrögð, virðulegur forseti, sem maður hlýtur að gagnrýna mjög harðlega og gera það að verkum að hv. samgn. hlýtur að lenda aftur á byrjunarreit í sinni vinnu. Samgn. hefur verið að vinna sína heimavinnu í frv. til formbreytingar á Pósti og síma en þar hefur ákveðnum grundvallarspurningum verið ósvarað vegna þess að ekki hafa legið fyrir hugmyndir ríkisstjórnarinnar um breytingar á því sem breyta þarf, póstlögum og fjarskiptalögum. Ég dreg mjög í efa að samgn. takist á þeim örstutta tíma sem eftir lifir þings að ljúka þessari nauðsynlegu vinnu. Eða er það kannski ekki á stefnuskrá ráðherrans hæstv. að Alþingi afgreiði þessi frv. til laga um póstlög og fjarskiptalög? Er það jafnvel hugmynd hans að þau verði látin bíða eitthvað fram á haustið? Er það unnt? Ég minni enn og aftur á að samkvæmt frv. til laga um formbreytingu á Pósti og síma á sú nýja stofnun að fara af stað á haustdögum. Raunar eiga þau lög ef ég man rétt að taka gildi einhvern tímann í sumarbyrjun en í frv. er kveðið á um að hin nýja stofnun Pósts og síma hf. eigi ekki að taka til starfa fyrr en á haustdögum. Menn hafa því spurt hver eigi að sinna skyldum sem á félaginu hvíla frá því að lögin taka gildi og þar til Póstur og sími hf. á að verða að veruleika. Það eru fjórir mánuðir. Og fróðlegt verður að heyra svör hæstv. ráðherra um það hvernig hann hafi hugsað sér þetta tímabil og hvernig menn ætli að sinna þjónustu Pósts og síma á þessum mánuðum.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að árétta þessa grundvallarspurningu. Það er ljóst í öllum þessum frv. að heimildin til ráðherra er mjög rúm. Hann getur nánast gert það sem honum sýnist. Því hlýtur spurningin að vera þessi: Hvað hyggst ráðherra gera við þessar víðtæku heimildir sínar? Í engu er því svarað í frv. til fjarskiptalaga og því síður í frv. til formbreytingar á Pósti og síma. Þess vegna hlýt ég að árétta þessa grundvallarspurningu: Er það hugmynd ráðherrans og telur hann sig hafa þá heimild, það er líka fróðlegt að heyra álit hans á því, að hann geti með stofnun dótturfyrirtækja, með því að brjóta upp Póst og síma hf. með því að færa það í hinar ýmsu deildir, telur hann sig hafa þá heimild óskoraða? Hefur hann álit á því og hefur hann látið skoða í sínu háa ráðuneyti hvernig réttarstaða starfsmanna sé, til að mynda í dótturdótturfyrirtæki Pósts og síma hf.? Enn og aftur: Er ráðherrann sammála mér um það að ákvæði í frv. um Póst og síma um að atbeina Alþingis þurfi ef selja á, gildi líka um dóttur- eða dótturdótturfyrirtæki Pósts og síma hf.?

[14:30]

Gildir það líka ef Póstur og sími hf. tekur þá ákvörðun að kaupa þriðja fyrirtækið, hugsanlega erlent fyrirtæki? Þarf þá atbeina Alþingis ef Pósti og síma hf. dettur í hug að selja sinn hlut í því fyrirtæki? Þetta eru lögfræðileg álitaefni en alls ekki eingöngu teknísk. Þau eru fyrst og fremst pólitísk og bráðnauðsynlegt, virðulegi forseti, að menn viti hug hæstv. ráðherra í þessum efnum þannig að menn séu ekki að ræða þetta frv. hér og þessi frv. á einhverjum lausun nótum heldur á grundvelli þeirrar stefnumörkunar sem ég hlýt að ætla að að baki liggi af hálfu ríkisstjórnar og hæstv. samgrh.

Að öllu samanlögðu er lítið annað um þetta frv. að segja en að það dregur dám af faðerni eða móðerni sínu. Það svarar í engu þeim grundvallarspurningum sem það á að gera. Þetta er stórgallað frv. til laga um breytingar á Pósti og síma og breytingu til þess að gera það fyrirtæki að hlutafélagi.